Byggðir við norðanvert vatn

Vesturfarar

Allt frá árinu 1880, þegar ljóst var að framtíð Nýja Íslands var óviss og flestir þaðan fluttir annað voru Íslendingar í Manitoba stöðugt að kanna aðra möguleika í Manitoba. Margir fóru vestur í Argylebyggð, aðrir í Brownbyggð. Fjöldi Íslendinga í Winnipeg óx umtalsvert á árunum 1881 til 1886, margir nýkomnir frá Íslandi. Manitobastjórn var duglega að benda innflytjendum á hugsanleg landnámssvæði og hvetja menn í landkönnunarleiðangra.

Álitleg svæði fundust vestur við Manitobavatn og á þessum áratug settust fjölmargir að í Lundarbyggð sem samanstóð af Álftavatnsbyggð og Grunnavatnsbyggð. Fáeinir landnemar í Álftavatnsbyggð voruóheppnir með löndin sín í byggðinni og fóru að íhuga aðra möguleika. Fregnir bárust um að lengra norðvestur með Manitobavatni væru álitleg svæði .

NARROWS

Nafnið Narrows er vegna þess að vatnið fellur þar á litlu svæði í afar þröngum farvegi og ekki er nema tæpur kílómetri þar yfir. Snemma nefndu Íslendingar þetta Mjóasund og var hugmyndin þá að kalla byggðina Mjósundsbyggð. Aldrei festist það við þessa litlu byggð heldur hefur hún alltaf verið Narrowsbyggð,

Helgi Einarsson var fyrstur Íslendinga til að kanna svæðið. Hann fór vestur um haf árið 1887 og flutti á land sitt í Narrowsbyggðinni í apríl, 1889. Faðir hans, Einar Kristjánsson fór norður þangað með honum og varð hann fyrsti póstafgreiðslumaður byggðarinnar.

Fáeinir landnemar í Álftavatnsbyggð fluttu norður þangað og aðrir víðar að. Sagt var að víða væru landkostir góðir og fiskveiði þónokkur og arðbær. Ferðin þangað var erfið því engir voru þar vegir, aðeins stígar eftir frumbyggja. Landnemarnir voru flestir fátækir, engir áttu hesta en fáeinir notuðust við uxa. Þegar á svæðið kom hófust menn strax handa við að reisa kofa, koma sér fyrir og kanna síðan svæðið. Menn sáu fljótlega að það hentaði prýðilega fyrir búskap og ekki leið á löngu áður en gripir tóku að birtast í byggðinni. Menn fóru strax að veiða og var fiskveiðin frábær. Galli var þó á gjöf Njarðar því langt var á markað með aflann, styðst var suður til Westbourne, þorp suðvestan veð Manitobavatnið. Þangað voru samt rúmlega 110 km leið frá Narrows aðrir fóru á ísnum suður endilangt vatnið til Delta og þaðan austur í þorpið Reaburn. Verðið sem fékkst fyrir aflann þótti lélegt fyrstu árin en með mikilli þrautseigju og dugnaði fóru hjólin að snúast og ekki leið á löngu þar til eignir manna í byggðinni höfðu margfaldast

Þegar landnám Íslendinga hófst þarna var fremur lágt í Manitobavatni en að fáeinum árum liðnum fór vatnið að hækka og smám saman urfu góðir hagar undir vatn, ýmsir misstu fína haga og var þetta eðlilega öllum mikið áfall. Menn urður fyrst varir við þessa hækkun vatnsyfirborðsins árið 1892 og undir lok aldarinnar höfðu nokkrar fjölskyldur hrökklast burt og leitað annað. Munnmælasögur frummbyggja hermdu að hækkunin í vatninu varaði að jafnaði í tíu ár en næstu tíu ár á eftir lækkaði fyrirborðið hægt og sígandi.

Upp úr 19oo heyrðust raddir um að til stæði að leggja járnbraut norður austan megin vatnsins frá Oak Point til Narrows. Íbúar í byggðinni létu þetta tal ekki framhjá sér fara, þeir söfnuðu liði og fór sendinefnd til Winnipeg og fundaði með ráðamönnum fylkisins. Stjórnin lofaði að brautin yrði þangað komin eftir tvö ár. Um sama leyti samþykkti ríkisstjórnin að láta grafa skurð úr Manitobavatni til að lækka það og þurrka löndin. Þessi mál leiddu til frekara landnáms í Narrwos en vatnið fór að sjatna 1902 og næstu tíu árin gátu landnemar nýtt sér svæðið. Árið 1911 var slegið en 1913 var landið svo aftur komið undir vatn, munnmælasaga frumbyggja reyndist rétt.

Wapah

Fyrir vestan Narrows við Manitobavatnið er alllöng strandlengja sem var einungis byggð Íslendingum skömmu eftir 1900. Þetta var nánast einsett bæjarröð við vatnið og nokkuð langt á milli bæja. Syðst er Wapah og þar var samnefnt pósthús og kallaðist héraðið Wapahpósthúshérað. Vestan megin var héraðið afgirt að vatninu Ebb and Flow og að norðan af um 5 km breiðum skógi, grýttum og óbyggilegum.

Reykjavík

Norðan við Wapah er tangi sem skagar út í Manitobavatnið og heitir sá Bluff. Þar hófst íslenskt landnám upp úr aldamótum og voru fyrstu frumbyggjar bræðurnir Ingimundur og Guðjón Erlendssynir. Fyrstur Íslendinga til að kanna svæðið var hins vegar Jón nokkur Halldórsson sem seinna bjó í Lundar. Hann hafði byggt sér kofa, dvalið þar eitthvað en sá litla framtíð þarna vegna fámennis, hann var jú þarna aleinn og flutti því á brott. Nokkur hópur fylgdi þeim bræðrum eftir næstu árin og þarna myndaðist íslensk byggð. Póshús var opnað og nefndist það Reykjavík og var héraðið jafnan kallað Reykjavíkur Pósthérað.

Asham Point

Fyrir vestan Bluff tangann skerst vík nokkur alllangt inn í landið. Vestan við hana og sunnan er víða heilmikið graslendi og hagar góðir. Er þetta svæði einkar gott fyrir kvikfjárrækt og settust þess vegna allmargir Íslendingar að við vík þessa. Hér var opnað pósthús sem nefndist Asham Point og dró héraðið nafn sitt af því. Landslag í þessum héruðum sem nú hafa verið kynnt svipar mjög til þess sem einkennir aðrar sveitir austan vatnsins. Skiptast á skógar, engi og mýrar og víða flæðir yfir svæði þegar yfirborð vatnsins hækkar. Þessi reglulegu flóð í vatninu urðu til þess að hér gat aldrei orðið fjölmennt. Nokkrir fluttu brott, sumir létust í þessum byggðum og fór bú þeirra stundum í eyði.