Árnesbyggð: Víðirnesbyggð er syðsta byggð Nýja Ísland og náði fáeina kílómetra norður af Gimli. Þar tók þá Árnesbyggð við. Árnesið er lítið nes ef svo má kalla rétt norður af svonefndri Hulduá. Landnemar komu fyrst á þetta svæði árið 1876 en leiðin þangað var af vatninu. Einn þeirra sem þangað kom þetta ár var ungur maður, Eggert Jóhannsson frá Steinsstöðum í Skagafirði. Hann varð seinna ritstjóri Heimskringlu í Winnipeg og kom mikið við sögu vesturfara á Vesturfaratímabilinu. Hann skrifaði endurminningar sínar og birti í Tímariti Þjóðræknisfélagsins. Um árið 1876 sagði hann: ,,Þótt svipur Nýja Íslands fyrir tæpri hálfri öld síðan (1876), væri í heild sinni sá sami og nú er (um 1925) þá getur enginn, sem ekki var þar á fyrstu árum, gert sér ljósan þann feikna mun, sem orðinn er. Enginn, sem ekki var þar fyrrum og tók fullan þátt í öllu frumbýlings baslinu og erfiðinu, getur til hugar komið hvílíkum örðugleikum það var bundið að ferðast spotta korn á landi, þótt ekki væri lengra farið en fjórðung úr mílu. Frá lendingunni á fjörusandinum, lá hvergi braut og enginn stígur út í óendanlegan skóginn, nema á sex mílna löngu svæði syðst í nýlendunni, frá árinu áður. En landmælinga línurnar, eru beztu vegvitarnir í skóglendinu. Þeir, sem að heiman komu, 1876, höfðu aldrei séð skógartré fyrr en í vesturferðinni, og það oftast á ferð og flugi. Nú var framtíðar heimur þeirra allur orðinn að einum skógi. Þar, sem mýrlendis-flákar lágu ekki fram að fjörusandinum, var vatnsbakkinn víða hár og brattur upp að ganga, einkum í Árnesbyggð. En hvort sem bakkinn var hár eða lágur, þá var hann víðast hvar vel varinn og bauð landnemum byrginn. Há og digur, hvítgrá espitré (poplar), stóðu afar þétt fremst fram á bakkanum. En eins og þau voru örðug viðfangs, varð vegfarendum brátt ljóst, að kjarrið og nýgræðingurinn reyndist “sjöfalt skæðari öllum hinum“, eins og Hjálmar frá Bólu kvað. Kræklótt, glerhart og ólseigt hrísið, mannhæðar hátt og meira, óx svo þétt á milli trjánna, að ekki varð “stungið niður saumnál“. Urðu þeir að gæta allrar varúðar, er brutu sér leið um þann ófagnaðar gróður, að halda heilum augum og verja andlit skrámum. Hér blasti við hinn mikli skógur Nýja Íslands, sem svo oft og mikið hafði verið talað um á ferðinni. En fæstum mun hann hafa komið fyrir sjónir í þeirri mynd, er menn höfðu gert sér um hann. Þvílíkur ógnar-munur, að litast um hér eða í sveitum heima á Ísland, og þvílíkt þó verkefni, að ryðja öllum þessum ósköpum burtu, þótt ekki væri nema af einnar dagsláttu stærð. En hingað var nú komið einmitt í því skyni, að rýma skóginum burtu, svo jörðin gæti framleitt daglegt brauð, í einni eða annari mynd. En það eitt var öllum sýnilegt, að hér skorti hvorki eldsneyti né efni til húsagerðar, sem hvorttveggja var ómetanlega mikill og góður kostur. Vatnið var að sjálfsögðu þjóðbrautin, og vatnsleiðina fóru allir, sem lögðu af stað frá Gimli til að skoða landið og festa sér reit til ábýlis. Það lætur því nærri, að frá vatnsbakkanum, upp frá lendingarstað hvers um sig, hafi landnemarnir háð sína fyrstu orustu við skóginn. Þar beittu þeir skógaröxi sinni, flestir að líkindum í fyrsta sinn, til þess að höggva hrísflækjuna, búta sundur fallin trá og fella önnur, svo að greiður gangstígur yrði frá fjörunni og upp að ákveðnu hússtæði….Sumarið var nær því á enda – september byrjaður. Rösklega varð því að vinna, því tvent varð í senn að gerast og tafarlaust: Koma upp húskofa yfir fólkið, svo lífvænlegt yrði á komandi vetri, og ná saman einu eða tveimur kýrfóðrum og koma upp fjóskofanum.“
Lýsing Eggerts sýnir ljóslega hvernig landnámið í Árnsbyggð átti sér stað. Landnemar komu á bátum upp með ströndinni frá Gimli að sínu landi, stigu á land og hófust handa. (Sjá Afstöðumynd). Þegar árið var liðið höfðu 64 landnemar sest að í byggðinni en þegar leið að árslokum ársins 1879 voru þeir nánast allir fluttir brott. Aðeins sex frumbyggjar sátu áfram sem fastast. Sumir þeirra sem fluttu brott og fóru til Winnipeg sneru nokkrum árum seinna á lönd sín og bjuggu þar svo alla tíð. Frá 1883 varð viðsnúningur og landnemar settust að í Árnesbyggð. Menna voru að koma frá Íslandi allt fram yfir aldamót og ýmist keyptu eða námu lönd í byggðinni. Sigurður Sigurbjörnsson nam land og nefndi Árnes. Þar opnaði hann pósthús byggðarinnar árið 1888 og rak Árnes P.O. í allmörg ár. Hann var þar einnig með verslun. Skólahérað var myndað árið 1889 og skóli byggður 1896. Jóhann Magnús Bjarnason var einn fyrsti kennari skólahéraðsins. Árnessöfnuður var endurreistur árið 1901 og kirkja safnaðarins byggð árið 1911. Lestrarfélagið Frón sá dagsins ljós árið 1910.