Lundarbyggð

Vesturfarar

Jón Jónsson frá Sleðbrjót tók að sér það verkefni fyrir Ólaf S. Þorgeirsson að skrifa þætti um íslenskt landnám við Manitobavatn. Fyrsti þáttur birtist í Almanaki Ólafs árið 1910. Hér segir Jón um  Álftavatnsbyggð: ,,Atvik þau, er leiddu til að landnám byrjaði  í bygðum þessum, voru þau er nú skal greina :  Á árunum 1881 —86 fjölgaði mjög Íslendingum í Winnipeg-borg. En borgin var þá ekki komin á það framfara skeið, að nægileg atvinna væri hand öllum þeim fjölda fólks, er þangað flyktist víðsvegar af löndum. Tilfinnanlegastur varð  atvinnuskorturinn  á  vetrum, því fæstir voru svo efnum búnir, að þeir mættu við því að sitja auðum höndum annað missrið. Þeir voru því margir meðal Íslendinga í Winnipeg, er ekki þótti framtíðar- horfur vera bjartar þar í borginni, og fóru því  alvarlega að hugsa um, hvort það myndi eigi vænlegri stefna   að nema lönd og leggja stund á sveitabúskap. Var það oft umræðuefni á skemti-samkomum og  öðrum  mannfundum, hvar heppilegast mundi að stofna íslenzka nýendu, því alment ríkti sú hugsun meðal Íslendinga, að heppilegast væri að sem flestir reyndu að halda hóp, vera út af fyrir sig, og ef kostur væri  á,  afla sér auðs og álits sem sérstakur þjóðflokkur. Þær framkvæmdir urðu í þessu máli vorið 1886, að sambandsstjórnin valdi 2 Íslendinga til þess að kanna land og velja  nýlendusvæði fyrir Íslendinga. Valdi  hún til þeirrar farar  Freeman B. Anderson, sem oft er minst í þætti Winnipeg-Íslendinga (Almanakið og Saga Ísl. í Vesturheimi 4) , og Björn S. Líndal, er nú býr í Grunnavatns-bygð. Hófu þeir ferð sína fyrst vestur í land, til Moose Mountain og Qu’Appelle-dalsins ; var þá einnig í för með þeim Stefán Gunnarsson frá Winnipeg  og  hérlendur leiðsögumaður, er stjórnin lagði til. Ekki urðu skoðunarmenn þessir hrifnir af landinu vestur frá, og þegar er þeir komu aftur til Winnipeg, lögðu þeir af stað norðvestur frá Winnipeg til að skoða landið milli Manitoba-vatns og Grunnavatns  (Shoal Lake), því um þær mundir var Hudsonsflóa brautarfélagið  byrjað að leggja undirstöðu að járnbraut frá Winnpeg vestur á milli áðurnefndra vatna.“

Austan Manitobavatns:

,,Höfðu þeir til fylgdar enskan bónda, því fremur var torvelt at ferðast þar, með því vegir voru engir nema veiðimanna slóðir. Land alt var þá þurt á þessu svæði, og hefir B. Líndal svo  sagt þeim, er þetta ritar, að hvergi hafì hann álitlegra land séð, þar er hann hafi komið, heldur en á þessu  svæði.  Grasið var óvenju hátt og féll í bylgjum, og landið  álitlegt til heyskapar og jarðræktar. Öll  þessi  fyrnefndu svæði, er þeir könnðu, voru þá að mestu óbygð, og var það samhljóða álit þeirra, að hið síðastnefnda væri álitlegast nýlendusvæði. Ferðir þessar kvað Björn hafa verið hinar skemtilegustu. Freeman hafði gengið þessu verki með sínurn vanalega eldlega áhuga. Hefði hann alt af haft við hendina lítinn rekuspaða (presta- spaða) til að kanna jarðveginn ; sagði hann oft hefði slegið í deilu milli Freemans og hinna hérlendu fylgdarmanna, um jarðveginn og kosti hans, og  hefði  Freeman oft stokkið sem kólfi væri skotið út úr vagninum með prestaspaðann á lofti og farið að kanna jarðveginn, og hefði oftast reynst svo, að hann hefði haft á réttara  að standa en hinir hérlendu menn. Þeir, er land vildu nema, hurfu því margir að  því ráði, að flytja þarna út  með hinni fyrirhuguðu járnbraut, því skoðunarmennirnir töldu land þetta sérlega vel fallið til griparæktar, og  þókti  Íslendingum, er flestir höfðu lagt stund á griparækt  heima, að  fúsilegt mundi að búa þar og koma upp gripum, og það mundi arðvænlegt vera, þegar svæðið væri  svona  nálægt Winnipeg, er þá þegar var álitið að yrði aðal markaður  Norðvesturlandsins (þetta var svæðið norðvestur af Manitoba), og kostnaðarlítið mundi verða að koma gripum til markaðar er járnbraut  yrði  lögð  eftir miðri  bygðinni. Það hvatti Íslendinga einnig að leita á þessar slóðir, að fiskiveiði var sögð góð í vötnunum, einkum í Manitoba-vatni. Hugðu þeir gott til, að það mundi þeim búbót mikil á frumbýlings-árunum, að afla fiskjar sér til viðurværis, meðan gripir væru fáir, og með tímanum mundi svo fiskurinn geta orið verzlunarvara, þegar landnemum græddist svo fé, að þeir hefðu ráð á að kosta stærri útgerð, því allmargir þeirra, er hugðu þarna til landnáms, og voru vanir fiskiveiðum heiman af Íslandi. – Þessar voru nú hvatirnar til landnáms Íslendinga austan Manitobavatns: vonin um griparækt í stórum stíl með tímanum, og jarðrækt þegar efni og ástæður leyfðu, og vonin, eðla sem þá var talin vissa,  um hagfeldar og greiðar samgöngur þegar í stað til aðal markaðar Norðvesturlandsins.“

Vert að staldra við og hugleiða aðeins þessar væntingar landkönnunarmanna. Það er ljóst að þeir vita vel hvers þeir leita því áhersla er lögð á kvikfjárrækt og fiskveiðar. Akuryrkja er ekki ofarlega á væntingalista enda ljóst að nánast alls staðar á millivatnasvæðinu (Interlake) hentar jarðvegur illa til kornræktar. Ekki liðu mörg ár þar til margir landnemar höfðu hafið griparækt víða og fljótlega lærðu menn á vatnið, áttuðu sig á göngu fiskitegunda og hvernig best væri að haga veiðum. Menn eins og Helgi Einarsson, sáu tækifærin og nýttu vel. (Sjá þátt um fiskveiðar í Manitobavatni: Atvinna/ Manitobavatn).

Á uppdrættinum sjást lönd Jónasar Sigurðssonar (1915), Bergs Sigurðssonar (1908) og Stefáns Stefánssonar (1901) Ártölin sýna landnámsárin. Næst Grunnavatni hefur maður af öðru þjóðerni krækt sér í 50 ekrur. 

Stærð landnámsins: Á kortinu að ofan sést svokallað Lindalsvatn, kennt við Björn Sæmundsson Líndal sem þar haslaði sér völl. Þórður Kristján Daníelsson og Ísleifur Guðjónsson námu lönd á austurbakka vatnsins og eru lönd þeirra austast í nýlendunni.  Grunnavatn er sunnar en syðstu lönd Íslendinga í Lundarbyggðinni voru lönd Bergs Sigurðssonar og Stefáns Stefánssonar. (Sjá uppdrátt við hliðina) Kortið sýnir svo Álftavatn nyrst í byggðinni en við suðurenda þess var nyrsta landnám Íslendinga. (Sjá uppdrátt að neðan)

Uppdrátturinn sýnir lönd feðganna Gunnars Einarssonar (1907) og sonar hans Valdimars Fischer (1902). Stefán Einarsson nam þarna land 1907.

Nyrst (efst) á kortinu er Eriksdale. Þangað kom Ólafur Hallsson frá Íslandi árið 1910 og byggði þar fyrsta íbúðarhúsið. Rak þar verslun og var virkur í mótun samfélagsins umhverfis þorpið. Frá Eriksdale suður til Oak Point eru 44 km. Frá vatninu um Lundar að austurmörkum byggðarinnar eru 30 km. Burnt Lake kemur talsvert við sögu landnámsins því þangað fóru fáeinir brautryðjendur fyrir 1890. Þar upplifðu þeir kalda vetur og var sveitin þeirra stundum kölluð Siberia. Allir hurfu þaðan eftir mikil flóð og rigningasaumar árið 1890. Flestir fóru þá suður í Markland og mynduðust sveitir í Marklandi, Otto og Vestfold. Skólakortinu neðar á þessari síðu sýnir nokkuð sveitirnar því í þeim voru skólarnir reistir.

Nafnið Lundar er þannig tilkomið að Hinrik Jónsson tók að sér póstafgreiðslu í nýrri byggð við austanvert Manitobavatn. Hann kvæntist Oddnýju Ásgeirsdóttur sem ættuð var frá Lundum í Stafholtstungum í Mýrasýslu. Hann sendi umsókn á skrifstofu póstþjónustu í Winnipeg og bað um að pósthúsið hans yrði kallað Lundum. Á skrifstofu þessari gáfu menn nýjum pósthúsum nöfn í hinum mörgu byggðum Manitoba og staðsettu þau. Hinrik fékk leyfi fyrir opnum pósthúss og skyldi það heita Lundar. Nafnið hafði misritast.

Kirkjur og söfnuðir:

Þegar fáeinir landnemar hefja landnám samtímis í sömu sveit snerist daglegt líf fyrstu mánuðina að koma upp kofa fyrir fjölskylduna og koma henni sæmilega fyrir. Því næst var hugað að skepnum ef menn höfðu þær, annars tóku menn að ryðja landið, hreinsa og undirbúa fyrir ræktun. Hey þurfti fyrir spendýr og því var drifið í að afla þeirra áður en vetur gengi í garð. Næsta bygging á eftir íbíðarhúsi var auðvitað fjós og hlaða. Eðlilega var lítið um heimsóknir meðan á þessu verki stóð en þegar haustaði og meiri tími gafst fóru menn að huga að nágrönnum Mislangt var á milli bæja og menn misjafnlega duglegir við að leggja land undir fót til að rölta á milli bæja. En iðulega tók einhver af skarið, lagði á sig að heimsækja þá landnema sem næstir voru og heyra í þeim hljóðið. Sundum urðu þessar fyrstu heimsóknir til þess að menn ákváðu að hittast allir saman á einhverjum bænum tiltekin dag til að huga að sameiginlegum þörfum íbúa. Haustið 1891 birtist fréttabréf úr Grunnavatnsbyggð og þar í segir: ,, Á fundi sem haldinn var á heimili Jacobs Crawford sumarið 1891, var samþykt að halda húslestra á 5 heimilum til skiftis, þar sem húsrúm var bezt, og verja einum klukkutíma til uppfræðslu unglingana.“  Mun fólkið í byggðinni haft þennan hátt á fram yfir aldamót. Voru þessir fundir bæði til gagns og skemmtunar. Ætíð var lesinn húslestur og sálmar sungnir en síðan var boðið upp á kaffi og gafst bændum og konum þeirra tækifæri til að ræða málin og börn og unglingar sömuleiðis gafst tóm til leikja. Á slíkum fundum bast fólk afar sterkum vinaböndum, saman unnu ungir sem aldnir að myndun lítils samfélags sem seinna varð svo hluti stærra. Lífsbaráttan var hörð, allir glímdu við svipuð vandamál og bjuggu við svipaðan efnahag. Tvennt skipti frumbýlinga miklu máli: tryggja að allir ættu í sig og á og í andlegum efnum vildu menn heyra guðsorð og fræða ungdóminn. Þessi smáu samfélög manna og dýra heyrðu iðulega ekki messu sungna svo vikum og mánuðum skipti en guðsorð vildu menn heyra. Ef andlát varð í samfélaginu kom það fyrir að hinn látni var borinn til grafar án prests t.a.m. voru dæmi um það í Marklandi í Nova Scotia á fyrstu árum landnáms Íslendinga austur þar.  Á umræddum síðasta áratug 19. aldar var það venja manna að greina löndum frá högum manna og voru fréttabréf tíð á síðum Heimskringlu og Lögbergs sem út voru gefin í Winnipeg. Þá var íslenskt kirkjufélag starfandi sem gerði sitt besta til að senda presta eða guðfræðistúdenta í íslenskar nýbyggðir. Þannig var það Ingvar Búason, sem fyrstur kandidat í prestaskóla heimsótti Grunnavatnsbyggð og söng messu. Það gerði hann sumarið 1895 og mun hann hafa gengið alla leiðina frá Winnipeg. Og um aldamótin heimsóttu prestar byggðina stöku sinnum.

Únitarar: Um aldamótin hröktu flóð í Winnipegvatni menn og skepnur af ýmsum jörðum í Nýja Íslandi, m.a. Mikley. Það fólk leitaði vestur á sléttuna á millivatnavæðinu svokallaða og settust sumir að í Grunnavatnsbyggð. Nokkrir hinna nýkomnu höfðu aðyllst trúarkenningar Únítara og eflaust átt það sinn þátt í ákvörðun séra Alberts Kristjánssonar að heimsækja hina ungu byggð. Hann mun hafa verið fyrsti presturinn til að messa þar að staðaldri og áreiðanlega sóttu aðkomnir únitarar messur hans og eflaust einhverjir eldri landnemar í byggðinni sem kannski var sama hvaðan gott kæmi! Gott starf hans leiddi til stofnunar fyrsta safnaðar byggðarinnar 12. september, 1909. Hlaut hann nafnið Ljósvaki. Venju samkvæmd var kjörin stjórn og skipuðu eftirfarandi helsti embætti: Pétur Bjarnason, forseti, Steinþór Vigfússon ritari og Einar Johnson gjaldkeri. Þessi söfnuður efldist smám saman og árið 1913 voru skráðir 63 í söfnuðinum. Sama ár var ákveðið að reisa kirkju og var hún vígð og tekin í notkun árið 1915. Ljótunn Guðmundsdóttir skrifaði á sínum tíma í afmælisrit Lundarbyggðar (SÁG) og sagði:,,Hjálpaði það mikið að séra Albert þjónaði söfnuðinum endurgjaldslaust á því tímabili, var hann sjálfur við búskap austar í byggðinni. Séra Albert Kristjánsson var fyrirtaks ræðumaður og ágætur leiðtogi á fleiri sviðum en kirkjunnar. Hann var góður leikstjóri og leikari, og hafði yndi af söng og var æfinlega reiðubúinn til að taka þátt í félagslífi bygðarinnar.“ 

Lútherskur söfnuður:  Um 1906 var ljóst að fjöldi nýlendubúa óskuðu stuðnings frá Lútherska kirkjufélaginu um prestsþjónustu í byggðinni og brást það vel við. Upp frá því komu guðfræðingar reglulega í byggðina og sungu messur, einkum á sumrin. Þá var messað í heimahúsum eða í einhverjum skólanum. Það var svo árið 1913 að söfnuður var stofnaður og mun séra Carl Olson hafa átt mestan þátt í því. Safnaðarlimir brugðust vel við því með sameiginlegu átaki byggðu þeir kirkju  vestur af Otto og þótti það mikið afrek því þetta tókst þeim án þess að söfnuðurinn færi í skuld. Þeir gáfu alla vinnu sína og unnu efnið í bygginguna sjálfir.

Lestrarfélög: 

Ljótunn Guðmundsdóttir úr Borgarfirði bjó alla sína tíð í Lundarbyggð og lagði sitt að mörkum þegar óskað var eftir efni í afmælisrit Lundarbyggðar. Næstu kaflar eru hennar: ,, Þess er getið í fréttabréfi frá Árna Freeman til Heimskringlu, að lestrarfélagið “Mentahvöt“ hafi verið stofnað í húsi Árna M. Freemans 13. febrúar 1889. Gengu  átta  meðlimir í félagið á fyrsta fundi. Mun Jón Jónatanson hafa verið  frumkvöðull að  því, að félagið væri stofnað, og var hann fyrsti bókavörður. Fvrst í stað var  ársgjald 1 dollar, seinna var  það  fært  niður  í 75 cent. Á því  ári var haldin  fyrsta samkoman í þeirri bygð, sem seldur var inngangur að, til arðs fyrir lestrarfélagið. Var það tombóla og inntektir voru $17.65. Mun hafa verið gert að reglu eftir það,  að halda eina samkomu á ári, til styrktar félaginu, þar til fyrsta heimsstríðið skall á 1914. Var vanalega vandað til þeirrar samkomu. Var félagið mjög vinsælt meðal bygðarbúa, og eignaõist fjölda að ágætum bókum, enda voru vel hæfir menn sem stóðu fyrir kaupum bókanna, um margra ára skeið, má þar nefna   Björn Thorsteinson, sem var bókavörður í mörg ár, og Hjálm Danielson, sem lengi var skrifari og féhirðir félagsins, og ýmsa fleiri. Sýndu þeir staka smekkvísi í vali bókanna, nokkuð af bókum var keypt frá Íslandi,  en  flestar munu þær hafa verið keyptar af Halldóri Bardal í Winnipeg, sem á þeim tímum hafði stóra bókabúð. Um 1911 voru bækurnar í 4  deildum  víðsvegar um bygðina, til þæginda fyrir meðlimi;  var þeim svo skift á vissum tímum. Mun þá hafa verið um 300 bækur í félaginu, en seinna varð talan um 1,ooo. Lestrarfélagið “Morgunstjarna” var stofnað á Hove P.O., í kringum 1907. Stofnendur voru Andrés Skagfeld, Sigurður  Eyjólfson  og  Jón Jónsson.  Ársgjald var 1 dollar. Stóð félagið með miklum blóma í mörg ár, og eignaðist ágætar bækur. Vigfús Þórðarson var lengst af bókavörður. Á tímabili voru bækurnar hjá Sigurði Eyjólfssyni, en voru fluttar aftur til Vigfúsar. Var hann bókavörður þar til 1926 að hann flutti til Oak Point.Um það leyti fluttu frá Hove, margir meðlimir og tveir stofnendur félagsins. En aftur á móti fjölguðu meðlimir frá Vestfold, og þangað fluttust bækurnar þegar Vígfús Þórðarson flutti í burtu. Starfaði félagið nokkur ár eftir það, en svo var ákveðið meðal félagsmanna að eitt lestrarfélag nægði þörfum bygarinnar beggja megin vatnsins, svo lestrarfélagið “Morgunstjarna” ákvað að sameinast lestrarfélaginu “Mentahvöt” og var bókum félaganna slegið saman. Eftir það höfðu Vestfold búar deild úr félaginu , sem skift var á vissum tímum. Morgunstjarna mun hafa átt um 300 bækur.“

Pósthús:

Heimili Magnúsar Kristjánssonar í Otto í Lundarbyggð. Hann rak þar pósthús og smáverslun og var iðulega mikill gestagangur. Fyrir kom að þeir sem langt að voru komnir þáðu gistingu. Mynd WtW

“Fyrsta pósthúsið í hinni ungu Grunnavatnsbygð var stofnað 1. marz 1894, og nefnt Otto. Var Nikulás Snædal fyrsti póstmeistarinn. En 5 árum seinna tók Magnús Kristjánsson við þeirri störfu, og gegndi hann póstmeistarastörfum á Otto í 31 ár, eða þar til hann flutti til Lundar 1930. Á næsta ári, 1895, var stofnaò pósthús sem nefnt var “Vestfold“ sunnan megin við Grunnavatn. Var Árni Freeman póstmeistari þar. Og Þriðja pósthúsið var einnig stofnað á þessu ári, við austurenda bygðarinnar og norðan megin við vatnið, og nefnt Markland. Björn Lindal var þar póstmeistari, frá því það var stofnað og þangað til hann brá búi, og flutti í burtu, nálægt 1920. Póstflutningur var erfiður á þeim árum, lélegar brautir og oft afar mikill snjór á veturna. Markland póstinn þurfti að sækja til Loch Manor, 18 mílur. Björn Thorsteinson flutti póstinn fyrstu 8 árin, stundum gangandi, stundum á hestbaki eòa keyrandi þegar bezt lét. Þegar snjókyngi var mikið á veturna, brúkaði hann snjóskó. Laust eftir aldamótin var mikill innflutningur í bygðina af fólki frá Nýja Íslandi. Þetta fólk varð að yfirgefa heimili sín vegna flóða, og voru þá mynduð tvö ný pósthús, Hove og Stony Hill. Var Jón Jónsson fyrsti póstmeistari á Hove, en Guðmundur Jónsson á Stony Hill. Var oft gestkvæmt á pósthúsunum, ekki sízt á Otto, Markland og Stony Hill, því á öllum þessum stöðum voru verzlanir, kom fólk saman á  póstdögum, ekki einungis til að sækja póstinn, heldur til að kaupa nauðsynjar sínar, og tala við nágranna sína um daginn og veginn. Voru konur póstmeistaranna  önnum  kafnar  á  þeim dögum að veita kaffi, en þær sáu ekki eftir því, því Íslendingunum er gestrisnin í blóð borin.“

Skólar:

Strax á fyrstu árum í Síberíu, fóru landnemar að safna efnivið í skólabyggingu, sáu allir nauðsyn á, að  sem fyrst væri starfræktur skóli.(Sjá Menntun í Manitoba/Manitoba) En áður en það komst í framkvæmd, kom hið mikla rigningasumar 1890, sem  gerði svo mikinn skaða á búum manna,  að fólk varð að  flytja  í  burtu,  settist  það að við Grunnavatn, og smásaman fluttu allir sig þangað og Siberia lagðist í eyði. Fyrsti skóli sem bygður var í Grunnavatnsbygð, var Vestfold skóli, 1894. — Nemenda tala var 11 fyrsta  árið, og fyrsti kennari var íslenzk stúlka, Ingiríður Johnson, síðar Mrs. Dr. B. B. Jónsson. Markland skólahérað var sett á stofn 1. janúar 1895. Á því ári var kent á skólanum í 44 daga, og var fyrsti kennari J. J. Bíldfell. Næsti kennari á þeim skóla var Björg Thorkelson (dóttir Jóns Jónatanssonar og Guðrúnar Sveinungadóttur), fyrsti Íslendingur sem útskrifaðist af kennaraskóla í Canada. Árið 1903 voru stofnuð tvö skólahéruð, Norðurstjarna og Háland. Fyrsti kennarinn á Háland skóla var Emily Baldwinson (síðar Mrs. J. Pálsson), og fyrsti  kennari  á  Norðurstjörnu   skóla var Steinunn Stefánsson (Mrs. Sommerville). Margir ágætir íslenzkir kennarar kendu á þessum skólum eftir því sem árin liðu, og var það nemendunum til mikils gagns. Í enda hvers skólaárs var haldin samkoma þar sem börnin komu fram í stuttum leikjum, upplestri og söng. Hjálpaði það til að gera þau ófeimin. Kennarar eins og  Fred Olson, sem kendi á Markland sumarið 1900, verða ógleymanlegir nemendum sínum, ekki  sízt  drengjunum; kendi hann þeim að leika fótbolta og ýmsa aðra leiki, af meiri list en áður þektist. Það var siður um og eftir aldamótin, að 8 tiI 10 skólar höfðu úti-skemtun (picnic), þar sem skólarnir keptu hver við annan í ýmsum  íþróttum, einnig var skrúðganga sem skólarnir tóku þaátt í, hver undir sínu flaggi. Þetta vakti samkepni meðal barnanna og þau höfðu sterkan áhuga fyrir því að þeirra skóli hrepti sem flesta vinninga, því miður hafa útiskemtanir í þessu formi lagst niður.“                                                                                                                                                   Fyrsti skóli í Álftavatnsbyggð var Franklinskóli sem stofnaður var árið 1889. Bygging var reist fáeinum kílómetrum suðaustur af Lundar. Þessi skóli var fluttur til Lundar árið 1911 og kennt í honum þar til ný bygging var fullgerð árið 1914. Swan Creek skóli hóf starfsemi árið 1892 og er sá um sex kílómetra norðvestur af Lundar.

Kortið sýnir skólana sem starfræktir voru í Lundarbyggð frá 1885. Íslensk börn voru flest í skólum næst Lundar svo sem Franklin, Mary Hill, Swan Creek og Stone Lake. Segja má að skólarnir Morning Star, Rocky Hill, Norður Stjarna, Markland, Vestfold og Haland hafi nánast verið alíslenskir á tímabili. Þegar árin liðu og börnum fækkaði einhvers staðar voru skólar lagðir niður og börn flutt milli byggða. Þá blönduðust byggðir talsvert í áranna rás, lönd gengu kaupum og sölum, þjóðernið skipti smám saman minna máli.

 Skólar:  Lily Bay Skóli:

Skólinn í Lily Bay var reistur árið 1911. Mynd WtW                                                                              

  Eitt fyrsta skólahérað  Álftavatnsbyggðar er Lily Bay sem var stofnað árið 1885. Íbúar héraðsins voru flestir breskir og tóku þeir höndum saman og reistu bjálkahús sem notað var sem skólabygging til ársins 1911 en þá var annar, stærri  skóli byggður. Íslendingar voru fámennir þarna við Lily Bay flóann og sóttu fá íslensk börn hann. Aðeins er vitað um einn íslenskan kennara, Tom Breckman.

Franklin skóli reistur árið 1903 og fluttur til Lundar árið 1911. Mynd WtW.

 

 

 

 

 

Fyrsti skóli í Álftavatnsbyggð sem telja má íslenskan var Franklinskóli sem stofnaður var árið 1889. Á fundi í sveitinni 6. janúar, 1890 var samþykkt að ráðast í byggingu skólahúss. Skólinn reis fáeinum kílómetrum suðaustur af Lundar. Á Þorláksmessu, árið 1903 var fundur um skólamál og samþykkt að nauðsynlegt væri að byggja nýtt og stærra skólahús. Sá skóli var fluttur til Lundar árið 1911 og kennt í honum þar til ný bygging var fullgerð árið 1914. Meðal kennara fyrstu árin voru Björg Jónsdóttir, Ingvar Búason og Árni Anderson. Jón Sigfússon var fyrsti fjárhaldsmaður (trustee) skólans og gengdi því embætti til ársins 1903.

Chalton skóli:

Skólahérað  eitt sunnarlega í byggðinni var kallað Chalton og hófst þar kennsla árið 1889. Skólahús úr bjálkum var reist og notað í mörg ár bæði fyrir kennslu en einnig voru þar haldnir allir fundir sveitafélagsins svo og skemmtanir. Íslendingar voru fáir en nemendur þessa skóla áttu árlegar samverustundir með íslenskum jafnöldrum í skólanum í Havland. Þá voru íslenskir kennarar við skólann t.d. Kári Vigfússon og Kris Breckman.

 Vestfold skóli: Skólinn í Vestfoldbyggð var stofnaður 19. mars, 1894. Húsið var bjálkahús, reist á landi sem Halldór Einarsson gaf  skólahéraðinu. Árið 1909 var nýr skóli tekinn í notkun og stóð nokkuð sunnar.

Á landnámskortinu sést land Halldórs Einarssonar næst vatninu. Hann nam þar land árið 1902 og sama gerði nágranni hans Stefán Björnsson. Hann breytti nafni sínu í Byron en synir hans tveir, Kári og Björn settust að í næstu section eins og sjá má.

Gamla skólahúsið í Vestfold var bjálkahús og var notað til ársins 1909. Á myndinni, sem tekin var árið 1900 fyrir fram bygginguna má meðal annars finna Kára Byron. Hann bjó alla tíð í Lundarbyggðinni, var athafnamaður og gengdi ýmsum embættisstörfum.

Aftast: Árni Anderson, kennari. Röð fyrir framan hann: Stína Johnson, Rúna Johnson, Villi Freeman, Hanni Snidal, Sibba Einarson, Munda Johnson, Helga Einarson, Jóna Johnson, Einar Einarson og Magga Freeman. Fremst eru: Jón Ingimundson Johnson, Lína Johnson, Kári Byron, Lóa Snidal, Þórður Snidal, Björg Jóhnson og Einar Johnson

Skólinn breytti miklu í lífi barnanna í sveitunum í kring því þótt foreldrarnir, margir hverjir, hefðu náð einhverjum tökum á ensku þá var íslenskan yfirleitt alltaf töluð á heimilunum. Kennt var á ensku og tók það yngstu börnin sinn tíma að læra enskuna. Skólinn var opinn í fimm mánuði yfir sumartímann og þar sem stutt var í vatnið þá gripu börnin tækifærið fegins hendi í hita sumarsins og kældu sig í vatninu. Var reglan að þangað færu allir nemendur einu sinni á dag. Íþróttir voru á dagskrá skólans öll sumur og kepptu nemendur í frjálsum íþróttum við jafnaldra sína úr nærliggjandi skólum. Skólinn nyttist sveitinni vel til annarra hluta t.a.m. voru þar haldnar skemmtanir og dansleikir. Þá voru sett á svið leikrit og um jól voru tónleikar sem nutu mikilla vinsælda. Kennarar voru íslenskir fyrstu árið og var Lena Johnson fyrsti kennarinn, þá var Árni Anderson ráðinn árið 1898, Guðný Kristjánsson og B. I. Sigvaldason bættust í hópinn. Árið 1959 varð Vestfoldskólahéraðið innlimað í nýtt sem kallaðis Lakeshore School Division.

Marklandskóli: Björn Sæmundsson Líndal settist að í nýrri íslenskri sveit í Grunnavatnsbyggð  árið 1891. Skóli var reistur á landi hans við stöðuvatn sem seinna bar nafn hans og heitir enn Lindals Lake. Björn sinnti skólamálunum vel því hann var formaður skólanefndar í 25 ár eða þar til hann flutti úr byggðinni.  Fyrsti kennari skólans var ungur maður frá Winnipeg Jón J. Bildfell að nafni. Hann varð seinna ritstjóri Lögbergs sem gefið var út í Winnipeg.  Tók hann að sér kennsluna tvö sumur, 1895 og 1896 en árið 1897 var skólinn ekki starfandi vegna fjárskorts.

Gamli Marklandsskólinn var byggður árið 1895. Björg Jónsdóttir, dóttir Jóns Jónatans-sonar Þorkelssonar og konu hans, Guðrúnar Sveinungadóttur var fyrsti kennari skólans. Hún flutti vestur árið 1883, braust gegnum skólanám og var henni veitt kennararéttindi árið 1890 og mun  hafa verið fyrsti Íslend-ingurinn í Manitoba til að fá slík réttindi. Mynd WtW.  

Þessir nemendur voru í skólanum árið 1907: Fremsta röð: Kari Johnson, Ernest Eirikson, Skapti Johnson, Thorsteinn Thorsteinsson, Jonatan Johnson. Í miðju: Margaret Thorsteinsson, Emma Sigurdson, Erna Stefansson, kennari, Sigga Erickson, Jana Danielson. Aftast standa: Arthur Eiriksson, Laufey Lindal, Nybjorg Halldorsson og Jon Jonsson. Mynd WtW.

Skólanefndin leysti fjárhagsvandann og var Björg J Thorkelson ráðin kennari við skólann árið 1898. Meðan skólinn starfaði á sumrin þurftu eldri nemendur skólans iðulega að hverfa frá námi einhvern tíma sumars þegar kom að heyskap. Að því kom að skólinn starfaði yfir veturinn og var hann þá kynntur með sérstökum ofni í stofunni og hann lýstur með kolaolíulömpum. Börnin voru flutt á sleðum til og frá skóla á veturna en í hestvögnum á sumrin. Kennarar skólans nutu alla tíð mikillar gestrisni foreldra sem allir vildu undirbúa börn sín undir framtíðina í vaxandi samfélagi þar sem enska var þjóðtunga. Samt gerðu þeir kennurunum líka grein fyrir íslenskum uppruna sinna og barnanna, kappkostuðu að íslenskri arfleifð yrði sóma sýndur í skólanum. Einkum vildu þau að börnin lærðu að lesa íslensku. Skólahúsið var nýtt á ýmsavegu, þar var dansað, fundað, haldnir fundir og fluttir tónleikar. Lagðist þetta af þegar samkomuhúsið Markland Hall var byggt árið 1904. Helstu kennarar skólans vori Jón J. Bidlfell 1895-1896, Björg Thorkelson 1898-1901, Fred J. Olsen (Friðrik Júlíus Ólafsson) 1901-2, Evelyn Lundy 1903, Mary Kelly 1904-1906, Jonasina Stefansson 1907-1908, Margrethe Thorlaksson 1909, Rose Magnusson 1910, Bjorgvin Stefansson, Rannveig Thorsteinson, Asta Austman, Séra Guðmundur Árnason, Thora Stephenson, Jon Runolfson, J. Magnus Bjarnason, H. Bardal, C.A. Shewfelt, Laura Sigurjonson og Jana G. Gudmundson.

Mary Hill skóli:  Mary Hill er allstór sveit suður af Lundar og var þar myndað skólahérað árið 1899 og sama ár tók þar skóli til starfa. Þorvaldur Þorvaldsson úr Skagafirði var fyrsti kennari skólans en hann fór vestur 8 ára gamall með foreldrum sínum og systkinum árið 1887. Bróðir hans Þorbergur tók við fjórum árum seinna. Fjölmörg börn og unglingar voru í byggðinni svo strax frá upphafi og fjölgaði hratt.  Sem dæmi skal bent á að þegar kennsla hófst í apríl, 1906 voru 18 nemendur í skólanum. Þegar maí og júní voru liðnir  þetta ár voru nemendur orðnir 36.  Foreldrar barnanna skiptust á um að hýsa kennarana á fyrstu árunum.  Líkt og tíðkaðist þá var byggingin nýtt til ýmissa skemmtana og funda. Þar var líka messað.

Aðrir helstu kennarar skólans voru Freda Harold, Dora Eldon, Miss Henby, Lawrence Johannson, Hallgrimur Jonsson, Emma Johannesson, Lena Johnson, Helga Arnason, Hilda Arnason, Rannveig Thorsteinson, Hilda Erickson, Freda Einarson, Henry Powell, Barney Thordarson, Mary Foster,

Fremsta röð: Kristjan Bjarnason, Johann Johnson, Larus Johnson, Einar Eirikson, Oli Olafson, Joe Westman, Bjorn Thorlakson, Arman Magnusson,Bjorgvin Gudmundson, Allan Sigurdson. Næsta röð: Runa Olafson, Steinun Hallson, Thora Bjarnason, Bjorg Gudmundson, Inga Johnson, Helga Johnson, Olof Olafson,Gudny Magnusson, Karitas Breckman, Margret Eirikson. Þriðja röð: Sigridur Johnson, John Johnson, Lauga Westman, Johanna Einarson, Ella Johnson, Stina Johnson, Thorbergur Thorvaldson, kennari, Bjorgvin Stefanson, Airikur Sigurdson, Oli Sigurdson, Bjorn Hallson, Jonatan Magnusson, Aftast: Eyolfur Bjarnason, Gudni Stefansson, Bjarni Nordal, Gudjon Hallson, Jon Johannson, Bj0rn Stefansson, Lena Peturson, Olof Olafson, Inga Bjarnason, Bjorg Thorkelson, Frida Stefansson og Thora Olafson. Mynd WtW Nemendur skólans og Þorbergur Þorvaldsson kennari.

Þorvaldur Þorvaldsson fyrsti kennarinn í Mary Hill skólanum í Lundarbyggð var ættaður úr Skagafirði.

Alla Brynjolfson, Mr. Burnell, Johannes Eirikson, Rose Racklin, Lauga Phippen, Helga Reykdal, Mildred Hackland, Rosa Johnson, Olaf Sigfusson, Vivian Magnusson, Miss E. Reid, Doreen Breckman, Hiram Clark, Leonre Guerney, Marguerite Laidler, Baldwin Berg og Anne Thorkelson.

Formenn skólanefndar voru helstir: Skuli Sigfusson, Gudmundur Gudmundson, John Sigurdson, Stefan Olafson, Sigurdur Sigurdson, Einar Borgfjord, Bjorn Austman, Gudni Stefansson, Bjorn Bjornsson, Mundi Sigurdson, Helgi Bjornsson, Bjorgvin Gudmundson, John Johanson, Barney Nordal, John Thorgilson, Albert Einarson, Rannveig Gudmundson, Sveinbjorn Olafson, Arthur Sigfusson, Robert Hallson og Magnus Bjornsson.

 

                                                                                                                                                                                                                                    

Norður Stjarna: Nýtt skólahérað var samþykkt í Lundarbyggð 3. apríl, 1903 sem kallað var Norður Stjarna. Allmargir Íslendingar urðu að yfirgefa lönd sín í Mikley og settust að í byggðinni. Bygging skólahúss hófst sama ár en erfitt var um vik því svæðið var nokkuð bert og þurfti að sækja við úr nærliggjandi byggðum. Franklin E. Sigurdson minntist þess að faðir hans, Sigfús Sigurdson hafi sótt efni á hestvagni sínum trúlega alla leið til Oak Point. (WtW bls. 46) Sama þurftu aðrir landnámsmenn að gera þegar reisa þurfti íbúðarhús. Sögunarmylla var norður af byggðinni og trúlega sóttu flestir efni þangað. Skólinn var rúmgóður, skólastofan stór en á efri hæð var matsalur. Kynntur ofn var á jarðhæð en seinna var kjallari, kynndiklefi, grafinn undir hluta hússins. Skólinn var í sunnanverðu héraðinu og voru nemendur fluttir í skólann á vögnum og seinna sérstökum skólabíl

Mislangt var á milli skóla í Lundarbyggðinni en það breytti litlu því kappkostað var að halda sameiginleg íþróttamót og samkomur. Árlegar sumarhátíðir nemenda voru afar vinsælar. Nemendurnir í Norður Stjörnu, Vestfold og Rocky Hill hittust árlega á velli austur af Norður Stjörnu skólanum. Dagskráin hófst alltaf með skrúðgöngu, hver skóli var með sinn fána og báru hann hæstu nemendur hvers skóla. Skólabúningar þekktust en þeir voru ekki lögbundnir. Að lokinni skrúðgöngu sungu nemendur hvers skóla sinn baráttusöng og svo hófst íþróttamót. Keppt var í ýmsum hlaupagreinum og knattleikjum. Verðlaun fyrir sigur, annað sæti og það þriðja voru veitt, oftast smá peningaupphæð. Kvenfélagið Frækorn annaðist veitingar á þessum dögum en sérhver húsmóðir í héraðinu tilheyrði þessum félagsskap og gilti einu í hvaða skóla hennar börn gengu. Sérstöku ístjaldi var slegið upp á vellinum og fengu öll börn, sjá ára og yngri gefins einn ís, eldri börn greiddu fáein cent fyrir sinn. Philip Johnson og Sigfus Sigurdson sá um ístjaldið.

Helstu kennarar skólans voru Steina Stefanson, Th. J. Johennesson, Harvardur Eliasson, Gudmundur O. Thorsteinson, Sigurlin Johnson, Jon Straumfjord, E. Holmquist, Agnar Magnusson, Sigga Peterson, Rev. Hjortur Leo, Johann Magnus Bjarnason, Thorstein O. S. Thorsteinson, Ruth Bardal, Lilja Erlendson,Lottie Olafson, Palina Johnson, Stina Skulason, Felix Sigurdson, Emma Tomasson, Gudmundur Eyjolfson, Chrissie Halldorson, Lillian Olson, Magnusina Jones, Joyce Ford, Dagny Kristenson, Pat McFee, Margaret Proven, Eleanor Westman, Frank Olson, Rosa Johnson, Siggi Sigurdson, Helga Eirikson, Joyce Spring, Sigrun Skulason, Magdeline Gisbrecht, Mara Hunter, Eileen Kaul, Peggy Bjornson, Dennis Einarson og Sigurbjorg (Sibba) Johnson.

Líkt og í öðrum byggðum í  dreifbýli Manitoba var skólahúsið frá upphafi notað sem samkomuhús, dansstaður og leikhús. Árið 1919 var byggt við skólann og önnur kennslustofa tekin í notkun. Það reyndist nokkuð vanhugsað því uppúr 1920 fór nemendum fækkandi en lán hvíldi á nýbyggingunni í 20 ár.