Lífshlaup Jóns Stefánssonar úr N. Múlasýslu er merkilegt. Ágæt samantekt í Vestur-Íslenskar Æviskrár IV gerir því ágæt skil. Höfundur greinir frá uppruna Jóns, ætt hans og nokkrum ættingjum en segir svo:
,,Ólst upp í bernsku á Hjaltastöðum, en fluttist eftir lát föður síns með móður sinni að Geitagerði í Fljótsdal og fór þaðan 1893 til Vesturheims ásamt Guðmundi bróður sínum (f. 14. september, 1881, seinna kennari í Minneapolis, Minn). Fyrsta árið vestra var hann hjá föðursystur sinni, Þórunni, stundaði tvo vetur, 1894-1896, nám í verzlunarskóla í St.Paul. Um sumarið 1895 var hann með Guðmundi föðurbróður sínum í Minnesota. Að loknu námi hóf hann vinnu á skrifstofu í Watertown, S. Dak. 1898 gerðist hann sjálfboðaliði í 1st South Dakota Volunteer Infantry Regiment og var sendur með því til Philippseyja í spænsk-ameríska stríðinu, varð undirforingi og gat sér góðan orðstír. Stundum kallaður ,,Philippseyjakappi“ . Er liðið var sent heim var Jón leystur frá herþjónustu og hélt þá austur til Shanghai, Madras, Bombey og þaðan vestur um Súesskurð um Miðjarðarhaf og svo til Englands, Noregs og Danmerkur áleiðis til Íslands og kom til Seyðisfjarðar seint í jan. 1900. Sumarið 1900 réðst hann til Reykjavíkur og var þar oft í fylgd með enskum ferðamönnum, en var í verzlunarskóla í Kaupmannahöfn næsta vetur. Árin 1902-08 var hann framkvæmdarstjóri Pöntunarfélags Fljótsdalshéraðs á Seyðisfirði. Útgerðarmaður á Seyðisfirði 1909-1913 og bæjarfulltrúi þar 6 ár og hvarf aftur vestur um haf. Kornkaupm. (elevator manager) í Saskatchewan 1913-18. Vann að stórskipasmíðum við Sparrows Point í grennd við Baltimore Md.,1918-1924. Á þessum árum lauk hann prófi í endurskoðun við La Salle University, Chicago, og vann löngum eftir það hjá tryggingafélagi í Baltimore (Maryland Casualty Co.). Síðustu æviárin var hann starfsmaður ríkisins, fyrst í Washington D.C., og síðar í Baltimore.“