Luther B Kristjanson

Vesturfarar

Að loknu námi í Nebraska var ráðinn til landbúnaðarráðuneytis Kanada. Í VÍÆ IV er sagt um starfsferil hans:,,Starfaði  fyrir landbúnaðarráðuneyti Canadastjórnar á árunum 1953-’55 í Saskatoon og Ottawa. Skipaður forstjóri 1959 fyrir Manitoba Crop Insurance Corporation, og kom þá meðal annars á vátryggingu gegn uppskerubresti, sem varð öðrum fylkjum til fyrirmyndar og tekið var upp víðar, t.d. í Ísrael. Aðstoðar-ráðherra í akuryrkjumálum 1960-’61 og aftur 1962-1964. Árið 1961-’62 var hann fenginn, með leyfi fylkisins, til að taka sæti í nefnd með háskólamönnum frá Harvard til að gera áætlanir um hagþróun í Íran og fór nefndin þangað austur. Vann hann aðallega að áætlun um landrækt og lánastarfsemi. Frá 1964 hefur hann starfað hjá matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og starfaði fyrst 1964-’65 sem hagfræðilegur ráðunautur í Íran, þar sem hann dvaldi 18 mánuði, en frá 1965-’68 dvaldi hann í Róm við að gera áætlanir fyrir FAO um jarðrækt og vatnsmiðlanir, og verið yfirmaður þeirrar deildar FAO, sem um framleiðslumál og landbúnað fjallar. Hefur starf hans ekki sízt verið fólgið í því að gera áætlanir um tæknilega aðstoð og matvælamiðlun til vanþróaðra ríkja í Asíu og Afríku og hefur aðalaðsetur hans verið í Róm, en jafnframt hefur hann orðið að vera á stöðugum ferðalögum til þeirra landa, sem notið hafa aðstoðar FAO, til að hafa eftirlit og umsjón með framkvæmdum þessara áætlana.“