Enskur skinnakaupmaður, Joshua Milligan er sagður fyrsti landneminn við vatnið sem hann nefndi ,,Froðuvatn”, Foam Lake, vegna froðu sem myndaðist við strendur þessa grunna vatns. Þetta var árið 1882. Fátt er vitað um mann þennan eða annarra á þessum slóðum. Þegar lagning járnbrautar sunnan við Quill Lakes frá Yorkton hafði verið kortlögð, fóru leiðangrar manna í leit að landnámssvæðum að aukast.
Íslenskir landkönnuðir – landnám: Vorið 1891 voru landnámsmenn í Þingvalla- og Lögbergsbyggðum farnir að hafa verulegar áhyggjur af vatnsskorti, þá grunaði helst að þeir hefðu valið einstaklega þurrt svæði undir byggð. Fjöldi skepna óx ár frá ári einkum fjölgaði nautgripum og sauðfé. Leiðangrar frá Winnipeg á heimleið eftir skoðun á svæði norður og vestur af íslensku byggðunum greindu frá því að stöðuvötn væri að finna vestur og norður af Yorkton. Tveir bændur í Þingvallabyggð ákváðu að leggja land undir fót og kanna svæði norður og vestur af Yorkton. Annar þeirra var Ingimundur Eiríksson úr Árnessýslu en hinn Kristján Helgason úr Eyjafirði. Þeir lögðu af stað í hestvagni og eftir nokkurra daga ferðalag komu þeir að Fisking Lake og höfðu þá farið um 180 km leið. Vatnið var sæmilega stórt, sunnan við það voru stór grasi vaxin svæði og á hæðum fjær risu háar aspir. Þarna mátti afla nægra heyja, efni í bjálkahús, heimili og hlöður var nægilegt og ekki skorti vatn. Þeir hröðuðu för til baka og gáfu nýju svæði bestu einkunn. Það var svo 27. júní, 1892 að þrjár fjölskyldur lögðu af stað og með þeim einhleypur maður, Lafrans Jónsson úr Árnessýslu. Í hópnum voru Ingimundur Eiríksson úr Árnessýslu, Steinunn Ólafsdóttir, kona hans og börn þeirra. Með þem fór Gróa Ásbjarnardóttir, móðir Ingimundar. Þá skal nefna Gísla Jónsson Bíldfell, konu hans Valgerði Eiríksdóttur, systur Ingimundar og þeirra börn, þá Bjarni Jasonarson úr Árnessýslu og kona hans, Guðrún Eiríksdóttir, systir Ingimundar og Valgerðar. Um haustið bættist ein systirin í hóp systkinanna frá Árhrauni þegar Guðfinna og hennar maður, Sveinn Halldórsson komu í byggðina. Um sama leyti kom Stefán Ólafsson frá Þingvallabyggð með konu sinni, Guðrúnu Hinriksdóttur. Landnemunum var ljóst að enginn tími gafst til að reisa kofa handa hverri fjölskyldu og því var ráðist í að byggja eitt veglegt hús og gripahús. Báðar byggingar voru bjálkahús með torfþaki. Hluti gripahússins var þiljað af fyrir fjölskyldu Stefáns Ólafssonar en systkinin og fjölskyldur þeirra komu sér fyrir í kofanum, þar voru níu fullorðnir með sex börn. Lafrans svaf hjá gripunum.
Foam Lake: Landnemar komu með gripi, kýr, kross og sauðfé og því lá mest á að afla heyja. Rösklega gengu frumbyggjar til verks og brátt höfðu þeir nóg og töldust öruggir en sléttueldur breytti högum þeirra því hann eyddi öll sem á vegi hans varð og þannig hurfu heybirgðirnar. Nú varð að bregðast skjótt við, svipast um eftir álitlegum stað þar sem mátti heyja. Nokkru sunnar fundu þeir grasivaxna lægð þar sem þeir hófust strax handa. Lægð þessi var Foam Lake sem þornað hafði upp á þurrkaskeiðinu. Þeir höfðu meðferðis eina sláttuvél sem afkastaði miklu en heyskapurinn þetta fyrsta haust átti ekki að ganga snuðrulaust því vélarskömmin bilaði. Nú voru góð ráð dýr, grasið var fullþroskað og nokkuð liðið á haustið, senn færi grasið að sölna og yrði þá gagnlaust. Næsta þorp var Saltcoats í vel á annað hundrað km. sunnar. Gísli Bíldfeld söðlaði hest og reið þangað á einum degi en þar tók ekki betra við því varahluti varð að panta frá Winnipeg. Gísli beið þeirra í tvo daga og reið til baka. Þar höfðu bændur gert sitt besta, slegið með orfi og ljá og konurnar þurrkað og rakað saman með heimagerðum hrífum. Veturinn gekk í garð og þá þurfti að sækja heyið þar sem það hafði verið sett upp um 8 km. frá gripahúsunum. Til að flytja það voru notaðir uxar sem drógu sleðann. Smám saman komust landnemarnir að því að þar sem best grasið var þetta langt frá þeirra jörðum væri skynsamlegast að flytja frá Fishing Lake suður að Foam Lake og haustið 1894 voru allir farnir þangað.
Landnámið stækkar: Þegar spurðist að menn höfðu valið nýjan stað fóru fleiri að hugleiða flutning þangað frá öðrum stöðum. Kristján Helgason sá er fór með Ingimundi í könnunarleiðang-urinn hafði sest að við White Sand River sem er nærri bænum Theodore (sjá kort að ofan). Hann kaus árið 1897 að flytja til Foam Lake þar sem hann vildi búa meðal landa sinna. Með honum fluttu tengdaforeldrar hans þau Jóhannes Bjarnason og Lilja Daníelsdóttir. Þorsteinn Þorsteinsson úr A. Skaftafellssýslu og kona hans, Anna Ingibjörg Jónsdóttir úr sömu sýslu, höfðu líka sest að við White Sand River og fluttu þau að Foam Lake árið 1898. Sama ár komu Tómas Þórðarson (Thomas Paulson) og kona hans Þórunn Jóhannesdóttir úr Þingvallabyggðinni og 1899 settist að þar Guðbrandur Narfason og kona hans, Anna Margrét Eiríksdóttir. Um aldamótin var allt land umhverfis Foam Lake verið numið og um þær mundir var vatn smám saman að renna í lægðina, Foam Lake var aftur orðið stöðuvatn og árið 1902 hafði það náð eðlilegri stærð. Þegar nokkur ár voru liðin í upphafi nýrrar aldar hafði landnámið umhverfis vatnið stækkað því fáeinar fjölskyldur höfðu sest að en á árunum 1903-1905 streymdu landnemar að. Árið 1907 var svo járnbrautin lögð um þorpið og þaðan áfram norður og vestur sunnan við Quill Lakes.