Norður Dakota Nýlendan

Vesturfarar

Þegar rætt er um íslensku nýlenduna í Norður Dakota er venjulega átt við svæðið í Pembina sýslu þar sem meirihluti byggðarinnar er í vestasta hluta Rauðárdals austan við svonefnd Pembinafjöll. Norðurtakmörkin lágu að hrjóstrugum sandhólum en að sunnan voru mörkin við norðurkvísl Parkárinnar.  Austurjaðar nýlendunnar var skógi vaxinn.

Mountain: Byggðin sem myndaðist þar sem nú er þorpið Mountain hét upphaflega Víkurbyggð og er skýrin á nafninu sú að landið hækkar þar nokkuð og sker sléttan sig í boga inn í hæð þessa. Á vorin, þegar snjó leysti og gerði miklar rigningar, fylltist svæði þetta af vatni og minnti landnámsmennina á íslenska vík. Á hæðinni stendur Víkurkirkja. Árið 1881 var pósthús opnað á hæðinni og hét það Mountain. Víkursöfnuður var myndaður árið 1880 og kirkja reist árið 1884.

Thingvallabyggð: Byggðin sem myndaðist á milli Mountain og Garðar var nefnd Eyford og kenndi við Jakob Sigurðsson frá Kristnesi í Eyjafirði. Hann tók nafnið Eyfjörð vestra og tók að sér póstafgreiðslu í byggðinni. Thingvallabyggð eða bara Thingvalla varð síðan nafnið á sveitinni allri milli Mountain og Garðar, Víkurbyggð og Eyfordbyggð runnu saman í eina byggð. Þorlákur Gunnar Jónsson og synir hans voru fyrstir til að nema lönd á hæðinni og og er nafnið Víkurbyggð frá þeim komið árið 1879. Þeir voru fyrstir til að selja lönd sín í íslensku byggðinni í Shawanosýslu í Wisconsin og flytja þaðan vestur til N. Dakota.

Garðarbyggð: Stephan G Stephansson flutti til N. Dakota árið 1880 og  nam land í svokallaðri Parkbyggð ásamt fleirum sem komu frá Wisconsin.  Það bættist í hóp landnama víðs vegar að og svo kom að ástæða þótti til að kalla landnema saman á fund til að ræða framtíðarmál nýju byggðarinnar svo sem póstmál.  Fundur var boðaður snemma árs árið 1882 í húsi Eríks Hjálmarssonar (sem tók nafnið Bergmann) það þótti best í sveit sett fyrir þess háttar viðburð þar sem það var nokkurn veginn miðsvæðis í byggðinni. Eiríkur var kjörinn fundarstjóri en Stephan G. tók að sér að vera ritari. Þegar póstmálin komust á dagskrá og þeirri hugmynd varpað fram að opnað yrði pósthús í byggðinni urðu umræður fjörugar og svo fór að tillaga um málið var samþykkt samhljóða.  Þá voru fundarmenn beðnir að koma með tillögu að nafni og þá varð fátt um svör. Stephan vildi umfram allt fá íslenskt nafn,vildi að öllum yrði ljóst í framtíðinni að þarna hefði verið íslensk byggð, að fyrstu landnemarnir hefðu verið íslenskir. Hann kvaðst vera með nafn Garðars Svavarssonar í huga, þótti honum heldur lítill sómi sýndur á Íslandi. Nafnið væri stutt og afbakaðist engin ósköp í munni enskumælandi sem trúlega breyttu ð í d. Forseti fundarins stakk þá upp á Geysir og Ólafur Ólafsson frá Espihóli stakk upp á Bergmann en benti Stephan þá á að bannað væri að nafn pósthúss og póstmeistara væri sama. Það var nefnilega búið að samþykkja að á heimili Eiríks Bergmanns yrði póstafgreiðslan. Var þá fundur beðinn að greiða atkvæði en mjótt reyndist á munum og sýndist fundarstjóra niðurstaðan óljós. Var þá samþykkt að að rita nöfn á sinn hvorn snepilinn. Ritari annaðist verkið og setti miðana í hatt eins fundargesta. Þá tók fundarstjóri að sér að draga blindandi annan miðann og gerði svo, þar á stóð Garðar. Fyrsti söfnuður íslenskur var myndaður í Garðar árið 1880. Árið 1885 var svo annar söfnuður myndaður.

Hallsonbyggð: Tungúá rennur austur nokkuð norðarlega í nýlendunni og á bkkum hennar myndaðist snemma byggð. Í fyrstu var hún kölluð Tunguárbyggð og þar var árið 1881 sett pósthús sem kallaðist Coulee pósthús. Árið 1883 var það lagt niður en annað sett á land Jóhanns P Hallssonar og það kallað Hallson. Upp frá því hættu menn að tala um Tunguárbyggð og fékk sveitin þá nafnið Hallson eða Hallsonbyggð. Söfnuður var myndaður snemma árs 1881 og hét Tunguársöfnuður. Hann klofnaði árið 1886 í Hallsonsöfnuð og Vídalínsöfnuð

Fjallabyggð var á svæðinu frá Olga í norðri suður að Montrose, vestur af Gardar.

Fjallabyggð: Fyrir vestan Hallson á svonefndum Pembinafjöllum námu Íslendingar lönd upp úr 1881. Byggð þessi var fljótlega kennd við fjöllin og kölluð Fjallabyggð. Margir fóru þangað á næstu árum og óx byggðin nokkuð í suður til aldamóta all að Montrose. Eitthvað á annað hundrað manns voru í byggðinni þegar mest var og árið 1884 var myndaður söfnuður og kirkja byggð árið 1894. Lestrarfélag var stofnað árið 1889 og kvenfélag árið 1892. Lengi vel var engin byggð vestan og sunnan við byggðina en í kringum aldamótin settust íslendingar að  í grennd við bæinn Munich í hreppunum Gordon og Henderson.

Svold: Sveitin austur af Fjallabyggð og norðan við Hallson hét Svold af því að pósthúsið sem þar var reist var kallað Svold.

Sandhæðabyggð: Svæðið miðja vegu milli Hallson og Mountain var á einum stað nokkuð öldótt, mátti jafnvel kalla öldurnar hæðir en þar var land sendið. Af því var sveitin sem þarna myndaðist kölluð Sandhæðabyggð. Norðaustarlega í þessari sveit var landnám Stígs Þorvaldssonar frá Kelduskógum í Berufirði og þar var sett pósthús nokkuð snemma á landnámstímanum sem kallaðist Akra og fékk þá nánasta umhverfið það nafn.

Grafton: Árið 1880 settust fáeinir Íslendingar að í sveit austur af bænum Grafton. Þá var þar enginn bær, þar sem hann er í dag stóð aðeins eitt bjálkahús. Þeir sem fyrst settust að á umræddu svæði voru Aðalmundur Guðmundsson, bræðurnir, Ólafur og Aðaljón Guðmundssynir og Jón, Benjamín og Stefán Sigurðssynir. Á landnámstíðinni fjölgaði í sveitum umhverfis Grafton og smám saman varð til þorp. Allmargar, íslenskar fjölskyldur kusu að setjast að í þorpinu sem leiddi til þess að þar var myndaður söfnuður og kirkja reist. Félagslíf Íslendinga var fjörugt og sóttu í það bændur úr nærliggjandi byggðum. Þegar árin liðu fór Íslendingum fækkandi, margir leituðu út í sveitir aðrir fluttu brott úr ríkinu.

Glasston: Rúmlega 30 km austur af Mountain er Glasston, lítill bær sem myndaðist við járnbrautarstöð árið 1886. Örfáir Íslendingar námu land í nærliggjandi sveitum og sóttu þjónustu í þorpið.

Kirkjur og söfnuðir: Íslendingar höfðu ekki verið lengi í Vesturheimi þegar þeim var ljóst að hvorki í Bandaríkjunum né Kanada voru þjóðkirkjur líkt og heima á Íslandi. Vestanhafs urðu þeir að taka trúmálin í eigin hendur, mynda söfnuði, reisa kirkjur og ráða prest. Til að byrja með störfuðu þessir litlu söfnuðir algerlega sjálfstætt, voru reknir eins og sjálfstæð eining. Þar sem fleiri en einn söfnuður var myndaður í íslenskri byggð eins og t.d. í Nýja Íslandi voru mynduð lítil kirkjufélög og tilheyrðu söfnuðir þessum félögum. Séra Jón Bjarnason myndaði söfnuði sem allir tilheyrðu hans kirkjufélagi og sama gerðir séra Páll Þorláksson. Fyrirmynd prestanna var m.a. gríðarlega öflugt, norskt kirkjufélag, The Norwegian Synod sem einkum starfaði í Bandaríkjunum. Fleiri þjóðarbrot í Bandaríkjunum mynduðu  slík trúfélög, t.d. Þjóðverjar. Séra Páll Þorláksson leiddi sína söfnuði frá Nýja Íslandi suður til Norður Dakota og þar mynduðust nýir söfnuðir hans. Í bók sinni ,, Saga Íslendinga í N. Dakota“ fjallar Þórstína Þorleifsdóttir um kirkjumál byggðarinnar, gefum henni orðið: ,, Fyrsta íslenzka guðþjónustan í Pembina-sýslu var flutt á virkum degi í húsi Íslendingavinarins, Butler Olson, 5. desember, 1878, af séra Páli, en ekki reyndi hann að stofna söfnuð í það skifti; og var það ekki fyr en haustið 1880, að hann vakti máls á því að mynda söfnuð, en guðþjónustur hafði hann flutt á þeim tíma á þremur stöðum í bygðinni, í Vík, á Garðar og við Tunguá. Fyrsti fundur í því skyni, var haldinn á Garðar 24. nóv. 1880. Séra Páll var fundarstjóri, en Stephan G. Stephansson skáld var skrifari. Fundarmenn voru: E.H.Bergmann, Jón Bergmann, Benedikt Jónsson Bardal, Jón Brandsson, Jón Hallgrímsson, Grímur Þórðarson, Árni Thorleifson, Jón Jónsson, Grímur Einarsson, Hallgrímur Gíslason, Kristinn Ólafsson, Sigurgeir Björnsson, Gísli Dalmann. Fundarmenn samþyktu að mestu leyti safnaðarlög séra Páls frá Nýja Íslandi og kölluðu séra Pál til prests. Síðan voru tekin loforð fyrir launum til hans og komu inn $50.00.“    Ferlið að ofan er áhugavert og lýsir ágætlega hvernig landnemar í Vesturheimi báru sig að. Fyrst er boðaður fundur í byggðinni og helstu landnemar mæta. Verðandi sóknarprestur er viðstaddur fundinn sem ugglaust var boðaður af honum sjálfum. Fyrir lágu safnaðarlög séra Páls frá Nýja Íslandi sem samþykkt voru ,,að mestu leyti“. Ekki er ólíklegt að mönnum eins og Stephani G. Stephanssyni hafi þótt erfitt að sætta sig við að konur höfðu ekki kosningarétt í söfnuðum séra Páls. Fundarmenn kalla séra Pál til prests sem bersýnilega samþykkir kallið. Í fundarlok ábyrgjast fundarmenn árslaun prests. Þegar myndaðir voru söfnuðir án þess að prestur væri tengdur nýjum söfnuði þurfti að senda köllun til einhvers sem líklegur þætti til að koma í byggðina og gerast sóknarprestur. Stundum störfuðu söfnuðir árum saman án þess að hafa fastan sóknarprest og urðu að láta sér lynda árlegar heimsóknir prests úr öðru byggðarlagi. En séra Páll var duglegur þetta ár í N. Dakota, íslenska byggðin óx með undra hraða og nú var komið að næsta fundi. Þórstína skrifar:

Kirkjan í Hallson var byggð árið 1897 á landi Jóhanns P. Hallssonar. Árið 1899 var kirkjuþing haldið í Hallson og kirkjan vígð þann dag. Jóhann lifði ekki til að upplifa vígsluna, hann lést nokkrum dögum áður og var jarðaður á vígsludaginn. Mynd Pembina County Historical Society.

,,Safnaðarfundur var haldinn að Mountain 30. nóvember 1880. Séra Páll var fundarstjóri, en faðir hans, Þorlákur Jónsson skrifari. Þessir mættu á fundi: Haraldur Thorláksson, Jón Thorláksson, Pétur Sigurðsson, Jónas Kortsson, Sigurður Árnason, Guðmundur Jóhannesson, Sigurður Jónsson, Jón Davíðsson, Gísli Jónsson, Sigurgeir Björnsson, Sigurbjörn Hansson, Hreggviður Sigurðsson, Björn Einarsson, Benedikt Ólafsson, Bjarni Dalsted, Árni Jónsson, Thorsteinn Thorláksson, Jósep Guðmundsson, Hallgrímur Hólm, Sigurður Jakobsson, Sveinbjörn Jóhannesson, Tryggvi Ingimundarson Hjaltalín, Hans Níelsson, Sveinn Sveinsson, Halldór Þorgilsson, Björn Illugason, Sigurður Kráksson, Guðmundur Guðmundsson, Ólafur Ólafsson, Baldvin Helgason og Thorlákur Jónsson. Samþykt var að mynda söfnuð og skyldu guðþjónustur haldast þrisvar á mánuði. Menn skrifuðu sig fyrir $95.00 sem gjaldi til prests og safnaðarlög séra Páls voru samþykkt.“ Þennan fund sóttu fleir landnemar enda var þessi sveit fjölmennust og heimabyggð fjölskyldu prests, á fundinum voru tveir bræður hans svo og faðir hans. Það leið að jólum og nýtt ár gekk í garð. Næsti fundur boðaður strax í ársbyrjun, 1881. Þórstína skrifar: ,,  Þann 2. jan. 1881 var safnaðarfundur haldinn í húsi Jóhanns P. Hallssonar við Tunguá, og var samþykt að stofna söfnuð, og menn skrifuðu sig fyrir $55.00 til prests. Séra Páll var forseti en Pálmi Hjálmarsson skrifari. Þessir mættu á fundi: Jón Hörgdal, Gísli Egilsson, Jónatan Halldórsson, Jóhannes Jónasson, Gunnar Jóhannsson  Hallsson, Jósep Schram, Sölvi Sölvason, Jakob Jónsson, Sigfús Ólafsson, Ólafur Jónsson, Sigurður Jósúa Björnsson, Tómas Kristjánsson, Jóhann P. Hallsson.“ Séra Páli tókst ætlunarverk sitt að koma lag á nýja, íslenska byggð í Norður Dakota og mynda .ar söfnuði. Árið sem gengið var í garð var honum erfitt því heilsan fór versnandi. Honum sjálfum og hans nánustu vissu þegar sumar var liðið, haustið komið og vetur væntanlegur að dagar hans yrðu taldir fyrr en seinna.

Séra Páll Þorláksson: Páll fór vestur fyrir litlum hópi frá Eyrarbakka árið 1872 og var förinni heitið til Milwaukee í Wisconsin. Frá fyrsta degi lagði hann sig fram við að kynna sér nýtt samfélag í mótun í Ameríku til þess að væntanlegir landar hans hefðu sem gleggsta mynd og væru sæmilega undirbúnir fyrir vesturför. Hann var löndum sínum sannarlega traustur þennan fyrsta áratug hvort sem var í Kanada eða Bandaríkjunum. Vígður prestur 1875 fór hann að huga að trúmálum landa sinna, stofnaði fyrsta íslenska söfnuðinn í Shawano sýslu í Wisconsin árið 1875. Aðrir söfnuðir hans litu ljós í Nýja Íslandi og loks ofangreindir söfnuðir í N. Dakota.  Þórstína Þorleifsdóttir lýsir kringumstæðum í Mountain í Víkurbyggð þegar séra Páll lést: ,, Þann 1. marz 1882 varð Dakota bygðin fyrir því stóra mótlæti , að þurfa að sjá á eftir leiðtoga sínum, bæði í andlegum og veraldlegum efnum, séra Páli Thorlákssyni, er lézt þann dag eftir langvarandi heilsubilun. Vegna ótíðar, fór jarðarför hans ekki fram fyr en 12. apríl. Norskur prestur, Kristján Flaten, hélt ræðu á norsku, en bróðir séra Páls, Níels Steingrímur, á íslenzku. Þrátt fyrir ófærð og veðurhörku, var þar saman kominn fjöldi landnema, sem hryggir kvöddu þann, er lagt hafði í sölur líkams og sálarktafta til þess að greiða þeim götu. Fjögur íslenzk börn voru skírð við líkkistu séra Páls. Þau voru: Jónína Guðný, dóttir Hansar Níelssonar og Guðbjargar Gísladóttur; Páll Bjarnason, sonur Bjarna Bjarnasonar frá Víðidal í Fljótum og Gróu Jónsdóttur; Carl Alexander, sonur Jóns Finnbogasonar og Jóhönnu Sigurðardóttur, og Jóhanna, dóttir Indriða Sigurðssonar og Sigurbjargar Kristjánsdóttur. Séra Páll hafði leitast við að fá því framgengt, að söfnuðurnir í Dakota kölluðu séra Hans Thorgrimsen, er útskrifaðist frá prestaskólanum í St. Louis 1882, og var honum sent köllunarbréf frá Víkursöfnuði það sama ár. Tók hann því en vegna Íslandsferðar, kom hann ekki til Mountain fyr en í ágúst 1883. Í fundargerningabók Víkursafnaðar frá 1883 er það skráð, að safnaðarfundur hafi verið haldinn á Mountain, og skrifuðu sig þá þrjátíu menn og konur í söfnuðinn. Voru það þeir Friðbjörn Björnsson, Jón Einarsson, Halldór Reykjalín, Jón Björnsson, Indriði Sigurðsson, Jón Jónsson, Jón Níelsson, Sigfús Jónsson, Tryggvi Ingimundarson, Guðmundur Guðmundsson, Jóhann Stefánsson, Ólafur Ólafsson, Magnús Jónsson, Thorlákur Björnsson, Kristján Sigurðsson, Sigurður Reykfjörð, Guðbjörg Sveinsdóttir, Thorsteinn Thorláksson, Jón Hörgdal, Jón Jónsson (frá Mæri), Björn Einarsson, Jón Finnbogason, Guðmundur Eiríksson, Hans Níelsson, Jóhanna Skaptadóttir, Friðbjörn Sigurðsson og Thorlákur G. Jónsson. Glöggir lesendur taka eftir nöfnum þriggja kvenna á listanum að ofan og hugsa ef til vill með sér að hér skjóti skökku við, nefnilega að konur höfðu ekki kosningarétt í söfnuðum séra Páls. Þetta var ekki gert af einhverri kvenfyrirlitningu heldur vegna reglna um landnám. Það er athyglisvert að í fundargerðum safnaða og félagasamtaka Íslendinga á frumbýlingsárum er undantekningarlaust talað um heimilisfeður!! Það var eiginmaðurinn, heimilisfaðirinn sem nam landið og var skráður fyrir því. Hann gat þess vegna tekið þátt í stofnun safnaða vegna þess að þeir sem stofnuðu söfnuðinn lögðu eign sína að veði fyrir skilvísum greislum til handa sókanarpresti. En fyrir kom að kona fór vestur og nam land sbr. Jóhanna Skaptadóttir og Elín (Elína) Jónasdóttir missti mann sinn í Winnipeg og flutti suður í Víkurbyggð í N. Dakota og nam land nálægt Mountain. Báðar  voru því ábyrgar með sínum löndum um greiðslur til sóknarprests.

Víkurkirkja á Mountain. Umræddur kirkjugarður við hliðina. Við gröf séra Páls er hærri legsteinninn. Mynd JÞ.

Víkurkirkja: Séra Páll Þorláksson nam land þar sem þorpið Mountain stendur og gaf land undir kirkju og grafreit.  Í safnaðarbók Víkursafnaðar árið 1883 stendur á einum stað: ,, Sá kirkjugrafreitur, sem út hefir verið mældur og gefinn söfnuðinum, skal  standa og menn eftir möguleikum sínum skulu prýða hann og laga. Ástæðan fyrir þessu er sú, að sá maður, sem Drottinn notaði sem verkfæri til þess að grundvalla þenna söfnuð, hefir gefið þann reit er hér um ræðir, og þar til og með helgað hann sínu eigin holdi, ásamt mörgum öðrum, er eftir hann hafa gengið í sama farveg. Af þessum framanskráðu ásæðum álítur nefndin, að söfnuðinum beri að halda við þenna blett og prýða hann til minningar um hinn framliðna fyrirrennara, og til merkis um, að söfnuðurinn hafi ekki álitið verk hans bygð á vindinum, samkvæmt hans eigin holds hugþótta, heldur það, að hann af öllu hjarta sínu og öllum vilja sínum, samkvæmt mentalegri þekkingu sinni, hafi stundað að atíla iðju sína samkvæmt Drottins vilja  og boðum.

Haraldur Thorláksson, Björn Einarsson,                                                                                                                                                                                                                         Friðbjörn  Björnsson“

Kirkjan var byggð á Mountain árið 1884 og var 28 fet á breidd og 46 fet á lengd. Byggingin var vegleg og kostaði sitt. Til að geta klárað verkið tók söfnuðurinn $1000.00 dollara lán hjá norskum kaupmanni, Haraldi Thorson, og gengu nokkrir bændur í ábyrgð fyrir láninu og veðsettu heimilisréttarlönd sín til að fá þessu framgengt. Kaupmaður var landnámsmönnum í nýlendunni allt annað en hjálparhella. Skoðum hvað Þórstína Þorleifsdóttir skrifaði um þann mann: ,, Smámsaman var farið að yrkja dálitla akurbletti, er bráðlega stækkuðu. Sáðu menn fyrst í þá með höndunum, en brátt varð nauðsynlegt að fá sláttuvélar og vinnudýr, svo sem uxa og hesta. Því miður hleyptu menn sér oft í stórskuldir til þess að fá ofanskráð vinnutæki. Það er enn í manna minnum, að norski kaupmaðurinn Haraldur Thorson, er séra Páll fyrst kynntist í Minnesota, og sem rak um 10 ára skeið miður sæmilega verzlun meðal nýlendumanna, hafi selt samok af hestum fyrir $400 og múla-ok $500, og gáfu menn þá lönd sín í veð fyrir skuldinni. Thorson var óbilgjarn og harðsnúinn í viðskiftum; einn maður tapaði jörð sinni fyrir að kaupa einn smáhest (pony) af honum. Smám saman tókst mönnum að losna við okrara þenna, en ekki fyr en margir voru búnir að tapa jörðum sínum og þurftu að leita annarsstaðar hælis“ Séra Friðrik Jónsson Bergmann