Kristján Theodore Árnason, betur þekktur í Vesturheimi sem Ted Arnason ólst upp í Nýja Íslandi, á heimili þar sem foreldrar hans hvöttu börn sín áfram í lífinu og studdu sem best þau máttu. Ted þurfti ekki mikla hvatningu, hann var ungur stórhuga og vildi veg landa sinna vel hvarvetna í Vesturheimi. Ágæta samantekt um hann er að finna í VÍÆ V bls.12-14. Þar segir:,, Kristján Theodore Árnason naut venjulegrar skólagöngu í barnaskóla sveitarinnar og á Gimli. Var í 4 ár við nám í rafmagnsfræði og vann sér meistararéttindi í því fagi. Ungur vann hann, sem systkini hans, á stórbúi föður síns, sem oft hafði um 100 gripi á fóðrum, þar af um 50 mjólkandi kýr. Hann stofnaði með bræðrum sínum félag um fiskiveiðar á Winnipegvatni, fiskverkun og sölu til Bandaríkjanna. Í seinni heimsstyrjöldinni var hann 4 1/2 ár í canadiska flughernum. Stofnaði ásamt bræðrum sínum tveim, rafmagnsfirmað Arnason Electric, er tók að sér rafvæðingu í sveitum og bæjum Manitobafylkis. Stofnaði 1963 verktakafyrirtækið Arnason Construction Co., Ltd. ásamt bræðrum sínum. Hefur það fyrirtæki tekið að sér mannvirkjagerð, svo sem vatnsmiðlun, holræsagerð,pípulagningar, vegagerð og byggingar víðsvegar í Vestur-Canada. Hann á með bræðrum sínum verslunarhús og verslanir á Gimli. Vann á flugvellinum á Gimli í 10 ár, þar af 5 ár sem yfirmaður Rafmagnsdeildar.“
Vesturíslensk félög- tengsl við Ísland.
Marjorie, eiginkona Teds, tók virkan þátt í áhugamálum manns síns og vann með honum í ýmsum félögum. Í áðurnefndri samantekt segir um þetta:,,Þau hjónin stofnuðu, ásamt Stefáni og Ollu Stefánsson, ferðaskrifstofuna Viking Travel,Ltd. árið 1976, er hefur á umliðnum árum séð um ferðir flestra Vestur-Íslendinga, sem árlega hafa komið til Íslands og einnig séð um hópferðir þeirra, sem vestur hafa farið frá Íslandi. Þau Stefán og Olla hafa nú hætt þátttöku í fyrirtækinu og er Mrs. Árnason nú forstjóri þess. Kristján Theodore er formaður í mörgum félögum, svo sem Félagi til hjálpar þroskaheftra á Gimli, Íslensk-Canadiska félaginu í Winnipeg á tímabili, Útgáfufélagi Lögbergs-Heimskringlu í 6 ár, Afmælisnefndinni til minningar um 100 ára byggð í Nýja-Íslandi 1975, en sú nefnd sá um móttökur og gistingu á um 1500 manna hópi heiman frá Íslandi á meðan hátíðahöldin stóðu yfir á Gimli. Ritari verslunarráðs Gimlibæjar (Chamber of Commerce). Í stjórn Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi (Icelandic National League). Í stjórn Canada-Ísland stofnunarinnar (Canada-Iceland Foundation). Hann hefur verið ýmist formaður eða starfandi félagsmaður í fjölda menningarsamtaka, klúbba, íþróttafélaga og bræðrafélaga, sem starfandi eru á Gimli. Hann er nú bæjarstjóri á Gimli og hefur verið það frá því hann var fyrst kjörinn 26. október, 1977 með tveim þriðju meirihluta atkvæða….Eftir giftingu (innsk. 1948 JÞ) bjuggu þau hjónin á Gimli í 16 ár en fluttu þá heimili sitt til Winnipeg. 1974 byggðu þau sér nýtt hús á Gimli og hafa átt þar heima síðan. Marjorie hefur verið manni sínum mikil stoð í hinum margbreytilegu störfum hans. M.a. er hún, sem áður segir, forstjóri Viking Travel ferðaskrifstofunnar og hefur skipulagt og stjórnað mörgum hópferðum til Íslands um langt skeið. Heimili þeirra hefur staðið opið öllum Íslendingum að heiman, háum sem, lágum, er komið hafa til Manitoba og þurft á liðsinni að halda. Gestrisni þeirra og fyrirgreiðsla hefur verið frábær, enda hefu svo mikill gjöldi Íslendinga notið hennar að undrun sætir. Á það jafnt við um helstu fyrirmenn þjóðarinnar, sem og listamannahópa úr öllum listgreinum, frændfólk og fjölda einstaklinga. Mrs. Árnason var fjallkona á Íslendingadeginum á Gimli árið 1981.“