Saga Íslendinga í Vesturheimi Vol. V segir um séra Magnús bls. 69-70:
,,Séra Magnús J. Skaptason var fæddur 4. feb. 1850, og voru foreldrar hans Jósep læknir Skaptason að Hnausum og kona hans, Anna Margrét Björnsdóttir umboðsmanns á Þingeyrum Ólsens. Magnús útskrifaðist frá Prestaskóla Íslands 1874 og tók prestvígslu árið eftir. Hann var seinast á Íslandi að Hvammi í Laxárdal, flosnaði þar upp og flutti til Nýja Íslands árið 1887. Þjónaði hann þar lúterskum söfnuðum þar til 1891, er hann tók að snúast gegn ýmsum kenningum lútersku kirkjunnar. Sögðu fjórir söfnuðir hans sig úr kirkjufélaginu lúterska, og stofnuðu þá hann og fylgjendur hans nýtt kirkjufélag, er stóð skamma stund. Stóð nokkur styrr um séra Magnús á þessum árum. Hann þjónaði Únitarasöfnuðinum í Winnipeg 1894-1899, er hann fluttist til Minnesota. Nokkru seinna hvarf hann aftur til Winnipeg.“
Þegar séra Magnús kom til Manitoba og settist að í Nýja Íslandi fagnaði Sameiningin komu hans og bauð hann velkominn til að þjóna söfnuðum í Nýja Íslandi. Þessir söfnuðir voru á Víðirnesi, Gimli, Árnesi, Hnausum, Fljótsbyggð og Heklu. Þessum söfnuði hafði Halldór Briem þjónað til ársins 1881, eftir það var enginn þjónusta í Nýja Íslandi. En með komu séra Jóns Bjarnasonar til baka frá Íslandi árið 1884 þá kom aftur líf í söfnuði Nýja Íslands t.a.m.byggði Bræðrasöfnuður í Fljótsbyggð hús árið 1885 á austurbakka Íslendingafljóts og nefndi það Safnaðarhús. Innflytjendur frá Íslandi og frá ýmsum byggðum í Kanada eða Bandaríkjunum voru fátækir svo ekki var ráðist í að finna prest. Húslestrar voru í staðinn reglulegir. Um vorið 1887 leitaði Bræðrasöfnuður til séra Magnúsar og tók hann kalli. Koma hans til Nýja Íslands hvatti söfnuði til dáða, Bræðrasöfnuði óx ásmegin, aðstaða í Safnaðarhúsi var bætt t.d. voru nýir bekkir settir upp og orgel sem kvenfélagið keypti var sett upp. Árið 1888 var rætt um að reisa nýja kirkju og 1889 að selja Safnaðarhúsið. Árið 1890 réðst söfnuðurinn í það stórvirki að halda kirkjuþing sem 60 einstaklingar frá flestum byggðum Íslendinga í fylkinu sóttu. Séra Magnús hefur án efa átt mikinn þátt í þessum eldmóði Bræðrasafnaðar en hann endaði veru sína þar afar óvænt árið 1891 þegar hann sagði sig út lútersku kirkjufélaginu, varð andsnúinn kenningum þess og sneri sér að Únitarisma.