Íslendingarnir í Þingvallabyggð í Saskatchewan litu á Churchbridge sem höfuðstað byggðar sinnar, þangað sóttu þeir nauðsynjar og þjónustu. Járnbraut lá sunnan við byggðina, fór um Langenburg, Churchbridge, Bredenbury og Saltcoats til Yorkton og þaðan áfram norður. Maður að nafni A. E. Breden valdi leið fyrir lestarteinana og eins og tíðkaðist víða í Kanada á síðustu áratugum 19. aldar og fyrstu áratugi þeirrar tuttugustu, var eitt þorpið nefnt í höfuðið á honum og kallað Bredenbury. Pósthús var opnað 1. júní, 1890. Þótt Churchbridge væri aðalaðdráttarafl viðskiptamanna á þeim tíma þá könnuðu sumir Bredenbury. Fyrstur til að stofna þar fyrirtæki var Chris Thorvaldson sem áður var slátrari og gripasali í Langenburg. Hann varð umfangsmikill kaupmaður í Bredenbury þar sem hann keypti nautgripi af bændum og seldi annað. Hann lét samfélagsmál til sín taka, sat t.d. í skólaráði þorpsins allmörg ár. Hjálmar O. Loptson opnaði deildaverslun og rak um árabil með konu sinni, Arnheiði Helgadóttur. Hún var dóttir Helga Árnasonar og Guðrúnar Jónsdóttur sem fluttu vestur úr Árnessýslu árið 1885 og settust að í Þingvallabyggð. Bræðurnir Guðjón (Jack) og Guðbrandur (Barney) Brown voru húsamálarar einhvern tíma, skiptu svo um vettvang og unnu hjá C.P.R járnbrautafélaginu. Upp úr 1910 varð mikill uppgangur í þorpinu, viðskipti hvers konar blómstruðu og náðu víða um fylkið. Ásmundur Sveinbjörnsson var einna atkvæðamestur á þessu sviði, hann var sonur Sveinbjörns Loftssonar og Steinunnar Ásmundsdóttur sem vestur fóru úr Hnappadalssýslu árið 1887. Hann stundaði fasteignasölu, rak timburverslun og hveitimyllu. Í þorpinu stofnuðu nokkrir ungir menn lúðrasveit sem víða lék og var eftirsótt hjá Íslendingum í Þingvallabyggð vegna þess að í hljómsveitinni voru fáeinir Íslendingar. Þeir voru Ásmundur Sveinbjörnsson, Hjálmar O. Loptson, Eyjólfur Sigurðsson og bræðurnir Guðjón og Guðbrandur.