Pembinabyggðin var í norðaustur horni Norður Dakota um fimm kílómetrum sunnan landamæra Bandaríkjanna og Kanada. Rauðáin greinir að ríkin tvö, Minnesota og Norður Dakota og á vestur-bakkanum myndaðist lítið þorp snemma á landnámsárunum sem nefnt var Pembina. Orðið er úr frumbyggjamáli og merkir rautt trönuber. Áratugurinn 1870-1879 markaði tímamót í sögu Kanada því innflytjendur streymdu þúsundum saman inn á frjósama sléttuna í Vestur-Kanada og allir fóru norður eftir Rauðánni. Allir vöruflutningar til Winnipeg voru sömuleiðis á Rauðánni svo þorpið var nokkurs konar miðstöð fólks- og vöruflutninga. Lítil á, Pembinaá, sem upptök á í vestur Manitoba, rennur í gegnum bæinn og fellur í Rauðá um hann miðjan. Allmikill skógur óx á suðurbakka árinnar og veitti gott skjól fyrir ísköldum norðanvindum á veturna en í vestur er skjóllaus slétta og þar var næðingssamt. Íslendingar kölluðu því þetta svæði Síberíu. Á austurbakka Rauðár í Minnesota myndaðist líka þorp sem heitir St. Vincent og kom það allmikið við sögu Íslendinga á þessu svæði snemma á landnámsárunum. Rauðáin gengdi mikilvægu hlutverki á umræddum áratug vegna þess að engar járnbrautir höfðu verið lagðar í Vestur Kanada eða svo norðarlega í N. Dakota. Straumurinn var þungur norður eftir ánni, þúsundir innflytjenda og ómæld tonn af alls kyns vörum sem miklu skiptu í uppbyggingunni í Winnipeg. Gufuskip, stór og smá fluttu fólk og varning, Rauðáin var á sumrin hin mikilvægasta umferðaræð. Allir í Manitoba sem erindi áttu suður á bóginn fóru upp Rauðá til Pembina eða St. Vincent en þaðan lágu svo brátt slóðar landleiðina suður á bóginn.
Íslenskt landnám:
Snemma árs 1879 þegar ljóst var að framtíð Nýja Íslands var í mikilli óvissu og íbúar farnir að leita annað fóru fáeinir að undirbúa flutning suður yfir landamærin til N. Dakota í Bandaríkjunum. Séra Páll Þorláksson hafði skipulagt skoðunarferð um sumarið 1878 suður þangað og fundið álitlegt svæði þar sem þorpið Mountain stendur nú. Séra Páll var svo aftur á ferðinni í desember, var þá á leiðinni til Minnesota og fór Kristján G. Kristjánsson með honum til Pembina. Hann svipaðist þar um og leist vel á landið kringum þorpið og afréð að flytja þangað strax og voraði. Hann fékk tvo aðra heimilisfeður í lið með sér sem báðir áttu konu og börn. Kristján lýsti brottflutningnum frá Nýja Íslandi svo: ,, Þessi litli hópur lagði af stað frá Íslendingafljóti 16. marz 1879, fótgangandi, með einn uxa fyrir flutningatæki. Eins og gefur að skilja, var ferðalag þetta tafsamt og þreytandi. Veðrið um þetta leyti árs úrfellasamt og kalt; vegir engir, en víða fen og foræði. Varð því að bera börnin oft langan veg í einu og vaða vatn svo tímum skipti. Hvergi mat né gistingu að fá. Hópurinn kom til Pembina 30. marz og hafði því verið 14 daga að ferðast þessa leið, sem nú má fara á nokkrum klukkustundum með járnbraut.“ Þessir landnemar festu sér lönd suðvestur af þorpinu þar sem kallað var ,,Aldan“ en svæði þar sem skipist á lágar hæðir og sléttlendi kölluðu Íslendingar öldótt. Ástæðan fyrir þessu landnámi þar um slóðir er sú að mjög votlent var og því ráðlegt að reisa hús á hæðunum en allar lautir umhverfis stóðu fullar af vatni og fúlu grasi. Eftir að landið byggðist, vegir lagðir og skurðir grafnir þornaði landið smám saman og kom þá í ljós að landið lægra var miklum mun frjósamara. Seinna leiddi þetta til brottflutnings af ,,Öldunni“ því hæðirnar þornuðu um of og landið rýrnaði verulega að gæðum. Straumur Íslendinga suður, burt úr Nýja Íslandi var talverður næstu árin og þótt flestir hafi farið vestur í nýju, íslensku byggðina í kringum Mountain þá urðu allmargir eftir í Pembina. Ýmsir kusu þorpið og settust flestir að á tanga milli ánna og var það hverfi stundum nefnt íslenska hverfið. Einhverjir settust svo að í vesturhluta þorpsins. Frá upphafi var eins og Íslendingarnir litu á landnámið í Pembinabyggðinni sem nokkurs konar áningastað hvort sem þeir bjuggu í þorpinu eða á eigin landi utan þess. Enda varð það raunin að margir fluttu brott. Engar tölur eru til um fjölda Íslendinga í Pembinabyggðinni en fjölmennastir munu þeir hafa verið á síðasta áratug 19. aldar. Er þá talið að um sextíu fjölskyldur hafi búið í þorpinu og tólf á eigin landi á ,,Öldunni“.
Atvinna:
Öllum var ljóst að atvinnutækifæri í Pembina voru fá, nánast engin fyrstu árin. Allir sem þangað fóru voru fátækir, nánast félausir en með dugnaði komu menn sér upp húsi, litlum aldingarði og fáeinir höfðu jafnvel húsdýr á litlum bletti umhverfis húsið. Menn eignuðust húsin, urðu sjálfstæðir efnahagslega og gátu litið björtum augum á framtíðina. Þeir sem höfðu skepnur áttu greiðan aðgang að landrými utan þorpsins þar sem hægt var að heyja með litlum kostnaði. Þar gátu menn einnig sótt eldivið með því að kaupa aðgang að skógi og höggva sjálfir. Vinnan sem gafst tengdist venjulega stórbúum austan Rauðár í Minnesota. Íslensku verkamennirnir unnu við sáningu og uppskeru og gaf þetta bærilega í aðra hönd. Margir unnu líka við fiskveiðar í Rauðánni en þarna við þorpið reyndust vera gjöful mið, einkum var kattfiskur (catfish) mikill. Menn áttu sín net og drógu fyir og reynist aflinn iðulega mikill. Honum var komið á vagna og drógu menn þá ýmist um þorpið eða til bænda í nærliggjandi sveitum og seldu. Hagnaður var þó nokkur meðan á veiðunum stóð oft í um tveggja mánaða skeið og venjulega höfðu fiskimennirnir nægan fisk til heimilisnota allt sumarið. Fyrstu árin fiskaðist afar vel, algengt var að fleiri tugir fiska komu á land í einum drætti jafnvel þótt vörpurnar væru hver á fætur annarri. Kattfiskurinn í ánni var misstór, allt frá tveimur pundum upp í fimmtán. Verðið var gott, áin var því lengi vel alger gullkista fyrir þá sem lögðu fyrir sig fiskveiðar.
Trúmál:
Á fyrstu árum landnáms unnu landnemar dag og nótt að því að koma undir sig fótunum í nýrri byggð og því var lítill tími aflögu til að sinna félagsmálum. Íslendingar bjuggu nokkrir saman í suðurhluta þorpsins og að því kom að rætt var um kirkjulegan félagsskap, hugmynd um myndun safnaðar komst á dagskrá. Helstu hvatamenn voru Sigurður Mýrdal, Ólafur Þorsteinsson og Jón Jónsson frá Munkaþverá í Eyjafirði. Þetta var á árunum 1883-1884 og voru nokkrir fundir haldnir í þorpinu til að ræða kirkjumálin. Engar heimildir liggja fyrir um fjölda þeirra sem sóttu þessa fundi eða hversu margir skráðu sig í söfnuðinn en eins og alls staðar í nýbyggðum í Norður Ameríku urðu landnemar að taka trúmál í sínar hendur, engin þjóðkirkja var í Bandaríkjunum eða Kanada. Öllum í Pembinabyggð var ljóst að enga prestþjónustu var að fá því aðeins einn prestur íslenskur var um þær mundir í Vesturheimi. Pembina Íslendingar urðu að gera sér að góðu húslestra fyrstu árin og til þess leigðu þeir lítið samkomuhús í þorpinu. Að því kom þó að öllum varð ljós nauðsyn þess að reisa kirkju, án hennar voru líkur hverfandi að til safnaðarins réðist prestur. Það var svo árið 1885 að íslensk kirkja var reist í Pembina og telst hún næstelsta kirkja Íslendinga í Vesturheimi en elst var Víkurkirkja í Mountain. Séra Jón Bjarnason var aftur kominn vestur og söng messur í Pembina svo og séra Hans Thorgrimsen. Séra Friðrik J Bergmann var ráðinn prestur til safnaðarins í Garðar og annarra safnaða í hinum ýmsu íslensku byggðum þar um slóðir og þjónaði hann sömuleiðis ungum söfnuði í Pembina allt til ársins 1893. Séra Jónas A. Sigurðsson var þá vígður til prests og þjónaði söfnuði í Pembina til ársins 1900 en þá leysti séra Steingrímur N. Þorláksson hann af.
Kven- og lestrarfélag.
Konur létu iðulega til sín taka á frumbýlingsárum í nýjum, íslenskum byggðum vestra. Í Pembinabyggðinni fóru nokkrar fljótlega að ræða grundvöll að stofnun íslensks kvenfélags í byggðinni og mun Arnheiður Þorsteinsdóttir, eiginkona Eilífs Guðmundssonar, hafa átt drjúgan þátt í stofnun þess. Með sameiginlegu átaki kvenna og karla var reistur allstór skáli í þorpinu þar sem kvenfélagið hélt sínar samkomur og aðra skemmtifundi Íslendinga. Kvenfélagið lét margt gott af sér leiða m.a. gaf það nýrri, íslenskri kirkju fjölda skrautmuna og listaverka.
Árið 1889 var lestrarfélag stofnað í byggðinni sem samstundis hófst handa við öflun bóka og tímarita. Helsu hvatamenn að stofnun félagsins voru þeir Jón Jónsson frá Munkaþverá, Magnús Brynjólfsson, Brandur Johnson og Daníel Laxdal. Á stofnfundi gerðust 20 heimilisfeður félagar og kusu Jón Jónsson formann félagsins, Brand Johnson (Guðbrandur Gíslason úr Dalasýslu) bókavörð og Björn Frímann Walters féhirði. Ekki liðu mörg ár þar til myndarlegt bókasafn sá dagsins ljós en önnur starfsemi félagsins átti mikinn þátt í öflugu félagsstarfi í byggðinni en það voru reglubundnir fundir. Iðulega var boðað til almenns fundar einu sinni í mánuði, stundum tvisvar. Þetta voru stundum kappræðufundir þar sem einhverjir tveir einstaklingar deildu um eitthvert málefni er varðaði andlega heilsu og vellíðan Íslendinga í nýju umhverfi. Mál sitt fluttu ræðumenn á íslensku en þessar kappræður voru einmitt liður í varðveislu íslenskrar tungu í Vesturheimi.