Árið 1886 náði járnbraut North-Western Railway félagsins frá Winnipeg til Churchbridge og fljótlega nýttu innflytjendur sér þann kosta að ferðast vestur með lestinni til að kanna möguleg landnámssvæði. Stjórnendur járnbrautafélaga þurftu að huga að lestarstöðum við teinana því eimreiðin þurfti reglulega vatn. Fáeinir enskir innflytjendur urðu fyrstir til að nema lönd sunnan við Churchbridge, þar reistu þeir kirkju og skóla. Til varð sérstakt félag, The Churchbridge Colonization Company sem skipulagði þorpið árið 1887 og þá tóku viðskiptamenn við sér.
Íslenskir athafnamenn
Helgi Jónsson athafnamaður í Winnipeg og útgefandi vikublaðsins Leifs hafði mikinn áhuga á tækifærum tengdum landnámi sem óx jafnt og þétt vestur, einkum nærri járnbrautum. Hann vissi vel að landnemar í sveitum þyrftu nauðsynjar og eðlilegast að nálgast þær í þorpunum við vatnsból járnbrautafélaganna. Ýmsir landar hans smituðust af áhuga hans m.a. Jóhann Gottfreð Þorgeirsson sem vestur flutti frá Akureyri árið 1882. Hann er skráður bakarasveinn í Vesturfaraskrá og það skýrir ef til vill verslunaráhuga hans í Kanada. Samferða Jóhanni frá Íslandi með sama skipi árið 1882 var Bjarni Davíðsson úr Dalasýslu. Bjarni hóf störf hjá áðurnefndum Helga Jónssyni í Langenburg árið 1886 sem þá tilheyrði svonefndum Norðvesturhéruðum. Sú samvinna entist stutt, Helgi lést árið 1887 og flutti Bjarni þá til Churchbridge ári síðar. Þar reisti hann verslun sunnan við járnbrautina en ári seinna kom Jóhann og byggði sína verslun norðan við járnbrautina. Hana rak hann til ársins 1894, seldi hana þá Bjarna Davíðssyni sem hélt rekstri áfram í þorpinu til ársins 1917. Þann 1. apríl, 1889 var opnað pósthús sem Bjarni annaðist til 1901.
Járnbrautin og þorpið vöktu áhuga fleirri Íslendinga jafnt í Manitoba sem N. Dakota. Árið 1889 opnaði Olafur J Olafson verslun með aktygi og seldi hana svo Þorsteini Oddssyni tveimur árum seinna. Pálmi Sigtryggsson og kona hans, Helga Runólfsdóttir ráku gistiheimili í þorpinu í nokkur ár og árið 1903 opnaði Magnús Stefánsson og kona hans, Móníka Einarsdóttir fyrsta hótelið. Árið 1904 keypti Sveinbjörn Loftsson úr Hnappadalssýslu verslun í þorpinu og rak hana í fjöldamörg ár með konu og börnum. Loks má nefna Jóhannes Einarsson, stórbónda í Lögbergsbyggð sem var forseti stjórnar Búnaðarfélagsins (Churchbridge Agricultural Society) í nokkur ár. Menn komu og fóru, þorpið óx hægt, varð aldrei stórt en þar hafa íslenskir athafnamenn og afkomendur þeirra alla tíð unnið mikið og gott starf.