Víðirbyggð myndaðist á svæði norður af Árdals- og Framnesbyggðum í byrjun 20. aldar. Önnur byggð, Sandhæðabyggð myndaðist svo vestar þar sem heitir Sylvan. Nýja Íslandi var skipt í fjórar byggðir snemma á landnámstímanum, syðst var Víðirnesbyggð, þá Árnesbyggð, Fljótsbyggð og loks Mikleyjarbyggð nyrst og austast. Seinna bættust við Hnausabyggð, sem var innan landamerkja Nýja Íslands en Ísafoldarbyggð, Geysirbyggð, Árdals- og Framnesbyggðir og Víðir- og Sandæðabyggðir voru utan upprunalegu landamerkja nýlendunnar.
Nýtt landnám: Þegar 19. öldin leið hafði mikil fjölgun átt sér stað í íslensku byggðinni við vestanvert Winnipegvatn og upp með Íslendingafljóti. Landnemar streymdu á þetta svæði úr öðrum byggðum íslenskum í álfunni og eins að heiman. Margir landnemanna í nýju byggðinni norður af Árborg voru synir frumbyggja, ýmist fæddir vestra eða á Íslandi. Um aldamótin voru þetta orðnis fullorðnir menn sem leituðu staða þar sem þeir gátu numið land og hafið búskap. Einn slíkur var Jón Sigurðsson sem fór vestur 11 ára gamall með foreldrum sínum, Sigurði Björnssyni og Guðfinnu Oddsdóttur. Fjölskyldan settist að í Hnausabyggð á landi sem kallað var Ekra. Þar óx Jón úr grasi og lærði til verka. Hann leitaði vestur á bóginn, kvæntur maður og tveggja barna faðir árið 1905 og telst með fyrstu landnemum byggðarinnar. Fyrst nefndi hann bæ sinn Aðalból eftir Aðalbóli í Hrafnkelsdal í N. Múlasýslu en þegar hann ákvað að sækja um pósthús varð honum ljóst að Aðalból hentaði illa sem nafn á pósthúsi. Hann ákvað þá að kalla bæ sinn Víði og 1906 fékk hann leyfi til að reka pósthús sem var nefnt Vidir P.O. Var það í nýrri viðbyggingu íbúðarhússins. Víðir er einkennandi trjátegund á svæðinu.
Samkomuhús, skóli, söfnuður og kirkjugarður: Líkt og í öðrum, íslenskum byggðum varð pósthúsið í Víðir fljótlega eins konar samkomuhús því margir komu þar saman á sama tíma til að huga að pósti. Rædd voru ýmiss mál er vörðuðu unga byggð svo sem safnaðarmál og skóli. Fundur um skólamálið var haldið á heimili Jóns 25. júní, 1908 og var Jón einn þeirra sem kosnir voru í skólanefnd það ár. Sat Jón í þeirri nefnd samfleytt í 27 ár.Víðir skólinn tók til starfa í september, 1909. Heimili Jóns var um árabil fundarstaður, leikhús og kirkja en umræða um byggingu samkomuhúss hófst og árið 1914 var það formlega tekið í notkun. Það stóð á landi Jóns. Sama ár var svo söfnuður myndaður í byggðinni og skömmu seinna gaf Jón land undir kirkjugarð.