Baldur

Vesturfarar

Íslenska nýlendan, sem náði frá Glenboro suður til Baldur var kölluð Argylebyggð.

Árið 1880 var ljóst að landnámsmenn í Nýja Íslandi vildu burt úr nýlendunni við Winnipegvatn og kusu sumir að fylgja séra Páli Þorlákssyni suður til N. Dakota en aðrir leituðu út á sléttuna sunnarlega í fylkinu vestur af Winnipeg. Á árunum 1880-1886 fjölgaði mjög á sléttunni og þörfin á bættum samgöngum var mikil. Árið 1886 var járnbraut lögð frá Winnipeg vestur til Glenboro, nú áttu bændur í byggðinni greiðan aðgang að mörkuðum í Winnipeg. Árið 1889 var önnur járnbraut lögð frá Winnipeg vestur, sú var um 29 km sunnan við járnbrautina um Glenboro. Við þá járnbraut myndaðist þorp sem fékk nafnið Baldur. Til er saga um nafngiftina. Einn fyrsti landneminn í byggðinni var Sigurður Kristófersson frá Ytri-Neslöndum við Mývatn. Hann kvæntist kanadískri konu, Caroline Taylor, í Nýja Íslandi sumarið 1877. Járnbrautarfélagið leitaði til Íslendinga um nafn á lestarstöð þar sem þorp var að myndast og mun Caroline hafa stungið upp á Baldursbrá. Heldur þótti enskumælandi það langt og erfitt í framburði og þá var stungið upp á Baldur, vel viðeigandi að leita til norrænnar goðafræði. Þess má geta að orðið Baldursbrá var notað í þorpinu, það var gefið íslenska kvenfélaginu.  Sigurður Kristófersson opnaði litla verslun á heimili sínu snemma á landnámstímanum en eftir að járnbraut var lögð til Glenboro hætti hann rekstri. Kristján Jónsson sem vestur fór frá Héðinshöfða á Tjörnesi árið 1874 flutti úr Nýja Íslandi í Argylebyggðina og opnaði fljótlega verslun í Baldur. Hann seldi þar alls kyns akuryrkjutæki og tól en faðir hans Jón Björnsson rak um líkt leyti litla bókaverslun. Aðrir ungir, íslenskir menn unnu seinna hjá öðrum verslunareigendum og þjónustufyrirtækjum.

Þessi mynd af Baldur sýnir vel þorpið, sjá má bændur að sækja sláttuvélar o.fl. og járnbraut er við lestarstöðina. Mynd Prairie Towns