Kristinn Kristinsson

Vesturfarar

Víkurkirkja í Mountain, ND Mynd JÞ

Séra Kristinn K. Ólafsson ólst upp í íslensku byggðinni í N. Dakota, fékk þar þá fræðslu sem börnum og unglingum bauðst á frumbýlingsárunum í Garðarbyggð. Hann kaus framhaldsnám og valdi guðfræði. Innritaðist í Luther College í Decorah í Iowa í lok 19. aldar og lauk þar B. A. námi árið 1900. Fór þaðan í heimahagana í Garðar þar sem hann kenndi börnum og unglingum eitt ár, en hélt svo áfram á námsbrautinni nú í prestaskóla í Chicago í Illinois og lauk þaðan prófi með ágætiseinkunn árið 1904. Að lokinni vígslu til prests 26. júní árið 1904 gerðist hann prestur þriggja, íslenskra safnaða í Garðar-, Þingvalla- og Fjallabyggðum í N. Dakota og þjónaði þeim á árunum 1904 til 1912. Flutti til Mountain og gerðist þá prestur allra safnaða í lútherska kirkjufélaginum í íslensku byggðinni í N. Dakota til ársins 1925.

Aðrir söfnuðir – önnur embættisverk

Séra Kristinn kvaddi söfnuði sína í N. Dakota og flutti norður til Manitoba þar sem hann gerðist prestur í slensku safnaðanna í Argylebyggð um fimm ára skeið til ársins 1930. Hélt þá vestur að Kyrrahafi og þjónaði þar Hallgrímssöfnuði í Seattle til ársins 1942. Hann hélt þaðan í austurveg til Illinois þar sem hann þjónaði í Mt. Carrol til 1949, þá lá leiðin í Kristkirkju í Sharon í Wisconsin árið 1949. Hann lauk ferlinum í Rock Grove prestakalli í Illinois árin 1954 – 1960. Meðfram þjónustu við ofangreinda söfnuði sinnti séra Kristinn mörgum verkefnum. Á árunum í Seattle 1930- 1942 kenndi hann grísku og Nýja testamenntisskýringar við lútherskan prestaskóla þar í borg. Hann ferðaðist iðulega um hinar fjölmörgu byggðir Íslendinga, bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Hann lagði Lútherska kirkjufélagi Íslendinga í N. Ameríku lið á ýmsa vega, var vararitari þess á árunum 1906 til 1914, varaforseti 1915 til 1921 og forseti þess 1923 til ársins 1942. Hann ritstýrði tímariti félagsins, Sameiningunni í tuttugu ár. Ótal ritgerðir og greinar birtust eftir hann reglulega í vesturíslenskum blöðum og tímaritum, svo sem Almanaki Ólafs Þorgeirssonar í Winnipeg og Tímaritu Þjóðræknisfélagsins.