Fimmtudaginn 23. mars, 1972 birti Lögberg-Heimskringa fyrsta hluta greinar eftir séra Gísla Brynjólfsson en sjómannablaðið Víkingur á Íslandi birti fyrst grein þessa sem er úr ritgerð sem séra Gísli samdi um Grindavíkurpresta. Séra Gísli kallar hana ,,Frásögn af séra Oddi Vigfúsi Gíslasyni“ og í inngangi segir hann m.a. ,, Séra Oddur Gíslason mun hafa verið með frumlegri gáfumönnum íslenzkrar prestastéttar. Hefir því æviferill hans skapað litríka sögu, nokkuð frábrugðna hinu hversdagslega, eins og jafnan gildir um slíka menn.“ En hér kemur fyrsti hluti greinarinnar.
,,Nú kom á Stað einn mesti hugsjónamaður íslenzkrar prestastéttar á síðustu öld. Hann hafði líka svo lifandi áhuga á lífsbjargarvegi sóknarbarna sinna, að gjarna má orða það svo, að hann hafi fært boðun fagnaðarerindisins út í sjávarútveginn og sjómennskuna. Hann lét ekki sitja við að prédika það á stólnum. Hann vildi gera það að lifandi afli í lífi manna og finna því farveg inn í hjörtu fólksins með því að vinna af ósérhlífni, dugnaði og trúmennsku að því að gera hugsjónirnar að veruleika. Þessi maður var sr. Oddur Vigfús Gíslason. Þótt hann ef til vill sé einna frægastur fyrir ,,brúðarránið“ í Kirkjuvogi á gamlársdag 1870, mega íslenzkir sjómenn minnast hans fyrst og fremst sem brautryðjanda í slysavörnum og baráttu hans í þeirra þágu fyrir bættum atvinnu-háttum og betri afkomu“.
Ætt og uppvöxtur
,,Sr. Oddur er fæddur í Reykjavík 8. apr. 1836. Foreldrar hans voru Gísli Jónsson trésmiður, Húnvetningur að ætt, og Rósa Grímsdóttir. Hún var Eyfirðingur. Þau bjuggu við góðan hag í Reykjavík. Sr. Oddur varð stúdent 8. júlí, 1858. Tveim árum síðar lauk hann prófi frá Prestaskólanum. En hann gekk ekki strax í þjónustu kirkjunnar. Stiptyfirvöldin skikkuðu hann að vísu til Grímseyjar þrem árum síðar, en hann lagði fram vottorð landlæknis um heilsubrest og slapp þá við útlegð. Fjölhæfni, gáfur og umbótaþrá þessa mikla hæfileika og hugsjónamanns fengu útrás á margan hátt næstu árin. Hann hafði búsetu í Reykjavík og átti 6 ár sæti í bæjarstjórn. Hann sigldi til Englands, lærði enska tungu til hlítar, stundaði kennslu og samdi kennslubók í ensku, hina fyrstu hér á landi, þýddi bækur og gerðist leiðsögumaður erlendra ferðamanna. En aðallega snerist hugur hans að útvegi og sjósókn og ýmsum nýjungum og umbótum á því sviði, svo sem síldveiðum, lifrabræðslu o. fl.,, Græddi hann á því stórlega,“ segir á einum stað (Blanda V. bls. 155) en þar mun sannast sem oftar, að margur heldur auð í annars garði. Á ýmsu mun hafa gengið um hag og afkomu Odds á þessum árum. Að því lúta orð Þórhalls biskups er hann minntist hans látins í Kirkjublaði sínu m.a. á þessa leið: ,,Mesta braskaramenni landsins um hríð, ef valið er orðið af lakara endanum. En minnst var það honum sjálfum til peningasláttu.“
,,Þótti mér hann fríður“
,,Eina svipmynd eigum við úr lífi Odds Gíslasonar frá þessum tíma. Það er sjóferð hans úr Reykjavík suður til Njarðvíkur í vetrarbyrjun 1888. Fengu þá nokkrir norðlenzkir útróðramenn far með honum. Einn af þeim var Símon Eiríksson frá Djúpadal í Skagafirði. Er ferðasaga hans prentuð í V.B. Blöndu og byrjar með að gefa þessa glæsilegu lýsingu á Oddi kandídat:,, Þótti mér hann fríður, snarlegur og drengilegur á velli.“ Og vel reyndist hann þeim félögum, veitti þeim rausnarlega og hélt uppi gleðskap á leiðinni, en skipið skreið vel í góðum norðanbyr svo að landið sýndist fljúga. ,,Lá nú vel á drengjum.“ Þegar suður í Njarðvík kom, sýndi Oddur þeim bræðsluhús sitt og potta og ýmis verkfæri og útlistaði fyrir þeim vinnubrögðin. Svo gaf hann þeim mat, brauð og flesk, sem kom sér vel því að þeir voru allir svangir. Að lokum lætur Símon svo um mælt, að hann telji Odd Gíslason einn af alúðlegustu og drenglyndustu mönnum óþekktum, sem hann hafi fyrir hitt“.
Kvonfang
,,Tveim árum eftir þetta fór Oddur þá för til Njarðvíkur, sem gerði hann frægan um allt land. Það var þegar hann nam á brott og flutti til Reykjavíkur, gegn vilja föður hennar, heitmey sína Önnu Vilhjálmsdóttur hins ríka í Kirkjuvogi. Er þessi frægðarför rakin all-ítarlega í Annál 19. aldar og víðar. ,, Blöð fóru þá lítt með slíkt efni, en miklar sögur gengu af ,,brúðarráninu“ í bréfum og tali um allt land.“(N.Kbl). Þau Anna og Oddur voru gefin saman í heimahúsum í Reykjavík af sr. Ólafi Pálssyni dómkirkjupresti á gamlársdag 1870. Voru svaramenn þeirra Jón landlæknir Hjaltalín og Hans Anton Sivertsen factor Knutsonsverzlunar og formaður bæjarstjórnar. Sýna þessi nöfn ótvírætt að Oddur hefur notið hylli helztu manna bæjarins þótt brúðkaup hans bæri að með svo óvenjulegum hætti. Næstu 5 árin bjuggu þau Anna og Oddur í Reykjavík og fæddust þeim tvær dætur. Sú fyrri, f. 17.3.1872 bar nöfn móðurforeldra sinna, Vilhjálmína Þórunn. Bendir það til þess að fljótt komust á sættir með þeim tengda feðgunum. En sannspár reyndist Kirkjuvogsbóndinn um það, að ekki var það neitt sældarbrauð á veraldarvísu að vera gift Oddi Gíslasyni. Þau hjón voru jafnan fátæk mjög enda hlóðst á þau mikil ómegð. Þau eignuðust 15 börn. Af þeim komust 10 til fullorðins ára. Fluttust þau öll vestur um haf nema tvö, þau Steinunn kona Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn og Vilhjálmur bóndi á Höfnum“.
Próf og prestavígsla
,,Á þessum árum var það skylda guðfræðikandidata að svara árlega nokkrum spurningum í guðfræði til að sýna hve vel þeir héldu við þekkingu sinni og þá jafnframt hve hæfir þeir væru til prestsskapar. Fóru þessi próf fram með milligöngu viðkomandi prófasts. Til marks um það, að Oddur hafði ýmsu öðru að sinna en guðfræðinámi á Reykjavíkurárum sínum er eftirfarandi bréf til biskups frá sr. Þórarni í Görðum dags 8. janúar, 1873″. ,,Með bréfi þessu sendi ég yður háæruverðugheitum examen theolog. kand. Odds V. Gíslasonar í Reykjavík, sem mér var sent með hæstv. bréfi 11. jan. f. á, en sem nefndur kandidat hefur ekki þózt hafa tíma til að leysa fyrr en nú.“ Ekki mun þess dráttur á svari Odds hafa stafað af neinu fráhvarfi hans frá trúnni eða efasemdum um gildi kristindómsins og kirkjulegrar starfsemi, enda þótt hann hefði ekki góða reynslu af viðskiptum sínum við stiptyfirvöld, er þau vildu skikka hann til Grímseyjar eins og fyrr er sagt. Nú ákveður hann að sækja brauð. Fyrir valinu verður Lundur í Borgarfirði, sem var laus er sr. Bjarni Sigvaldason hvarf þaðan til Staðar í Steingrímsfirði. Ekki sóttu aðrir um brauðið en Oddur. Í umsögn sinni kemst biskup, dr. Pétur Pétursson, svo að orði, að umsækjandinn sé ,,duglegur og atorkusamur maður. Starfsemi hans hefur reyndar eigi staðið í nánu sambandi við prestlega þjónustu að öðru leyti en því, sem hann hefur prédikað við og við og leyst úr hinum árlegu guðfræði-spurningum, íslenzkað eina enska guðorðabók og stutt að útgáfu kristilegra smárita.“ En með því að enginn annar hefur sótt um Lund, leyfir bikup sér að mæla með Oddi og var honum veitt brauðið 3. sept. 1875 og vígður 28. nóvember sama ár, ásamt sr. Brynjólfi Gunnarssyni frá Kirkjuvogi. Hann varð síðar eftirmaður sr. Odds í Stað í Grindavík“.
Prestur að Lundi
Næsta vor fluttust þau hjónin upp að Lundi ásamt tveim dætrum sínum og móður prests, sem þá var orðin ekkja, komin yfir sjötugt. Efndu þau þegar til búskapar og réðu til sín marga þjóna úr ýmsum áttum. Smalinn kom úr Gufunesi, vinnukonurnar, sem voru fjórar, úr Reykjavík, frá Hrúðunesi í Leiru, Geitaskarði í Langadal og Signýjarstöðum í Hálsasveit, en vinnumennirnir (2) frá Elliðavatni og Miðskála undir Eyjafjöllum. Sýnir þetta vel hve vinnufólk fluttist mikið milli héraða á þessum árum. Ennfremur komu til þeirra hjóna þetta vor 2 tökubörn svo að alls varð heimilisfólkið 14 manns. Lundur var tekjuminnsta brauðið í Borgarfirði á þessum tíma. Jörðin var talin geta framfleytt 6 kúm, 300 fjár, 25 hrossum. Túnið var afar þýft, ógirt og illa ræktað, jörðin var fólks- og hestafrek og búskapur því ærið tilkostnaðarsamur. Húsakynnin voru frekar léleg, kirkjan úr torfi byggð 1860, nokkuð farin að fúna. En hún átti í sjóði tæpar 800 krónur, sem var mikið fé og hefði að mestu nægt til uppbyggingar hennar á sínum tíma. Má sjálfsagt telja sjóð hennar í hundruðum þúsunda þegar miðað er við núverandi verðlag. Fráfarandi prestur, sr. Bjarni, galt innstæðufé kirkjunnar eftirmanni sínum að fullu, svo sem lög gera ráð fyrir. Mestu af því varði sr. Oddur til kaupa bæði búpening og búsmuni á uppboði sem fram fór á Lundi við prestaskiptin. Þetta var í mesta máta eðlilegt, þá voru engir bankar eða sjóðir til að taka við fé á vöxtu. En þetta reyndist ekki vel. Búskapurinn bar sig ekki, fólkshald mikið, tíðafar misjafnt og vanhöld á skepnum. Svo bætti það heldur ekki úr skák, að prestur var á þessum árum all-vínhneigður og hefur sjálfsagt verið nokkuð laus við heimilið svo mörgum áhugamálum, sem hann vildi sinna. Það fór því svo, að þegar hann fór frá Lundi skuldaði hann kirkjunni tæplega eitt þúsund krónur. Reyndist honum mjög erfitt að greiða þá skuld“.
Áhugasömum um niðurlag greinar séra Odds er bent á Lögberg-Heimskringlu mars-maí 1972.
Við skildum við séra Odd í basli á Lundi í Borgarfirði en betra tók við þegar honum var veittur Staður í Grindavík árið 1878 þar sem hann þjónaði til 9, maí, 1894, árið sem hann flutti vestur til Kanada. Þar þjónaði hann söfnuðum í Nýja Íslandi og Selkirk frá júli árið 1894 til 1903. Þá sagði hann sig úr kirkjufélagi Íslendinga í Vesturheimi en þjónaði söfnuðum eftir það í Westbourne í Manitoba og Þingvallabyggð í Saskatchewan. Áhugi hans beindist meir og meir að læknisfræði, nam fræðin í Rochester í New York og sýnir vottorð frá New York Institute of Physicians & Surgeons útgefið 23. mars, 1904 að hann hafði lokið námi í líffræði, huglækningum og dáleiðslulækningum með hæsta heiðri. Ennfremur lærði hann í Chicago þar sem hann fékk Diploma frá American College of MechanoTherapy.