Suður-Cypressbyggð

Vesturfarar

LANDNÁMIÐ

Kortið sýnir Manitoba fylki. Rauði ferningurinn sýnir núverandi Glenboro – Suður Cypress hérað sem var myndað árið 2015. Winnipeg er merkt með svörtu.

Suður – Cypressbyggð var í suðvesturhluta Manitoba. Frá austurmörkum byggðarinnar voru 152 km til Winnipeg en frá landamærum Kanada og Bandaríkjanna að suðurmörkum byggðarinnar tæpir 60 km. Frá austurmörkum til vesturmarka voru 38 km og frá norðri til suðurs voru 29 km. Sunnanvert var afar frjósamt akuryrkjusvæði en í norðri var landið nánast allt óbyggilegt beggja megin Assiniboine árinnar sem hlykkjast úr vestri í austur um byggðina endilanga. Segja má að áin renni um grunnan dal þar sem land fjær og hærra er frjósamt. Upp frá dal þessum taka svo við sandhólar víðast grasi- og skógivaxnir.   Byggðin skiptist í tvær smærri og er önnur svokölluð Hólabyggð en hin Glenborobyggð.

Landnám í Hólabyggð hófst árið 1889 og því lauk árið 1894. Þessi byggð óx í raun út frá Argylebyggð sem þá var albyggð. Þegar land allt hafði verið numið voru þar 26 heimili og hefur hún aldrei síðan verið eins fjölmenn.

Broadway Ave í Glenboro snemma á 20.öld. Mynd Prairie-Towns

GLENBORO:

Glenboro var valinn staður vegna járnbrautarinnar sem fór þar um suður hluta Manitoba og var lögð þarna árið 1886. Byggðin íslenska er jafngömul því fyrsti landnámsmaðurinn í þorpinu, Friðjón Friðriksson, kom einmitt með fyrstu lestinni. Bærinn hefur alla tíð verið snyrtilegur og vel hirtur. Hann stendur á sléttunni nærri suðurmörkum sveitarinnar. Í suðaustri sér til ,,Tígríshæða“ (Tiger Hills) en fyyrir norðan eru sanhólar meðfram Assiniboine ánni sem rennur þar í austur í Rauðá í Winnipeg. Glenboro er um fimm km. frá ánni. Íbúabjöldi hefur aldrei verið mikill, hann var mestur um 500 árið 1836 og þar af voru 200 Íslendingar. Bærinn varð snemma einn aðal verslunarstaður Íslendinga í Hóla – og Argylebyggðum en íbúar í Argylebyggðinni leituðu fljótlega til Cypress River og Baldurs. Árið 2015 varð þorpið innlimað í Suður – Cypressbyggð og heitir nýtt nú Glenboro – South Cypress hérað.

Verslun og stjórnsýsla:

Íslendingar tóku frá upphafi mikinn þátt í viðskiptalífi bæjarins. Friðjón Friðriksson reið á vaðið fljótlega eftir að hann kom í þorpið og opnaði verslun. Stóð hún í miklum blóma í um 20 ár undir hans stjórn. Aðrir Íslendingar tóku síðan við rekstri og hét hún upp frá því Sigmar Bros. & Co. Þessi verslun var stór og alhliða en fjölmargar minni ráku Íslendingar og voru þær sérhæfðari t.d. bakarí, skóverslun, járnvöruverslun og þess háttar. Íslendingar hafa löngum átt s´na fulltrúa í sveitarstjórn, bæjarstjórn og skólaráði. Þá var bæjarblaðið lengi í höndum Íslendinga og Íslendingar hafa verið ritarar réttarins og friðardómarar.

Söfnuður og félagsskapur Íslendinga:

Varðveisla íslenskrar arfleifðar var strax mikið kappsmál og var lestrarfélagi nánast strax stofnað. Það var fljótlega öflugt og starfaði lengi með miklum ágætum. Kirkjumál voru fljótlega á baugi en slíkt var alltaf í höndum landnemanna sjálfra. Prestar annars staðar að heimsóttu íbúa byggðarinnar að jafnaði einu sinni í mánði og kom séra Friðrik Hallgrímsson mikið við sögu. Glenboro sðfnuður var loks formlega stofnaður árið 1919 og efldi það mjög alla félagsstarfsemi Íslendinga. Árið 1925 réðst söfnuðurinn í byggingu safnaðarhúss sem jafnframt var heimili sóknarprestsins sem þjónaði líka Argylebyggð. Kvenfélag var fljótlega stofnað og framan af landnámsárum annar sterkasti þáttur í félagslífinu. Félagið leið undir lok eftir aldamótin en annað var svo stofnað 29. apríl, 1914.