Víðirnesbyggð

Vesturfarar

Kortið sýnir hvernig Víðirnes skagar út í vatnið og Gimli þar norður af. Þá sjást landamæri Nýja Íslands og Manitoba fyrir 1881. Syðst er Winnipeg Beach en þangað var lögð járnbraut árið 1902 og hún síðan framlengd norður til Gimli árið 1906.

Víðirnesbyggð er syðsta byggðin í Nýja Íslandi. Hún er kennd við tanga sem skagar út í vatnið og þar stigu fyrstu landnemar Nýja Íslands á land árið 1875. Höfuðstaður Nýja Íslands, Gimli, reis í byggðinni og voru fyrstu húsin þar byggð sama ár þá um haustið. Ári seinna kom stór hópur frá Íslandi og dreifðust landnemar nú um byggðina og norður eftir ströndinni. Landið við vatnið er erfitt, sendið, blautt og skógivaxið. Víðirnesið er lágvaxið, yst á því er í dag nokkuð þétt sumarhúsabyggð en ekki námu menn þar lönd á 19. öld.  Fjær vatninu glímdu bændur við landbúnað, voru með skepnur og reyndu akuryrku. Hér líkt og í öðrum byggðum Nýja Íslands voru upphafsárin mörgum erfið. Engar kýr voru til staðar þegar fyrsti hópurinn settist að árið 1875 og um veturinn dóu allmargir úr skyrbjúg. Enga atvinnu var að fá og því leituðu karlmenn úr byggðinni fyrsta vorið og fengu vinnu í Winnipeg eða hjá bændum nærri borginni. Framfarir voru því litlar sem engar. Baslið í byggðinni hélt áfram, haustið 1876 kom upp bólusótt sem breiddist hratt yfir nýlenduna og allmargir dóu. Um áramótin 1877-78 var ljóst að þorri íbúa Nýja Íslands var að gefast upp og vildi annað. Snemma vors fór fólk að flytja brott og leita betri staða, sumir fóru til N. Dakota, aðrir í Argylebyggð í suður Manitoba eða til Winnipeg. Um 1881 voru flestir á brott, Gimli líktist helst draugabæ. Rétt að benda á að eftir fáein ár sneru þónokkrir til baka og settust sumir aftur á lönd sín.

Betri tímar: Það var engu líkara en Nýja Ísland þurfti fáin ár til að hvíla sig, safna kröftum því þegar viðsnúningur varð og innflytjendur frá Íslandi fóru í nýlenduna upp úr 1883 fóru hjól að snúast. Hagur bænda í byggðinni fór batnandi, samgöngur allar sömuleiðis og tækifæri alls kyns buðust. Menn áttuðu sig á því að þeir voru hluti af nýrri þjóð í mótun og framlag þeirra til þess skipti máli. Umræður um að verða hluti Manitoba voru líflegar og þótt allir heimilisfeður væru ekki fylgjandi sameiningu þá var það samþykkt árið 1887 og ári síðar lagðist kennsla af í íslenskum einkaskólum og tók við kennsla í almenningsskólum í menntakerfi Manitoba. Skólahérað var stofnað í Víðirnesbyggð árið 1889 og nefnt Gimli-skólahérað. Kennslan fór fram á Gimli fyrri hluta vetrar en í suðurhluta byggðarinnar seinni partinn. Skólanefnd hélt fund 9. nóvember, 1891 og var Benedikt Arason í Kjalvík kjörinn formaður nefndarinnar. Þá var nafni héraðsins breitt og kallaðis nú Kjarna-skólahérað Í nefndina voru kjörnir Sveinn Kristjánsson í Framnesi, Valdimar Þorsteinsson í Hvammi og Jósef Sigurðsson á Melstað. Fyrstu tíu árin eftir myndun nýs skólahéraðs var kennt í bjálkahúsi sem stoð sunnan við Víðirá (Sjá kort) en húsið var upphaflega byggt til að messa í því árið 1879. Árið 1901 var skólahús byggt á Húsavíkurlandi.