Árdals- og Framnesbyggðir

Vesturfarar

Árdals- og Framnesbyggðir urðu til um aldamótin 1900 vestur úr Geysirbyggð meðfram Íslendingafljóti. Á árunum 1878-79 var rætt um möguleika á landnámi upp með Íslendingafljóti, lengra vestur en Geysirbyggð seinna byggðist. Leiðangursmenn fóru upp ána og sneru til baka í Fljótsbyggð með jákvæð tíðindi. Ekkert varð þó þá frekar úr landkönnun því straumur landnema um þær mundir lá suður, brott úr Nýja Íslandi. Þegar brottflutningum lauk um 1881 leið rúmt ár þar til landnemar, nýkomnir frá Íslandi tóku að nema lönd í Nýja Íslandi. Allan áratuginn fjölgaði í nýlendunni og smám saman byggðist landi í vesturátt upp með Íslendingafljóti, Geysirbyggð varð til og árið 1889 höfðu tveir landnemar farið lengra vestur, yfir landamæri Geysirbyggðar. Þetta voru bræðurnir Guðmundur og Jón Magnússynir Borgfjörð úr Borgarhreppi í Mýrasýslu. Þeir nefndu bæi sína Melstað og Hvanneyri. Þeir komu frá Íslandi árið 1888.                                                                                                                                                                       Áratugurinn leið og það var loks um sumarið 1900 að frekara landnám hófst í byggðinni. Heimskringla greindi frá því 26. júli, árið 1900 að Pétur Stefán Guðmundsson og Benedikt Benjamínsson frá Garðar í N. Dakota hefðu komið til Winnipeg og ætluðu að finna vini og vandamenn í Nýja Íslandi. Sama blað greindi svo frá því 9. ágúst að þessir menn væru komnir til baka úr Nýja Íslandi og að Pétur Stefán væri jafnvel að hugleiða landnám, honum leist bærilega á landið við Íslendingafljót vestur af Geysirbyggð. Það hljómar kannski furðulega að þeir sem næst setjast að í Árdals- og Framnesbyggðum voru frá N. Dakota, sumir þeirra höfðu sest að í Nýja Íslandi á upphafsárum landnáms í nýlendunni. Ýmislegt skýrir það t.a.m. voru jarðir þar syðra margar litlar en falt land þótti fremur lélegt og þegar stálpaðir synir frumbyggja í Nýja Íslandi vildu hefja búskap var ekki annað úrræði en að leita annað. Þá voru foreldrar orðnir rosknir og slóust því með í för. Árið 1901 hófust flutningar í hina ungu byggð frá N. Dakota en líka úr Ísafoldarbyggð þar sem Winnipegvatn hafði eytt mörgum jörðum í miklum flóðum.

Afstöðumyndin sýnir Hnausabyggð, Fljótsbyggð og Ísafoldarbyggð út við Winnipegvatn. Vestur af koma svo Geysisbyggð og Árdals- og Framnesbyggðir. Mynd Gunnhildur Skaftadóttir Frá Víðirnesi til Vindhljóma, Ms-ritgerð 2008.

Ung byggð í mótun: Áðurnefndur Pétur Stefán Guðmundsson, betur þekktur sem Stefán Guðmundsson nam land og nefndi bæ sinn Árdal. Hann sótti um að opna þar póst hús, fékk það leyfi og Ardal P.O. varð til árið 1902 og sama ár var Árdalssöfnuður stofnaður. Samkomuhús sem kallaðist Félagshúsið var byggt árið 1903 og stóð vestur af núverandi Árborg. Það var notað sem skóli, samkomuhús og þar var messað. Tvö skólahéruð voru mynduð árið 1905, sama ár og annað pósthús var opnað, Framnes P.O. Kirkja var byggð árið 1911.                                                                                                Samgöngur hlutu að vera erfiðar þrátt fyrir fljótið, hvorki vegir, troðningar né stígar lágu til ungrar byggðar. Landnemar sem leituðu þangað urðu að koma föggum sínum á vagna sem uxar oftast drógu og mjakast áfram í torfærum. Bændur sem áttu skepnur urðu að reka gripi oftast fótgangandi en sögur eru til af mönnum sem ráku sína gripi alla leið frá N. Dakota norður í byggðina, tæplega 300 km. Framtakssamir menn eins og Tryggvi Ingjaldsson komu sér upp frumstæðum tækjum til vegagerðar um byggðina. Margir telja að frumherjinn mikli, Sigtryggur Jónasson hafi átt mikinn þátt í þeirri ákvörðun að leggja járnbraut í byggðina. Hann var endurkjörinn á fylkisþing árið 1907 og árið 1910 var Árdalur nú tengdur umheiminum með járnbraut. Nafni þorpsins sem smám saman hafði myndast var nú breytt í Árborg en segja má að þar hafi smáþorp nánast á einni nóttu breyst í bæ með alls kyns verslunum, veitingasöðum, hóteli og þjónustu við íbúa.

Árdalskirkja Mynd IMLW