Pine Valley byggð

Vesturfarar

Sigurður Jónas Magnússon fór vestur til Winnipeg í Manitoba árið 1888 og settist að í suðausturhluta Manitoba, nærri bandarísku landamærunum. Þar hét Pine Valley og nefndu Íslendingar þar byggð sína Pine Valley Byggð. Árið 1934 birtist grein eftir Sigurð um byggðina og helstu landnámsmenn í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar. Þar segir Sigurður: ,,Landsvæði það sem nefnt var Pine Valley bygð, liggur meðfram merkjalínu Canada og Bandaríkja, og nær frá vestri til austurs yfir nærfelt 6 mílur, eða meirihluta Range 11 og 12, og nálægt 9 mílum norður. Er svæði þetta umgirt sandhryggjum á þrjá vegu, austan, norðan og vestan; voru þéttar raðir af háum og gildum trjám, af fjölda tegundum, með flóa flákum á milli. Mátti þar sjá margt af viltum dýrum sveima um skógana. Nokkur halli er frá hryggjum þessum niður á láglendið, sem er grunnur dalur, fremur votlendur; liggur hann frá suðri til norðurs og fellur lækur meðfram austurjaðri hans og suður í Roseau-ána sunnan landamæranna. Dalur þessi er lítið öldumyndaður, með skógarbeltum og flóaspildum á milli, víða nothæfum fyrir engjaland.

Íslenskt landnám: Tildrögin fyrstu, er lágu til þess að

Erlendur Jónsson Mynd Almanak 1934

Íslendingar réðust til bólfestu hér í bygð, munu að miklu leyti hafa stafað af skógareldi miklum haustið 1897 er geysaði yfir norðurhluta Roseau bygðar, þar sem nokkrir Íslendingar höfðu verið sestir að. Æddi eldurinn norður yfir landamærin; brann þar spilda allstór og myndaði þannig opnu nokkra fyrir útsýni og umferð, en jörðin eftir svört af brunaösku. Bruni þessi mun hafa spurst víðsvegar, jafnvel til Dakota, því haustið 1898 komu þaðan bræður tveir: Þóroddur og Þórviður Magnússynir Halldórssonar til landskoðunar. Hittu þeir hér fyrir félaga tvo: Erlend Jónsson og Pál Eyjólfsson, unga einhleypa og framgjarna menn; höfðu þeir bygt bjálkakofa og sest þar að árið áður. Eru þeir fyrstu landnámsmenn þessarar bygðar af íslensku fólki. Þegar Íslendingar hófu innflutning í Pine Valley bygð, var land alt þar ómælt og því erfitt að ætla á legu lands þess er menn settust á, en ekki leið á löngu áður landmæling var hafin. Kom þá í ljós að að örfáir þurftu að færa sig úr stað. Var þá ilt yfirferðar, brunaskógur, kjarr og foræðis flóar, flugnavargur óþolandi mönnum og skepnum, er hélzt frá vori til hausts. “  Erlendur og Jóhannes Páll Eyjólfsson, frumbyggjar í byggðinni áttu margt sameiginlegt. Báðir virtust þeir hafa komið ár sinni vel fyrir borð á Íslandi, Erlendur var formaður fyrir ýmsa útvegsbændur og Jóhannes Páll var lærður gullsmiður. Hann fór til Kaupmannahafnar og ætlaði sér meira nám í gullsmíði en fór í staðinn þaðan vestur til Manitoba árið 1886. Erlendur tók skyndiákvörðun á Seyðisfirði og sigldi vestur til Kanada árið 1892. Báðir reyndu þeir ýmislegt næstu árin vestra en leiðir þeirra lágu saman í N. Dakota og haustið 1897 fluttu þeir austur í Pine Valley í Manitoba þar sem þeir byggðu lítinn bjálkakofa rétt norðan landamæranna. Heldur leit landið illa út eftir skógareldana en þarna dvöldu þeir, nánast allslausir yfir veturinn en þegar voraði fóru þeir suður yfir landamærin í vinnu hjá bændum í Minnesota. Þeir sneru aftur í kofann sinn í Manitoba um haustið og nú mun betur vistaðir en árið áður. Hagur þeirra vænkaðist smám saman og áður en öldin var liðin hafði Erlendur reist allgott bjálkahús á landareign sinni. Hann var því reiðbúinn til að taka á móti móður sinni, ekkjunni Guðnýju Ívarsdóttur árið 1900. Dvöl hennar þar var stutt, hún andaðist þarna í byggðinni ári síðar. Erlendur flutti brott úr byggðinni árið 1904 og var sestur að í Los Angeles árið 1922. Jóhannes Páll bjó í byggðinni til ársins 1905, flutti það ár vestur að Kyrrahafi með konu og börn og settist að í Washingtonríki.

Skólinn í Pine Valley byggð. Mynd MHS

Gamla skrifstofa sveitarstjórnar var eitt sinn vinnustaður íslenskra landnema og íbúa. Mynd MHS

Byggðin braggast – Pósthús:  Pétur Pálmason hafði farið vestur um haf árið 1875 með foreldrum sínum sem settust að í Nýja Íslandi. Þaðan lá leið þeirra til N. Dakota þar sem Pétur óx úr grasi. Hann keypti land þar í einni byggðinni og bjó þar fáein ár. Flutti þaðan í Roseau-byggð í Minnesota þar sem hann var einhver ár en þaðan fór hann norður yfir landamærin í Pine Valley-byggð. Nam strax land, reisti hús og hóf búskap. Fáeinir landar hans bjuggu þar nærri á sínum löndum og brátt sá Pétur að þörf væri fyrir pósthús. Hann sótti um leyfi til að opna slíkt á sínu landi og var það samþykkt. Var pósthúsið hans nefnt Pine Valley pósthús. Landnemarnir flestir voru efnalitlir, sumir áttu hvorki hesta né uxa, hvað þá kýr en þeir voru ungir og þekktu til verka enda ýmist fæddir vestra eða höfðu alist þar upp í einhverri íslenskri byggð.  Árið 1903 reis skóli og kennsla hófst, myndaður var söfnuður sem tilheyrði íslenska kirkjufélaginu og fengust íslenskir prestar til að koma í byggðina til að messa, skíra, ferma og gefa saman hjón. Árið 1906 tengist byggðin lestarkerfinu í suður Manitoba og brátt sá lítið þorp dagsins ljós, Piney. Var nafni byggðarinnar breytt í samræmi við það og hét framvegis Piney-byggð. Á þessum árum voru Íslendingar atkvæðamiklir í öllum framfaramálum, höfðu rúman meirihluta í sveitarstjórn árum saman, keyptu land undir grafreit, sáu til þess að sérhver bær komst í símasamband, settu upp markaðsvog í þorpinu, opnuðu þar verslandir og ýmsa þjónustu.