Séra Páll Þorláksson

Vesturfarar

Páll Þorláksson lauk guðfræðinámi frá Concordia Seminary í St. Louis í júní, árið1875. Hann er svo vígður prestur í Norska kirkjufélaginu (Norwegian Synod) 8. júlí, 1875. Um þessar mundir voru vesturfarir frá Íslandi að aukast og fór Sigtryggur Jónasson með nærri 1200 Íslendinga til Winnipeg síðsumars og var ferðinni heitið til Nýja Íslands við Winnipegvatn. Íslendingar, sem komnir voru vestur og höfðu sest að í Wisconsin fylgdust eðlilega með þessum flutningi en ekki var áhugi þeirra á meðal að flytjast út í óbyggðir í Manitoba. Þeir höfðu komið sér fyrir í Ljósavatnssýslu (Shawano County) í Wisconsing og og höfðu myndað þar íslenskt landnám. Tengsl Séra Páls við landnema þar voru þónokkur t.a.m. voru foreldrar hans þar og fleiri skyldmenni og vinir. Eflaust hefur séra Páll gert  stjórn Norska kirkjufélagsins grein fyrir þessu því í ágúst er hann settur sóknarprestur fjögurra, norskra safnaða í umræddri norðanverðu Wisconsin nærri Shawano. Þeir voru í  Strand Congregation í Maple Valley, Oconto County, Leeman Congregation í Navarino, Shawano Congregation í Jerusalem og loks Green Valley Congregation en þrír síðastaldir söfnuðir voru allir í Shawano. Fjölmennastur þessara norsku safnaða var í Green Valley. Að lokinni vígslu í St. Louis fór Séra Páll til foreldra sinna og er þar þegar hann er settur prestur í norsku söfnuðunum. Um miðjan október hafði hann myndað söfnuð í íslensku byggðinni, The Icelandic Lutheran Congregation in Shawano County. 

Söfnuðir Séra Páls í Nýja Íslandi

Í Sögu Íslendinga í Vesturheimi III segir á einum stað: ,,Snemma á ári, 1877, skömmu eftir að þingráðið var myndað í Nýja Íslandi, var rætt á einum fundi þess, að nauðsyn bæri til að prestur væri í nýlendunni, og reisa eins margar kirkjur eða skólahús og nota þyrfti í bráð. Um vorið 27. 0g 28. apríl, héldu Fljótsbúar fund um þetta mál. Var meiri hluti manna því fylgjandi að fá prest, leggja fram fé til launa hans og koma upp kirkjum eftir þörfum. Þessi „meiri hluti“ voru þeir menn, sem voru á móti því, að séra Páll Þorláksson gerðist prestur í nýlendunni, og vildu láta það heita svo, að þótt hann hefði nokkurum sinnum endurnýjað tilboð sitt um að gerast prestur þar, þá myndi ekki verða af því. Varð sú niðurstaðan, að Íslendingar í nýlendunni mynduðu kirkjufélag út af fyrir sig, sem ekki væri háð öðrum kirkjufélögum í Vesturheimi. Nefnd manna var kjörin til að útvega (tvo) presta, semja við aðrar bygðir nýlendunnar um prestþjónustu, sjá um að kirkjum yrði komið upp, og afþakka prestþjónustu séra Páls. Um sömu mundir voru sams konar fundir haldnir í hinum öðrum bygðarlögum. En þar urðu skoðanir manna meira deildar um prestmálin. Í Mikley og meiri hluta Víðirnesbygðar, fylgdu menn meiri hluta stefnu Fljótsbúa, en íbúum Árnesbygðar og minni hlutanum úr Víðirnesbygð, þótti ekki nægar ástæður fyrir hendi til að neita boði séra Páls.. Klofnaði þá hin lúterska fylking Íslendinga í fyrsta sinni í Vesturheimi. En þegar þann veg var komið málum, að Árnesbygð var gengin úr leik, nokkur hluti Víðirnesbygðar og all-margir fylgjendur séra Páls bæði við Fljótið og út í Mikley, þá fengust ekki úr hinum þremur bygðum loforð um meira fé en nægði til að launa einum presti.“ Séra Páll flutti til Nýja Íslands haustið 1877 án þess að hafa fengið formlegt köllunarbréf en rétt er að geta þess að 120 heimilisfeður í Nýja Íslandi skrifuðu undir áskorunarbréf til Séra Páls um að hann taki að sér prestþjónustu í nýlendunni. Fljótlega eftir komuna þangað vinnur prestur að myndun safnaða í byggðinni og ásamt öðrum samdi hann tillögur um safnaðarlög. Þeir nefndu félagið Hinn Íslenzki lúterski söfnuður í Nýja Íslandi og til félagsins tilheyrðu Vídalínssöfnuður í Víðirnesbyggð, Hallgrímssöfnuður í sunnanverðri Árnesbyggð og Guðbrandssöfnuður í norður hluta sömu byggðar. Séra Páll átti bæði fylgjendur í Fljótsbyggð og eins í Mikley.

Norður Dakota

Að ofan kom fram að klofningur varð með íbúum Nýja Íslands út af trúmálum. Séra Páll var launaður af norsku kirkjufélagi á meðan stuðningsmenn Séra Jóns Bjarnasonar greiddu laun hans. Þetta og ýmislegt annað olli því að ,,Pálsmenn“ leituðu til leiðtoga síns, séra Páls og óskuðu aðstoðar hans við að flytja brott frá Nýja Íslandi og reyna landnám annars staðar. Prestur skoraðist ekki undan heldur skipulagði landaleit fyrir sunnan landamærin, jafnvel suður í Minnesota. Hann kallaði tvo menn í sínum röðum til liðs við sig og fóru þeir með gufuskipi upp Rauðá til Pembina í N. Dakota. Þeim hafði verið ráðlagt að kanna svæði vestur af Pembina og gerðu þeir það. Fundu ákjósanlegt svæði austar af svokölluðum Pembinafjöllum eða hæðum og þar hófst íslenskt landnám árið 1877. Á næstu árum fluttu safnaðarmeðlimir séra Páls suður á nýja landnámssvæðið í N. Dakota og þrátt fyrir vaxandi veikindi séra Páls hófst hann handa árið 1880 við að mynda söfnuði og skóla. Í ársbyrjun höfðu þrír barna- og unglingaskólar verið myndaðir og um haustið kom að kirkjumálum. Séra Páll boðaði fund í Park River héraði sem var haldinn 24. nóvember,1880 og sátu hann 12 menn, þar á meðal Stephan G. Stephansson. Hann átti hugmyndina um nafn á söfnuðinn sem nefndist Garðarsöfnuður, Gardar Congregation. Sex dögum síðar var svipaður fundur settur í Vík (núna Mountain) og kallaðist hann í upphafi Víkursöfnuður og en heitir í dag Mountain Congregation. Síðasti fundurinn var svo haldinn á heimili Jóhanns Hallssonar 2. janúar,1881 og þar var Tunguársöfnuður eða Tongue River Congregation stofnaður í svonefndri Hallsonbyggð.