Menntun í Manitoba 1870 – 1916

Vesturfarar

Deila í Manitoba um rétt frönskumælandi íbúa í Manitoba til frönsku- og trúfræðináms (kaþólska) í skólum fylkisins frá stofnun þess árið 1870 er gjarnan talin vera ein mikilvægasta deilan um kanadískt menntakerfi. Hafði hún bæði langvarandi og skammvinnar afleiðingar. Árið 1870 varð Manitoba eitt fylkja Kanada þegar svonefnd Manitobalög (Manitoba Act) var samþykkt. Segja má að barátta Métis (kynblendingar) í Rauðárnýlendunni árum saman um að réttindi þeirra væru virt hafi átt stóran þátt í þessum lagabálki. Kafli 23 sem fjallar um notkun ensku og frönsku í þing- og réttarsölum landsins byggir á kafla 133 í lagabálknum sem geymdi lög um Bresku Norður- Ameríku (British North American Act) en þar er rækilega útskýrð notkun tungumála (ensku og frönsku) í opinberum stofnunum.

Kafli 22 í Manitobalögum fjallar um menntakerfi fylkisins og þar er kveðið á um skóla fyrir kaþólska annars vegar og mótmælendur hins vegar. Kaþólskir fengu rétt til að nota frönsku í sínum skólum en mótmælendur ensku. Þetta varð að lögum í Manitoba 3. maí,1871. Frönskumælandi kaþólikkar litu til kafla 93 í BNA lagabálnum en þar er skýrt kveðið á um að áfrýja megi fylkislögum sem á einn eða annan máta halla á frönsku-mælandi.
Þegar Manitoba varð hluti hins unga þjóðríkis vara fjöldi ensku- og frönskumælandi íbúum fylkisins nánast hinn sami. Fyrir kaþólska var fylkinu skipt niður í söfnuði sem hver og einn hafði sínar stofnanir en mikilvægust þeirra voru skólarnir. Einn merkasti munur á skólum kaþólskra og mótmælenda var sá að engine trúfræðsla fór fram í skólum mótmælenda. Kaþólskir gerðu trúfræðsluna að lykilatriði í þeirra skólum en foreldrar höfðu ákvörðunarrétt í þeim málum.

Landamæra- og stjórnmálabreytingar í Manitoba 1870 – 1918.

Þegar Manitoba varð fylki í Kanada afréðu margir frönskumælandi kynblendingar (Métis) að yfirgefa fylkið og flytja vestur á bóginn. Við þetta urðu til svæði falt fyrir innflytjendur úr austur fylkjunum. Enskumælandi íbúar í Ontario (þar voru þeir í miklum meirihluta) gripu tækifærið og fluttu til Manitoba. Á árunum 1880-1900 voru sett ný innflytjendalög sem D’Alton McCarthy nokkur lét semja en sá var afskaplega mikill andstæðingur frönskumælandi og réttindum þeirra í Kanada. Bresk yfirráð í einu og öllu áttu að gilda að hans mati. Þessi lög smám saman minnkuðu mjög áhrif frönskumælandi og sérréttinda þeirra í Manitoba. Enskumælandi íbúar urðu langfjölmennastir en hlutur hinna frönskumælandi var þó stærri en annarra þjóðarbrota eins og Íslendinga, Úkraníumanna, Pólverja eða Ítala. Enskumælandi tryggðu sína stöðu rækilega á síðustu áratugum 19. aldar og drottnuðu á pólitíska sviðinu. Frönskumælandi þingmenn á fylkisþinginu nánast hurfu.

Franska á fylkisþingi 1875-1890

Ýmiss lög sett í Manitoba upp úr 1870 styrktu stöðu sveitastjórna í frönskumælandi héruðum en um miðjan áratuginn fór að halla undan fæti. Árið 1875 var samþykkt að í kjördæmum þar sem enska var ríkjandi tungumál ættu kjörgögn ekki að vera á báðum tungumálum. Ári sienna var svo lagaráð fylkisþingsins í efri deild lagt niður en það hafði staðið dyggilega vörð um réttindi minnihluta hópa. Ástæðan var sparnaður.

John Norquay sagði skilið við skinnavöruverslun um 1870, sneri sér að annars konar viðskiptum svo og stjórnmálum. Stórn hans mistókst árið 1879 að afnema notkun frönsku í prentuðu máli í opinberum gögnum en í mars, 1890 voru samþykkt lög sem gerði ensku að eina opinbera tungumálið í Manitoba. (An Act to Provide that the English Language shall be the Official Language of the Province of Manitoba).

Manitoba skólakerfi 1890-1916

Skólakerfinu í Manitoba tók talsverðum breytingum árin 1890, 1896 og 1916. Í mars, 1890, sama ár og Fylkisstjórn gerði ensku eina opinbera tungumálið í Manitoba voru tvö frumvörp gerð að lögum í þinginu. Hið fyrra var stofnun menntamálaráðuneytis í fylkinu (An Act respecting the Department of Education) en hið síðara snerist um alþýðuskóla (An Act respecting Public Schools). Margir höfðu tjáð sig um hið tvöfalda skólakerfi sem leyfði kaþólskum að kenna trúfræði í sínum frönsku skólum. Háværar raddir kröfðust þess að þessi heimild yrði felld niður vegan þess að frönsku skólarnir fóru að fá alltof mikið fjármagn frá fylkisstjórn miðað við fjölda nemenda. Sömu raddir fullyrtu máli sínu til frekari stuðnings að gæði kennslunnar í frönskum skólum væri fyrir neðan allar hellur.

Stofnun sérstaks Menntamálaráðuneytis gerði tvö fræðsluráð fylkisins, enskt og franskt nú óþörf. Lögin um alþýðuskóla breyttu kennsluskyldu þannig að trúfræði var ekki lengur kennd í alþýðuskólum í Manitoba, franska var áfram kennd en ekki kaþólsk trúfræði. Ef kaþólskir, sem flestir voru frönskuumælandi, vildu áfram trúfræðikennslu í sínum skólum þá yrðu þeir að fjármagna sína skóla sjálfir auk þess að greiða skatt í menntakerfið eins og allir íbúar fylkisins urðu að gera.

Fylkisstjórnin hélt áfram að angra kaþólska því 1894 voru sett lög sem bönnuðu sveitastjórnum að veita fjármagn til einkaskóla. Þorri kaþólskra foreldra bjó við kröp kjör og vart í stakk búin til að fjármagna einkaskóla sína. Þetta leiddi af sér lokun nokkurra kaþólskra einkaskóla sem beygðu sig undir lögin nýju og urðu alþýðuskólar. En flestir skólanna stóðust álagið og störfuðu áfram sem kaþólskir einkaskólar. Frönskumælandi kaþólikkar þótti eðlilega að sér vegið, trúfræðsla í þeirra skólum varð að baráttu um sérkenni ákveðins þjóðarbrots.

Sex ára barátta í réttarsölum og þinghúsum, stundum í Manitoba, líka í höfuðborginni Ottawa og loks í London í Englandi. Kaþólskir bentu á að tungumál og trú væru svo nátend að ekki væri hægt að skilja þau að.

Í janúar,1896, lagði ríkistjórn Kanada fram frumvarp í þinginu í Ottawa sem beindist gegn umdeildu lögunum í Manitoba. Með frumvarpinu minnkaði skaðinn nokkuð en stjórnarandstaðan barðist af krafti gegn frumvarpi þessu. Málið dróst á langinn og náði ríkisstjórnin ekki að koma frumvarpinu í geg fyrir kosningar sem fram fóru í júní sama ár. Stjórnarandstaðan (Frjálslyndi flokkurinn) sagðist í kosningabaráttunni ekki ætla að beita lögum til að leita sátta, málið mætti vel leysa eftir diplómatískum leiðum.

Þessum kafla í skóladeilunni í Manitoba lauk 16. Nóvember, 1896 með samkomulagi milli ríkisstjórnar Kanada og fylkisstjórnarinnar í Manitoba (Terms of Agreement between the Government of Canada and the Government of Manitoba for the Settlement of the School Question). Samkomulagið breytti ekki lögunum í Manitoba heldur féllst fylkisstjórnin á að leyfa trúarbragðakennslu í alþýðuskólum fylkisins í 30 mínútur að loknum lögbundnum skóladegi. Að uppfylltum vissum skilyrðum mátti ráða kaþólska kennara í alþýðuskólana og ef fjöldi nemenda í bekk voru af sama þjóðerni mátti kenna á þeirra tungumáli. (Innskot: Á sínum tíma stofnuðu íslenskir innflytjendur Nýja Ísland, utan landamæra Manitoba þar sem hugmyndin var að viðhalda íslenskri arfleifð sem vitaskuld þýddi varðveislu íslenskunnar um aldur og æfi. Landamæri Manitoba breyttust og Nýja Ísland var innlimað. Þegar lög leyfðu kennslu á íslensku í Nýja Íslandi í skólum sem tilheyrðu alþýðuskólakerfi fylkisins t.d. í Gimli þar sem yfir 90% nemenda voru af íslenskum uppruna, þá er merkilegt að skólanefnd bæjarins lagðist gegn íslenskunotkun í alþýðuskólanum!! Góð enskukunnátta var lykillinn að framtíð æskunnar í Kanada! JÞ)

Þótt samkomulagið þætti gott og blessað átti það samt ekki upp á pallborðið hjá þorra enskumælandi í Manitoba og í mars, 1916 felldi fylkisstjórnin úr gildi þau atriði er leyfðu kennslu í alþýðuskólum fylkisins á öðru tungumáli en ensku. Tvær ástæður lágu að baki þessarri ákvörðun: í fyrsta lagi hinn þungi straumur innflytjenda til Kanada alls staðar úr heiminum á síðustu áratugum 19. aldar og hins fyrsta þeirrar 20. Skólakerfið hlyti að veikjast ef leyfi gafst til kennslu á tungum hinna ólíku þjóðarbrota. Í öðru lagi væri nú komið í ljós að markmið laganna frá 1896 sem gerði ensku að fylkismáli í Manitoba væri ekki að nást með kennslu á öðrum tungumálum í alþýðuskólum en ensku.