Brownbyggð

Vesturfarar

Íslenskt landnám:

Árið 1876 hafði fylkisstjórn Manitoba mælt allstórt svæði sem ætlað var sérstrúarflokki nokkrum.  Ætlast var til þess að landnám hans hæfist á svæðinu strax en Mennónítarnir, eins og sértrúarflokkurinn jafnan var kallaður, dró lappirnar og hvorki bólaði á fyrstu landnemum úr þeirra röðum né mættu þeir á skrifstofu landnámsmála í Winnipeg til að gera tilkall til lands á svæðinu.  Einhverjir úr þeirra röðum unnu á skóglendi á einum stað í héraðinu en gerðu ekkert annað. Árin liðu og það var skömmu fyrir aldamótin að fylkisstjórnin auglýsti loks lönd á svæðinu og máttu nú allir nema þar land.

Brownbyggðin eins og Íslendingar nefndu svæðið er syðst í Manitoba og liggur að landmærum Bandaríkjanna. Um 1900 var þar allmikill skógur víða, sums staðar votlent, mýrar og tjarnir en þar var allt þurrkað þegar landnámið hófst og landið hreinsað. Svonefnd Pembinaá rennur um suðvestur hluta byggðarinnar eftir nokkuð djúpum dal. Þar var beitiland gott.

Um þær mundir voru hreyfingar á fólki í íslensku byggðunum í N. Dakota, einkum í Garðarbyggð og Eyfordbyggð. Ástæðan var sú að ekkert land var falt í þessum byggðum fyrir þá sem vildu hefja búskap. Var bæði um unga menn að ræða sem alist höfðu upp í N. Dakota í föðurhúsum og eins var nokkuð um nýkomna frá Íslandi. Könnunarleiðangrar fóru líka af stað frá Hallson og Akrabyggðum suðvestur af Langdon en fundu ekkert álitlegt svæði þar. Aðrir fóru austur til Minnesota og norður að Whitemouthvatni í Manitoba en sneru vonsviknir heim. Norskur landnemi, Bótólfur Olson kom mikið við sögu á upphafsárum íslensks landnáms í N. Dakota, vísaði hann landnemum á gott svæði þar sem nú er Mountain. Hann var nú fluttur norður til Manitoba, hafði breytt nafni sínu úr Olson í Holo og leituðu Dakotamenn til hans á ný. Hann reyndist þeim vel og benti á stór svæði við landamærin.

Lög um landnám í Manitoba á þeim tímum voru þannig að einn maður gat farið á skrifstofu í Winnipeg og tekið lönd fyrir fjölda manns með því einu að greiða 10 dali fyrir sérhvert landnám. Dakotamenn sendu því úr hinum ýmsu byggðum einstaklinga sem tóku þetta að sér. Þeir ferðuðust til Winnipeg og gengu frá landnáminu. Snemma í maí árið 1899 hófst svo íslenskt landnám þegar fáeinir Íslendingar komu á lönd sín til að reisa kofa. Það voru bjálkakofar með torfþaki og þegar því var lokið sneru þeir til baka og sóttu fjölskyldur sínar og farangur. Allmargar fjölskyldur settust að í byggðinni það ár svo og það næsta.