Ísafoldarbyggð

Vesturfarar

ÍSAFOLDARBYGGÐ:

Ísafoldarbyggð er norður af Fljótsbyggð, að mestu á vesturbakka Winnipegvatns norður að þar sem kallaðist Hay Point eða Heytangi. Það sem laðaði frumbyggja að svæðinu voru grasmiklar engjar og þykkur skógur þar sem land reis nægilega hátt svo flóð í vatninu náði þar ekki til. Helsti löstur voru hins vegar mýrar og fen sem gerði alla flutninga á landi nærri ómögulega. Sagt er að Pétur Bjarnason hafi átt hugmyndina að nafninu þegar hann nam hér land árið 1892 og er hún þannig tilkomin að þegar flóð áttu sér stað á haustin frusu engjar, þunnur ís lagðist þar yfir í fyrstu frostum. Pétur fékk leyfi fyrir pósthúsi í sínu húsi og var það nefnt Ísafold P.O. Svæðið norður af Íslendingafljóti stóð utan við land það sem Kanadastjórn veitti Íslendingum sem sérsvæði fyrir Nýja Ísland árið 1875. Þegar Sigtryggur Jónasson og landkönnunarnefndin kom að ósum Íslendingafljóts í júlí það ár er áreiðanlegt að þetta svæði hafi vakið athygli þeirra vegna grösugra engjanna hvert sem litið var ekki síður en graslendið upp með ánni.  Þrátt fyrir það leitaði enginn inn á þetta svæði á árunum slæmu 1875-1880, það var ekki fyrr en 1882 að Jón Bjarnason, landnemi í Mikley  settist þar að það ár en þá ól kona hans, Halldóra Guðmundsdóttir honum soninn Berg 1. nóvember. Ekki tókst Jóni að koma almennilega undir sig fótunum á svæðinu, hann er skráður íbúi við Sandy Bar í Fljótsbyggð í ársbyrjun 1885. Ýmislegt olli því að upp úr miðjum áratugnum fer fólk að leita inn á svæðið einkum vegna mikilla flutninga til Nýja Íslands bæði frá Winnipeg og ekki síður Íslandi en stórir hópar fóru þaðan vestur um haf árin 1886-1888.  Daglegt líf landnema í Ísafoldarbyggð mótaðist fyrst og fremst af staðháttum, annars vegar engjanna og skóganna og hins vegar Winnipegvatns.  Búskapur einkenndist af griparækt, menn voru með nautgripi, mjólkurkýr, sauðfé og hænsn. Nánast engin tilraun var gerð með kornrækt, landið bauð einfaldlega ekki upp á slíkt. Það sem hreinsað var nýttu bændur sem matjurtagarða.

Kortið sýnir Ísafoldarbyggð norður af Fljótsbyggð. Byggðin er aðskilin frá Mikleyjarbyggð þar sem heitir Grassy Narrows. Þarna hefur eyjan verið tengd meginlandinu með landfyllingu.

Landnemar áttu rétt á 160 ekrum og létu flestir það duga, lítið var um að bændur reyndu að stækka við sig. Hér gátu menn framleitt í sig og sína en það sem umfram var reyndu bændur að nota til að afla annarra nauðsynja, tæki ýmis konar og tól, fiskinet o.fl. Fiskveiðar í Winnipegvatni var mikil búbót en á þessum árum var það fullt af fiski. Til marks um það má benda á margar sögur af fengsælum fiskimönnum sem fengu iðulega fisk á sérhvern öngul en algengt var að á hverri línu væru 50 krókar! Mest veittu menn hvítfisk, pikk (pickerel) eða geddu. Var fiskur saltaður, þurrkaður eða reyktur á sumrin en frystur á veturna. Þeir sem áttu heimangengt réðu sig á fiskibát á sumrin og á veiðar gegnum ís á veturna en útgerð var að festa sig í sessi frá ýmsum höfnum við vatnið. Flestir landnemar áttu lítinn seglbát bæði til flutninga og fiskveiða.

Enginn landnámsmaður auðgaðist í Ísafoldarbyggð í sama mæli og ýmsir landar þeirra á sléttunni í Suður Manitoba og N. Dakota. Flestir komust þó bærilega af miðað við hvað þótti eðlilegt í Nýja Íslandi þessa tíma. Heimili voru traustir bjálkakofar gerðir úr völdum trjábolum sem límdir voru saman með lime mortar. Þau voru hituð með besta fáanlega eldivið  úr nærliggjandi skógum og þótt reiðufé væri iðulega af skornum skammti, þá var alltaf nægur matur á heimilunum, munaður sem sumir höfðu ekki kynnst fyrr, meira að segja líka í heimahögum á Íslandi. Brunnar voru víða grafnir  og nægilegt, kristaltært vatn var nánast við sérhvert heimili og þótt skógur torveldaði ferðir manna víða þá bætti hann það upp með mörgum kostum. Þar var iðulega einhver veiðidýr að hafa og margs konar ber uxu um allt.

Alls kyns erfiðleikar biðu landnámsmanna í nýju landnámi einkum þeirra sem nýkomnir voru til Vesturheims. Það var átak að koma undir sig fótunum í óbyggðum, einangrunin og fjarlægðir frá mörkuðum stundum óbærileg. Ísafoldarbyggð var engin undantekning, kannski erfiðari en margar aðrar byggðir því mýrarnar og fenin gerðu alla aðdrætti, flutninga á markað svo og félagslíf margfalt erfiðara. Markaðir í Nýja Íslandi ef svo mátti kalla voru yfirleitt óhagstæðir þegar best lét einfaldlega vegna þess að allir voru að framleiða það sama. Langt var á markað í Selkirk og Winnipeg og þess vegna skorti iðulega ýmsar nauðsynjar á hverju heimili, nauðsynjar sem ekki var kostur á að framleiða heima.