Langenburg

Vesturfarar

Langenburg er bær í Saskatchewan nærri Manitoba mörkunum. Svæðið var kannað um 1880 af kanadískum yfirvöldum sem lögðu áherslu á innflutning landnema vestur á kanadísku sléttuna. Fljótlega settust þar að breskir landnemar og um 1850 streymdu þýskir innflytjendur þangað. Helgi Jónsson, ritstjóri Leifs í Winnipeg gaf þessu gaum, hann vann fyrir kanadísk yfirvöld að kynningu sléttunnar vestur af Manitoba. Það kallaðist Norðvesturhéraðið fram yfir aldamótin. Helgi fylgdist vel með áformum járnbrautafélaga sem kepptust við að skipuleggja járnbrautir vestur á bóginn. Hann tók sér far með lest vestur á bóginn árið 1885 og fór með henni eins langt og hægt var, fór svo áfram vestur á hestvagni uns hann kom til Shellmouth, smáþorps nánast á mörkum Manitoba og Norðvesturhéraðs. Hann reiknaði með að lestin yrði lögð þar um, settist í þorpinu og opnaði verslun. Þarna misreiknaði hann sig því ári seinna var brautin lögð talsvert sunnar og fór ekki um Shellmouth. Hann lét það ekki á sig fá, flutti vestur til Langenburg þar sem hann opnaði aðra verslun, nú með Bjarna Davíðssyni úr Dalasýslu. Helgi lést árið 1887, Bjarni seldi þá verslunina og flutti vestur til Churchbridge. Langenburg stækkaði um leið og landnemum fjölgaði í héraðinum umhverfis þorpið. Skömmu eftir aldamótin fóru landnemar frá Norðurlöndum að setjast að og árið 1903 fékk þorpið kaupstaðarréttindi.