Minto

Vesturfarar

Minto er lítill bær 48 km. sunnan við Brandon í Manitoba. Staðurinn var valinn seint á 19. öld fyrir lestarstöð en þar um svokallaðan Pembinadal var austur/vestur járnbrautin lögð. Ennfremur skerast þar tvær þjóðbrautir, þjóðvegur #23 liggur austur/vestur og fer um syðsta hluta Argylebyggðar, gegnum Baldur og áfram vestur. Þjóðvegur #10 liggur um Brandon í suður um Minto og áfram yfir landamærin til N. Dakota. Fjölmargir íslenskir innflytjendur fengu vinnu við járnbrautalagningu og vegagerð í suður Manitoba á síðustu áratugum 19. aldar og í byrjun 20. aldar. Íslenska byggðin teygðist vestur af Baldur og Glenboro og margir ungir menn þaðan unnu við veginn frá Baldur vestur til Minto. Bergmann Bergsson úr Mýrasýslu og kona hans, Lilja Jónasdóttir úr Dalasýslu námu land við þorpið árið 1898 og bjuggu þar alla tíð. Þar ólust börn þeirra upp og gengu í skóla.

Minto snemma á 20.öld. Lestarvagnar við kornhlöðuna, kirkjuturn yst til hægri, þjóðvegurinn milli brautarteina og íbúðarhúsa. Mynd Prairie Towns.