Melankton söfnuður: Á fyrstu árum landnámsins komu landnemarnir saman á heimilum í byggðinni á sunnudögum og hátíðisdögum til að heyra guðsorð. Var lesið úr biblíunni og íslenskum guðsorðabókum og sálmar sungnir. Byggðin óx og að því kom að ekkert heimili dugði lengur til samkomuhalds. Nú var ljóst að þörf var á myndun safnaðar og byggingu samkomuhúss. Jón Filippusson úr Skagafirði bauðst til að fara austur í Pembina sýslu og ræða við séra Jónas Sigurðsson. Hann heimsótti byggðina í júlí, 1897, messaði í skólanum og að guðþjónustu lokinni var boðaður almennur fundur. Að honum loknum var nýr söfnuður myndaður og kaus séra Jónas nafnið Melankton á söfnuðinn. Einar Westford gaf land undir byggingu samkomuhúss sem venjulega kallaðist Félagshús-Icelandic Hall. Var bygging þessi notuð undir hvers kyns samkomur í byggðinni í allmörg ár. Kvenfélagið keypti orgel og gaf til hússins með þeim skilmálum að söfnuðurinn réði organista og annaðist greiðslur til hans. Byggðin óx jafnt og þétt og um leið þörfin fyrir kirkju. Upham þorpið var álitlegur staður og áhugi var mikill á byggingu kirkju þar. Sérstök nefnd var sett saman sem kanna átti möguleika á skika í þorpinu og kostnað við bygginguna. Allt byggðist á góðri uppskeru, á henni byggðust tekjurnar og um og eftir 1910 komu góðæri og líkur á nýrri kirkju voru góðar. En óhagstæð ár í upphafi fyrri heimstyrjaldar svo og hækkandi kosnaður á byggingarefni í kjölfar stríðsins varð til þess að öllum áformum var frestað um hríð. Árið 1921 var ný nefnd sett saman og henni sett að kanna möguleika á kaupum á kirkju meþódista í Upham og eftir nokkurra ára samningaviðræður var gengið frá kaupum 29. október, 1924.