Um aldamótin 1900 voru nokkrar íslenskar fjölskyldur sestar að í Pine Valley í suðaustur Manitoba. Dalur þessi og nánasta umhverfi var skógi vaxið og því ræddu menn um skógarhögg og timburvinnslu. Til að koma timbri á markað í Winnipeg þurfti járnbraut og ein slík, CNR (Canadian Northern Railway) var lögð til héraðsins um 1900. Til verksins voru ráðnir um 300 manns sem unnu dag og nótt að brautarlagningu. Þeir notuðu axir, handafl, skóflur og hjólbörur við verkið. Hvar sem járnbraut var lögð á kanadísku sléttunni þurfti lestarstöð þar sem eimreiðinni var sinnt og framleiðsla bænda í nánasta umhverfi sett um borð. Þangað voru fluttar nauðsynjar frá nærliggjandi borgum og bæjum. Þegar ljóst var hvar járnbraut skyldi lögð fór járnbrautarfélagið í samráði við sveitarstjórn að huga að lestarstöð. Þegar fyrir lá hvar slík skyldi reist risu önnur þjónustufyrirtæki nærri stöðinni, smám saman myndaðist lítið þorp.
Piney: Íslenskir landnemar í dalnum gripu tækifærið, þeir voru fjölmennasta þjóðarbrotið í þessari sýslu fyrstu áratugi 20. aldar. Magnús Jónsson frá Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi flutti á land í Pine Valley byggð frá Roseau í Minnesota. Bjuggu á því ein 16 ár en fluttu þá af því í þorpið þar sem Magnús hóf timbursölu (borðviðarsölu). Þar byggði hann sér gott íbúðarhús og bjó þar lengi. Hann var mikið viðriðinn sveitarstörf og lét skólamál til sín taka. Oddur Hansson Hjaltalín flutti vestur úr Mýrasýslu árið 1899 og eftir fáein ár í Winnipeg, nam land í dalnum árið 1906 en flutti af því í þorpið eftir nokkur ár. Þar vann hann við trésmíði og var umsjónarmaður skólans. Magnús Davíðsson úr Önundarfirði í Ísafjarðarsýslu fór vestur árið 1888 og eftir að hafa reynt fyrir sér á ýmsum stöðum í Manitoba og Saskatchewan flutti hann í Pine Valley byggð aldamótaárið. Nam land ekki langt frá þorpinu og tókst á hendur póstafgreiðsla um og eftir 1910. Jón Stefánsson frá Urriðavatni í Fellum flutti í byggðina árið 1905, nam land en flutti ekki á það heldur opnaði verslun í þorpinu og rak hana allmörg ár.