Bjarni Sveinsson frá Moshól á Síðu í V. Skaftafellssýslu flutti til Kanada árið 1903 og bjó í Manitoba fyrstu árin. Flóð úr Winnipegvatni hrakti hann af landi sínu í Ísafoldarbyggð og flutti hann þá til Keewatin í Ontario þar sem hann keypti land rétt norður af samnefndu þorpi. Grein um byggð Íslendinga á þessu svæði birtist eftir hann í Almanaki Ólafs Þorgeirssonar árið 1936. Áður en við grípum niður í frásögn hans er rétt að greina frá því að nafnið er úr máli Cree frumbyggja og merkir „Norðan stórhríð“ :
Söguþættir Íslendinga í Keewatin og grendinni
,,Í suðvesturhorni Ontario-fylkis stendur lítið en snoturt þorp, með 1400 íbúum, sem nefnist Keewatin, stendur það á takmörkunum, þar sem Winnipeg-áin hefi upptök sín við norðvestur endann á lake of the woods (og stundum er kallað þúsund eyjavatnið) við aðalbraut Canada kyrrhafsfélagsins frá hafi til hafs. Atvinna þorpsbúa er aðallega við hinar tvær tröllauknu hveitimölunarmylnur sem eru eign Lake of the Woods Milling co. og hvor um sig malar sex þúsund tunnur hveitimjöls á sólarhringnum. Um tvö hundruð og fimtíu manns vinna þar stöðugt dag og nótt árið um kring að heita má. – Sögunarmylna stór og mikil hefir starfað hér um langt skeið, en er nú að draga saman vegna þurðar á timbri hér í kring og hefir það fyrirtæki gefið mörgum atvinnu á liðnum tímum. Þegar út frá bænum Keewatin dregur til norðurs og norðvesturs gefur að líta mörg fögur og frjósöm bændabýli með fram smáum stöðuvötnum sem þar liggja og flest þeirra hafa gnægð fiskjar fyrir bændurnar er kringum þau búa. Sala á fiski úr þeim vötnum er eigi leyfð. Búskapur bænda í Pallett, svo heitir sveitin, er mestmegnis mjólkurbúskapur, fuglarækt, garðávextir allskonar og svo allmikil heytekja. Fáeinir Íslendingar hafa tekið þar bújarðir og farnast vel. Engir eru bændur þar í sveit stórefnaðir, en búskapur þeirra farsæll og munu engar skuldir á þeim hvíla eða sem litlu nemur.“
Niðurlag
Bjarni skrifar síðan þætti um 14 Íslendinga sem settust að þar um slóðir. Hann lýkur máli sínu svo: ,,Þá hef eg minst þeirra Íslendinga, sem tekið hafa sér bólfestu í Keewatin og mér var mögulegt að ná til. Íslendingar hafa aldrei verið hér fjölmennir. Um aldamótin taldist svo til að í Keewatin væru um eitt hundrað Íslendingar og mun það hafa náð hámarki sínu. Nú eru hér sjötíu heimilisfastir, eldri og yngri. Ekki þó talin börn eða ungmenni, þar sem annað foreldrið er af öðrum þjóðstofn en íslenzkum. En það eru fimtán alls frá ungbarni að telja til tvítugsaldurs. Snemma fóru menn að hugsa um hvort möguleiki væri á, að stofna til félagsskapar. Var þá sett á stað lestrarfélag, sem nefnt var „Tilraunin“ og stofnsett bókasafn. Hefir það bókasafn verið við líði síðan og aukist að íslenzkum bókum og tímaritum, í sambandi við það var myndað málfundafélag og gefið út skrifað blað „Gestur“ en er nú hætt við. En sú nýlunda er nú upptekin af lestrarfélaginu „Tilraunin“, að fá íslenzka unglinga til að koma saman tvisvar í mánuði til undirvísunar í íslenzku máli. Er hið nýja barnablað „Baldursbrá“ aðallega búist við að nota við kensluna. Engir Íslendingar hér hafa þurft á stjórnarstyrk að halda. Það búa flestir að fasta atvinnu við hveiti- og sögunarmylnurnar. Auk þess styðjast allir við landbúnað í smáum stíl, hafa kýr, fugla og garðrækt. Hafa því allir Íslendingar sem hér búa reynst bjargálnamenn og sumir heldur betur“.
Hér er sjálsagt að birta skrá landnema sem Bjarni Sveinsson gat um í grein sinni. Nánari upplýsingar um hvern og einn má finna á leitarvél.
1: Hafsteinn Sigurðsson frá Efranesi í Skagafjarðarsýslu.
2: Jón Pálmason frá Bæjum á Snæfjallaströnd.
3: Sigurður Þorgeir Pálmason albróðir Jóns.
4: Þorkell Magnússon úr Gullbringusýslu.
5: Guðjón Hermannsson fæddur á Vatnsleysuströnd.
6: Sigurður Guðmundsson úr Gullbringusýslu.
7: Guðný Einarsdóttir frá Fáskrúðsfirði.
8: Karl Jóhann Malmqvist fæddur á Djúpavogi.
9: Ísfeld Úlfarsson úr Þingeyjarsýslu.
10: Sigmundur Björnsson frá Hnitbjörgum í Jökulsárhlíð.
11: Gísli Jónsson úr Skagafirði.
12. Magnús Sigurðsson úr Gullbringusýslu
13. Sigurður Sigurðsson albróðir Magnúsar
14: Bjarni Sveinsson úr V. Skaftafellssýslu.