Hnausabyggð

Vesturfarar

Breiðavík: Norðan við Árnes í Nýja Íslandi myndar Winnipegvatnið nokkuð mikla vík  sem landnemar nefndu Breiðuvík. Landnámið þar hófst árið 1876 en þá settust þar að 35 íslenskar fjölskyldur. Séra Jón Bjarnason svaraði kalli frá nýlendubúum árið 1877 og kom til Nýja Íslands 8. nóvember það ár. Hann dvaldi á Gimli eina viku en fór því næsta af stað norður eftir nýlendunni, alla leið út í Mikley. Hann fundaði með fólki í sérhverri byggð og ræddi safnaðarmál. Hann messaði í Breiðuvík í húsi Einars Bjarnasonar 28. nóvember, skírði og spurði börn og ræddi safnaðarmál. Þar var svo myndaður söfnuður, Breiðavíkursöfnuður. Íbúar Breiðuvíkur, líkt og aðrir landar þeirra í Nýja Íslandi þraukuðu á jörðum sínum fyrsta árið, reyndu að hreinsa það, þurrka þar sem þurfti og reyndu veiðar í vatninu. Fljótlega eftir áramótin 1878, var ljóst að framtíðin í Nýja Íslandi við þáverandi aðstæður var ekki björt og margir hugðu á brottför. Svo fór að á árunum 1878-1881 hurfu nærri allir landnemar í Breiðuvík á brott, annað hvort til N. Dakota, Argylebyggðar í suður Manitoba eða til Winnipeg.

Hnausabyggð: Upp úr 1880 þegar lestarferðir úr Austur-Kanada vestur á bóginn og sléttan tók að byggjast þá þyngdist straumur innflytjenda til Winnipeg. Íslenskir landnemar komu til Quebec og fóru þaðan áfram til Toronto og svo Winnipeg. Þeir og allmargir þeirra sem yfirgáfu Nýja Ísland á árunum 1878-1881 fóru til Nýja Íslands og uppbygging í byggðunum öllum hófst. Breiðavík var engin undantekning, þangað sneru sumir aftur á sínar jarðir og nýliðar af Íslandi bættust í hópinn. Einn þeirra var séra Magnús J. Skaptason prestur frá Hnausum í Húnavatnssýslu. Hann flutti vestur um haf árið 1887, settist að í Breiðuvík og nefndi bæ sinn Hnausa. Hann sótti um leyfi fyrir pósthúsi, fékk það og Hnausa P.O. varð til. Framvegis hefur byggðin heitið Hnausabyggð.

Félagsskapur:  Kvenfélag var stofnað í Hnausabyggð árið 1887. Fyrsti fundur félagsins var haldinn í mars það ár en þær sem komu að stofnun félagsins voru Guðbjörg Marteinsdóttir, kona Magnúsar Jónssonar, Arnfríður Jónsdóttir, kona Baldvins Jónssonar, Guðrún Jónsdóttir, kona Marteins Jónssonar, Sigríður Jónsdóttir, kona Sigursteins Halldórssonar og Guðfinna Eiríksdóttir sem seinna varð eiginkona Gunnsteins Eyjólfssonar. Sama ár var stofnað lestrarfélag og var það kallað Norðurljós. Fyrsti bókavörður var Sigurbjörn Jónsson. Samkomuhús var byggt árið 1886 sem var líka skólahús byggðarinnar í mörg ár. Breiðavíkursöfnuður var endurreistur árið 1887 og var Magnús Jónasson hvatamaður þess. Kirkja var byggð og vígð árið 1906. Sennilega var mesta batamerki byggðarinnar bryggjan sem fullgerð sá dagsins ljós 12. apríl, 1896.

Verslun og viðskipti: Bræðurnir Stefán 11 ára og Jóhannes 7 ára Sigurðssynir voru ekki gamlir þegar þeir fóru vestur með foreldrum sínum árið 1876  og settust að í Mikley. Þar hét Skógar. Þeir unnu með föður sínum að uppbyggingu á landinu og uxu þar úr grasi. Mikley varð  áningarstaður fiskimanna sem leituðu norður á Winnipegvatn og opnuðu þar fjölmargar  fiskistöðvar. Fiskur úr Winnipegvatni varð vinsæll um gervalla álfuna, tengsl milli Winnipeg, Chicago og New York urðu til. Bræðurnir gripu tækifærið, stofnuðu fyrirtækið Sigurdson Brothers, Merchants and Fish Dealers í Bræðrahöfn á Hnausum um 1890. Verslun þeirra þar blómstraði, einkum eftir að bryggjan sá dagsins ljós árið 1895 en hún var byggð út frá versluninni. Þeir voru ekki hættir því 1897 höfðu þeir eignast eigið skip, ,,Lady of the Lake“ sem var í senn bæði farþegaskip og flutningaskip. Eitt fyrsta verkefnið var einmitt að flytja 30 Íslendinga frá N. Dakota til Nýja Íslands. Þeir stigu um borð í Winnipeg og sigldu til Hnausa til móts við ættingja og vini. Fiskiflutningar frá Nýja Íslandi á markað í Selkirk eða Winnipeg varð daglegt brauð.

Hús Stefáns Sigurðssonar og verslunin. Mynd HILW