Brandon

Vesturfarar

Íslenska þorpið Baldur er rúmum 60 km suður af Carberry og frá þorpinu til Brandon var gönguleiðin rúmir 90 km.

Brandon er næst stærsta borg Manitoba, staðsett í suðvesturhorni fylkisins, 214 km vestur af Winnipeg og 120 km austan við landamæri Saskatchewan. Öldum saman höfðust vísundahjarðir við í héraðinu í næsta nágrenni við búðir frumbyggja af ýmsum ættum, Sioux þeirra fjölmennastir. Þegar innflutningur hófst út á sléttuna vestur af Winnipeg um 1870 og bændur námu lönd urðu vísundar að víkja. Skinnakaupmenn höfðu stundað vísundaveiðar árum saman, smám saman hröktust hjarðir vestur á bóginn og um 1880 má segja að þær væru nánast horfnar úr Manitoba. Frumbyggjar sömuleiðis annað hvort samþykktu að setjast að á sérsvæðum eða hurfu suður yfir landamærin til Bandaríkjanna eða lengra vestur á kanadísku sléttuna. Stjórnvöld í Kanada skipulögðu landnámið í samvinnu við Manitobastjórn, áformuðu járnbrautalagningu alla leið vestur að Kyrrahafi. Árið 1882 fékk bærinn kaupstaðaréttindi og varð miðstöð verslunar, þjónustu, menntunar og stjórnsýslu suðvestur hluta fylkisins.

Íslendingar í Brandon

Hér eru bændur komnir með kornið til Brandon og bíða afgreiðslu.

Íslendingar komu fyrst til Manitoba árið 1875 og nánast allir settust að í Nýja Íslandi við Winnipegvatn. Eitthvað var um að fólk settist að í Winnipeg á árunum 1875-1880. Brottflutningarnir frá Nýja Íslandi hófust árið 1879 og fóru þeir fyrstu suður til N. Dakota. Upp úr 1880 leita menn hins vegar út á sléttuna vestur af Winnipeg og smám saman myndaðist íslensk byggð sem kölluð var Argylebyggð. Þar stunduðu menn bæði akuryrkju og kvikfjárrækt og fyrstu árin fluttu menn afurðir fótgangandi úr byggðinni til Brandon. Ferðir þessar fóru allmargir bændur saman á haustin eða snemma vetrar. Uxum var beitt fyrir vagna, hlaðna kornpokum, kálfar og kvígur fylgdu á eftir. Þessar ferðir tóku nokkra daga, yfirleitt fundu menn rjóður í skógi fyrir náttstað. Íslendingar tóku að setjast að upp úr 1882 og árið 1887 voru þar fáeinar fjölskyldur og einhleypir. Árið 1888 bættust 60 manns í hópinn, nýkomnir frá Íslandi og árið 1892 voru skráðir 130 Íslendingar í bænum. Þetta litla samfélag gerði sitt besta til að varðveita íslenska arfleifð, samkomur voru haldnar og húslestrar felsta sunnudaga í heimahúsum. Árið 1889 var svo söfnuður stofnaður, lóð keypt í bænum árið 1890, kirkjubygging hafin og í maí, 1893 var kirkjan vígð. Söfnuðurinn kallaðist Vonin. Prestar heimsóttu söfnuðinn frá Argylebyggð og Winnipeg. Þegar leið á síðasta áratug 19. aldar og straumurinn á ný landnámssvæði bæði í Manitoba og svo seinna í Saskatchewan. Fækkaði þá nokkuð í samfélaginu í bænum en iðulega dvöldu nýkomnir innflytjendur á leið sinni til ónumdra svæða einhvern tíma í Brandon. Til dæmis kom Árni Jónsson úr Strandasýslu með konu og börn til Brandon árið 1891 og dvaldi þar í tólf ár.