Dauphin er bær all norðanlega í vestanverðu Manitoba. Franskur landkönnuður fór um héraðið árið 1871 og gaf staðnum nafnið. Landnemar komu þar fyrst um 1883 og smám saman mynduðust tvö þorp, Gartmore og Old Dauphin. Kanadísku járnbrautafyrirtækin unnu kappsamlega að lagningu norður brautar og suður brautar vestur á bóginn, stefna stjórnvalda var að efla mjög byggð í Vestur Kanada. Það var árið 1896 að járnbraut var lögð um héraðið milli þorpanna tveggja, þar var reist lestarstöð og pósthús opnað 1. apríl, 1897. Það var svo 11. júlí, 1898 að nýja þorpið fékk full réttindi og fyrsti bæjarstjóri var breskur. Flestir innflytjendur voru frá Úkraníu og Bretlandi. Bærinn varð fljótlega miðstöð samgangna og vöruflutninga. Íslendingar voru aldrei fjölmennir í Dauphin, þeir sem þangað leituðu unnu hjá CNR járnbrautafélaginu eða við verslun. Allmargir Íslendingar settust að í fiskiþorpinu Winnipegosis 60 km norðar svo og í sveitunum þar um kring.