Séra Valtýr Emil Guðmundsson

Vesturfarar

Í Vestur-Íslenskar Æviskrár V er ágæt samantekt um störf Únitaraprestsins séra Valtýs Emils Guðmundssonar: ,,Hann er svæðis-yfirmaður Únitarisku kirkjunnar í 11 miðvesturríkjum Bandaríkjanna og 3 fylkjum Canada. Hann hefur stundað nám í guðfræði við Háskóla Íslands 1945-1947, við University of Chicago College 1947-1949 og Meadville Theological School, sem er tengdur Chicago háskólanum og aðalprestaskóli Unitara og útskrifaðist þaðan sem prestur með B.D. prófi 1952. Hann hefur unnið til margskonar viðurkenninga fyrir námsafrek, m.a. D.D – Doctor of Divinity – honoris causa – í júní 1978 frá Meadville Seminary, Chicago University. Á árunum 1952 til 1965 gengdi hann presstörfum vítt og breitt um Bandaríkin, var eftirlits- og útbreiðslustjóri fyrir Únitariska kirkjufélagið um tíma og síðast, eins og áður segir, svæðisyfirmaður kirkjufélagsins í miðríkjum Bandaríkjanna og sléttufylkjum Canada, með aðsetri í Minneapolis, Minn.,U.S.A. Á síðustu árum hefur hann unnið að bók um upphaf Únitarahreyfingarinnar meðal Íslendinga í Vesturheimi og var langt kominn með hana, er hann andaðist skyndilega á æskuheimili sínu, Borg, er fjölskyldan var þar í jólaheimsókn…Séra Emil kom nokkrum sinnum til Íslands. Fyrst til háskólanáms 1945-1947, svo sumarið 1973, er öll fjölskyldan dvaldi á Íslandi og svo í tvo mánuði 1981, er hann var að safna efni í bók sína um Únitarahreyfinguna meðal Vestur-Íslendinga.“

Samantektin að ofan endar á upplýsingum um eiginkonu prestsins, sem hér fylgir: ,,K. 14. júní, 1951: Barbara Jane Rohrke, f. 15. febr. 1927 í Chicago. For.: Lloyd Ernst Rohrke, f. 13. mars, 1902, kennari, af þýskum ættum og k.h. Helen Bullard, f. 15. ág. 1902. myndhöggvari. Þau skildu 1930. Barbara hefur stundað nám við marga háskóla og er sérgrein hennar vistfræði (ecology). Hún hefur B.A. próf frá University of Tennessee 1950, M.A. próf frá Mankato State University 1965 og Ph.D- Doctor of Philosophy – frá Iowa State University 1969. Sem vistfræðingur (Ecologist) starfar hún hjá Metropolitan Waste Control Commission í St. Paul, Minn. og víðar.“