Carberry

Vesturfarar

Carberry er lítill bær, sunnarlega á sléttunni í Manitoba, um 170 km vestur af Winnipeg og 50 km austur af Brandon. Héraðið umhverfis Carberry var öldum saman haglendi vísunda sem frumbyggjar nýttu. Upp úr miðri 18. öld reistu franskir skinnakaupmenn frá Montreal virki, Pine Fort, þar sem bærinn stendur í dag og áttu vinsamleg viðskipti við frumbyggja eins og Sioux, Cree og Assinibone. Þessar þjóðir fylgdu vísundahjörðum öldum saman og áttu árlega dvöl á umræddu svæði allt til 1870 en þá hófst markvisst landnám á sléttunni vestur af Winnipeg. Bændur nýttu sér kosti sléttunnar, stunduðu mikla kartöflu- og kornrækt, en einnig var kvikfjárrækt mikil. Nafnið gaf James J. Hill, starfsmaður CPR járnbrautafélagsins þegar hann ferðaðist um héraðið með Elphinstone lávarði frá Carberry Tower í Skotlandi en sá var þá framkvæmdastjóri járnbrautafélagsins. Árið 1881 var opnað pósthús í bænum og kaupstaðaréttindi fékk hann árið 1882. Áður en járnbraut náði til Glenboro þurftu íslenskir landnemar í Argylebyggð sunnan og vestan við Glenboro að flytja afurðir sínar, svo sem korn, svo og kálfa og kvígur á markað í Carberry eða Brandon. Þegar járnbraut náði til Glenboro lögðust þess háttar flutningar af. Íslendingar settust lítið að í Carberry, íslensk ungmenni fengu þar atvinnu við verslun og þjónustu.

Miðbær Carberry um aldamótin 1900 Mynd Prairie Towns