Skúli Sigfússon var frá upphafi Lundarbyggðar áhugasamur um velferð allra íbúa, ekki bara landa sinna sem voru reyndar í nokkrum meirihluta heldur og líka bænda og athafnamanna af öðru þjóðerni. Lítið samfélag í Lundarbyggð stækkaði hratt á síðasta áratug 19. aldar og á fyrstu árum þeirrar 20. Skólar voru byggðir í fjölmennustu sveitunum, kirkjur risu og pósthús sömuleiðis en margt skorti til að brýnustu þörfum landnema væri mætt. Samgönguleiðit til og frá byggðinni voru nánast engar svo allir flutnigar voru erfiðir og tímafrekir. Þá vantaði alla aðstöðu fyrir íbúa til að sinna félagslegum þáttum og þótt lestrarfélög væru stofnuð þá vantaði sárlega samkomuhús.