Sæunn Brynjólfsdóttir

Vesturfarar

Sæunn Brynjólfsdóttir giftist Brynjólfi Teitssyni úr Skagafirði skömmu eftir komuna til Kanada. Hann vann hjá Hudson’s Bay fyrirtækinu og hélt því áfram næstu árin. Sæunn ól honum fyrsta barn þeirra, Halldór árið 1893 og sinnti heimilinu. Sæunn var að eðlisfari afskaplega gestrisin og áttu margir eftir að kynnast því. Þeim hjónum var snemma ljóst að illilega skorti sómasamlegan gististað í borginni fyrir þá mörgu landa sem þangað komu úr hinum ýmsu byggðum. Þau ákváðu þá að láta reisa veglegt hús sem bæði hýsti gesti og matsölustað. Heimskringla sagði þetta um fyrirtæki þeirra 15. september, 1904: ,, ..þau hjónin Brynjólfur Teitsson og kona hans Sæunn Brynjólfsdóttir að 424 Corydon Avenue, Fort Rouge, hafa í sumar látið byggja stórt og veglegt gistihús, sem þau nú búa í. Hús þetta, sem þau nefna Fort Rouge Hotel, er 56 feta langt, 28 feta breitt og stendur á 9 feta djúpum steingrunni; og nær grunnurinn hér um bil 6 fet niður í jörð niður, en 3 fet yfir gangtröðina, svo að kjallarinn er hið hentugasta pláss  og rúmgóður; þar er hitunarvélin, þvottaáhöld öll og ýmsir bjartir og loftgóðir geymsluklefar, svo sem fyrir garðávexti, korn, og kjötmat, mjólk og smjör og fleira þess háttar. Á neðsta aðal-gólfi er matsölubúð, setu stofa og reykinga og svo borðstofan, þar sem 40 manns geta matast í einu; á þessu gólfi er einnig eldhús og búr og eldiviðarskýli. En á hinu tveimur efri loftunum eru 24 svefnherbergi, hvert 9×11 fet og 10 fet undir loft. Auk þess eru tvö salerni og baðherbergi í húsinu, svo að samtals eru þar rúm 30 herbergi auk kjallarans. Húsið er þríloftað á grunninum. Öll eru herbergin björt og loftgóð, öll lýst með rafljósum og hituð með vatni, og hefir allur sá útbúnaður kostað ærna peninga. Als kostaði hús þetta um átta þúsund dollars, auk húsbúnaðar, sem kostaði um tvö þúsund dollars. Svo að alls hefi húsið með innanstokksmununum kostað um tíu þúsund dollars. Óþarft er að taka fram, að þau hjón skulda enn meginið af fé því sem hús þetta hefir kostað, en þau eiga tvær húseignir skuldlausar við hliðina á þessu stóra gistihúsi, sem eru báðar full fimm þúsund dollara virði, og auk þess hafa þau nokkrar skepnur, svo sem 3 kýr, 2 kvígur, hest og 30 alifugla. Svo að ásamt því að hafa gistihúsið, hafa þau einnig búhokrið og búðina, þar sem þau verzla með matvöru, svaladrykki, sætindi og aldini. Heitt og kalt vatn, bæjarvatn, er í öllu húsinu, og alt er þarhandhægt, hreinlegt og loftgott. Öll herbergi hússins eru þegar leigð, nema tvö, sem ætluð eru gestum. Hvert herbergi á efsta lofti kostar $2.00 um vikuna og á neðra lofti $2.50, og er leigan eftir það borguð reglulega eins og vera ber. Fæði er selt sérstakt og kostar $3.50 um vikina, svo að fæðið og herbergið kostar frá $5.50 til $6.00 um vikuna. Alls eru nær 50 manns í fæði hjá þeim hjónum, en að eins 2 þeirra eru Íslendingar. Gestir, sem að eins gista nótt og nótt í einu borg 75c yfir nóttina fyrir herbergið og 25c fyrir hverja máltíð, nema ef máltíða ávísanamiðar eru keyptir. Talsverður kostnaður er við húshald þetta. Auk 3 – 4 stúlkna, sem þar hafa atvinnu, þá vinnur konan sjálf eins og víkingur frá því kl. hálf-fimm á morgnana til kl. 10 á kveldin og stjórnar hún öllu sjálf. Maður hennar, sem er stakur eljumaður, hefir unnið stöðugt í 20 ár eða lengur í hveitimylnu Hudsons Bay félagsins hér í bænum, og vinnur hann þar enn þá; en konan, sem er sannnefndur kvennvíkingur, stjórnar húsinu, verzluninni og búinu, og að hennar ráðum og undir hennar umsjón var gistihúsið bygt. Það má fullyrða, að þetta fyrirtæki hafi borgað sig vel fram að þessum tíma og er líklegt til að gera það betur framvegis, eftir þennan komandi vetur. Það er gert sem hún gerir hún Sæunn; dugnaður hennar og áræði verðskuldar að henni farnist vel með þetta fyrirtæki sitt.“ Árið 1917 seldu þau fyrirtækið og fluttu í Arborg þar sem önnur áskorun beið þeirra í viðskiptalífinu.