Álftárdalsbyggð

Vesturfarar

 

Álftárdalur í Manitoba

Álftárdalsbyggð – Swan River Valley

Álftárdalur er í norðvestur hluta Manitoba, nærri landamærum fylkisins og Saskatchewan. Það er nauðsynlegt að útskýra merkingu orðsins dalur á sléttum Kanada því hér er ekki verið að tala um djúpa dali líkt og þá sem svo víða finnast á Íslandi heldur eru þetta misstórar lægðir í sléttunni meðfram ám sem oftast renna eftir þeim miðjum. Til beggja hliða rísa svo hæðir, misháar og þar tekur svo sléttan við. Í slíku landslagi fær orðið fjall nýja merkingu því  Íslendingar sem settust að á þessum sléttum tóku undir með enskumælandi meirihluta landnámsmanna og gáfu hæðum þessum stundum fjallanöfn. Swan River Valley liggur þannig á milli Duck Mountains að sunnanverðu og Porcupine Hills að norðan en við enda dalsins að vestan rís Thunder Hill. Rétt að geta þess þó að hæst rís landið í Manitoba í Andafjöllum þar sem það nær rúmum 800 metrum. Íslendingarnir lýstu þessu svona: ,, Álftárdalurinn liggur á milli Andafjallanna svonefndu að sunnan og Broddgaltarhæða að norðan, en fyrir enda hans að vestan stendur Þrumuhóll líkt og gafl.‘‘ Þótt hæðir þessar séu lágar gefa þær landslaginu mikinn svip sem algerlega skortir þar sem landið er lægst og flatast í Manitoba.

Hæsti tindur Í Manitoba

Álftárdalur er tæplega 100 km á lengd og 50 á breidd og þótt smáhæðir séu hér og hvar þá má segja að þetta sé 50 km breið slétta. Swan River eða Álftá á upptök sín norður í Broddgaltarhæðum, rennur fyrst í stórum sveig vestur í Saskatchewan en beygir svo í austur og rennur í Swan Lake eða Álftavatn.  Vatn þetta er lítið og rennur svokölluð Grunná eða Shoal River úr því í Winnipegosisvatn. Þegar leysir á vorin breytist Álftá í myndarlegt vatnsfall á ótrúlega stuttum tíma en svo hægist um og áin liðast áfram söm og áður. Tvær smærri ár eða sprænur renna um dalinn auk nokkurra lækja. Á öldum áður var þetta mikið kjörlendi vísunda og frumbyggjar lifðu þar með skepnunum í sátt og samlyndi áður en  ósköpin hófust á öndverðri 19. öld og vísundastofnar eyðilagðir.

Upphaf landnáms

Það var ekki fyrr en nokkuð var liðið á síðasta áratug 19. aldar að menn tóku að gefa dalnum gaum. Ástæðan var ósköp einföld, það vissu engir um tilvist hans fyrr en farið var að hugleiða lagningu járnbrautar svo norðarlega í fylkinu. Norðurlínan svokallaða náði frá Winnipeg til Dauphin en þaðan hófst svo lenging brautarinnar í norðvestur alla leið til Prince Albert í Saskatchewan. Venju samkvæmt völdu menn fyrst landið næst brautinni  og þegar hún svo var lögð rétt sunnan við dalinn tíndust landnemar smám saman þar inn því strax sáu menn hversu góðir landskostir þar voru. Fólk þetta kom víðs vegar að úr Austur Kanada, sunnan úr Bandaríkjunum og svo birtust fáeinir Íslendingar.

Um 1898 höfðu allmargar íslenskar fjölskyldur flutt vestur um haf til Winnipeg í Manitoba og fóru áfram vestur í Argylebyggð. Þar var nánast ekkert ókeypis land að hafa lengur og verð lands í sölu var of hátt fyrir fátæka innflytjendur.  Landnemarnir bjuggu hjá vinum og vandamönnum og hópur nýkominna óx. Þetta ástand hvatti Sigurð Kristófersson, landnámsmann í byggðinni til að hefja landaleit. Sigurður hafði um árabil haft heilmikil afskifti af innflytjendamálum í Manitoba og þekkti nokkuð til svæða sem verið var að opna. Hann fór í könnunarleiðangur norður í Álftárdal sumarið 1897 og sneri aftur um haustið með góð tíðindi og lýsti landskostum. Fundur var haldinn um veturinn heima hjá Skafta Arasyni þar sem fundurinn skoraði á Sigurð Kristófersson að fara hið bráðasta aftur norður þangað til að tryggja nokkrum fjölskyldum lönd.

Íslenskt landnám:

Þann 15. júní, 1898 lögðu fyrstu landnemarnir af stað norður með föggur sínar og alla búslóð á vögnum  sem uxar drógu. Þarna á ferð voru þeir Gunnar Helgason sem fæddur var á Geirólfsstöðum í Skriðdal og Jakob Ágúst Jónsson frá Ljótsstöðum í Vopnafirði. Þeir fóru beinustu leið en voru samt rúman mánuð að komast í dalinn. Í dag er þessi leið ekin á innan við 5 klukkustundum. Þegar þeir nálguðust dalinn var þar allt óbyggt en fylkisstjórnin hafði veturinn áður látið höggva braut frá Dauphin yfir Andafjöll en varla gat slóði þessi kallast vegur því þeir félagar þurftu að brúa alla læki og keldur til að komast yfirum. Þeir félagar settust að vestarlega í miðjum dalnum og voru einir Íslendinga að koma sér fyrir í dalnum fram eftir sumri. Um haustið bættust svo tvær aðrar fjölskyldur við og þeim átti eftir að fjölga.

Þótt ferðalög landnema sveita og landshluta á milli væru ekki tíð um þessar mundir þá bárust fregnir af nýju, íslensku landnámi víða m.a. í byggðina íslensku við Músará eða Mouse River í N. Dakota. Halldór Egilsson var þá búsettur þar og hann, ásamt Sumarliða Kristjánssyni ferðust norður í Álftárdal og leist vel. Hröðuðu sér til baka og sögðu tíðindin sem vöktu mikla athygli og margir undirbjuggu brottflutning þaðan. Járnbrautin náði í þorpið Cowan sem var tæpa 50 km frá áfangastað en þá leið fór fólkið frá Músará á vögnum.

Landnemanna í Álftárdal beið þrotlaus vinna, allir landnemar sléttunnar í Kanada gátu sagt sömu sögu um frumbýlingsárin. En óbilandi kjarkur, eljusemi og von um betri framtíð fleytti öllum yfir erfiði þessarra tíma og fyrr en varði fóru hjólin að snúast öllum í hag. Íslensku landnemarnir í dalnum urðu aldrei fjölmennir heldur bjuggu þeir vel þar um slóðir með fólki af ólíkum uppruna. Allir landnemarnir nutu þess að Kanada mismunaði ekki þegnum sínum, allir lögðu sitt af mörkum til að gera nýtt samfélag manna, nýja þjóð að öflugri heild.

Mannlíf:

Samfélagið í Álftárdal var myndað af landnemum af ýmsum þjóðernum svo eðlilegast er að segja það kanadískt en það sem einkenndi það frá upphafi var fjölþjóðamenning. Tiltölulega fámennir Íslendingar borið saman við fjölda þeirra í öðrum, íslenskum byggðum á sléttunni tókst samt að halda uppi söfnuði, lestrarfélagi og kvenfélagi. Séra Pétur Hjálmsson stofnaði söfnuðinn sem tilheyrði strax íslenska, lúterska kirkjufélaginu í Norður Ameríku. Ekki gat þó söfnuðurinn ráðið prest í fullt starf heldur þótti nægilegt að fá íslenskan prest í heimsókn einn mánuð á ári á sumrin. Meðal presta voru séra Steingrímur N Þorláksson, séra Guttormur Guttormsson og séra Jóhann Bjarnasson. Þótt íbúar Álftárdals ættu ólíkan uppruna þá varðveitti sérhvert þjóðarbrot uppruna sinn og voru Íslendingar sannarlega ekki eftirbátar annarra í þeim efnum. Þeir sendu íslensku blöðunum fréttir úr byggðinni, tilkynntu andlát og fæðingar og lýstu mannamótum. Var stundum vitnað í dugnað þeirra í Álftárdal þegar fjallað var um varðveislu íslenskrar arfleifðar í Vesturheimi.