Kinmount

Vesturfarar

Kinmount er lítill bær rúmlega 163 km norðaustur af Toronto og hét þorpið upphaflega Burnt River eftir ánni sem þar rennur um. Árið 1859 var þorpinu gefið nafnið Kinmount eftir samnefndum stað í Skotlandi.  Bresk áhrif í Ontario uxu jafnt og þétt eftir 1860 sem byggðust fyrst og fremst á stöðugum straumi innflytjenda frá Bretlandseyjum. Þegar kreppan í Norður Ameríku skall á um 1872 fylgdi í kjölfarið gríðarlegt atvinnuleysi sem leiddi til minnkandi áhuga á vesturferðum á Bretlandseyjum. Straumur innflytjenda til Ontario hafði verið jafn og stöðugur og með honum kom vinnuafl sem mikil þörf var á í vaxandi flutningakerfi, iðnaði hvers konar, skógarhöggi og námugreftri. Ungt þjóðríkið Kanada kappkostaði að koma festu á landnám vestur á bóginn og smám saman þéttist byggðin í suðurhluta fylkisins svo stjórvöld fóru að hvetja til landnáms lengra norður. Kerfið gekk nánast snuðrulaust upp úr 1870 þar sem skortur var á byggingarefni syðst í fylkinu en það fannst norðar og til að flytja það suður þurfti járnbrautir. Skógarhögg flýtti þannig fyrir landnámi, land var hreinsað og numið. Landið umhvefis Kinmount var skógi vaxið en þangað lá ekki járnbraut. Árið 1874 lá fyrir áætlun um lagningu járnbrautar þangað um haustið.

Íslenskt vinnuafl: Sigtryggur Jónasson fylgdist með vesturferðum landa sinna, vissi að margir fóru um Kanada suður til Wisconsin þar sem Páll Þorláksson undirbjó komu þeirra þangað og kom þeim í vist hjá norskum landnemum þar um slóðir. Sigtryggur vissi líka að hugur flestra vesturfara frá Íslandi var að setjast að einhvers staðar saman, mynda íslenska byggð í N. Ameríku. Hann hafði verið búsettur í Ontario síðan 1872 og hafði kynnt sér margt í fylkinu sem sneri að innflytjendum. Hann þekkti áherslur stjórnvalda um svæði sem framtíðarland innflytjenda eins og t.d. Muskoka. Þangað höfðu farið landar hans síðsumars árið 1873 og voru sestir að í Cardwell hreppi norðaustur af þorpinu Rosseau. Þangað lagði hann leið sína um vorið 1874, hann vissi af stórum hópi væntanlegum frá Íslandi um sumarið og leitaði álitlegs svæðis fyrir landnám. Hann skoðaði sig um í Muskoka en fann ekki það sem hann leitaði að. Hann virðist hafa tekið þá ákvörðun eftir skoðunarferðina til Muskoka að fara að fordæmi Páls Þorlákssonar í Wisconsin að fá vistir hjá bændum í Ontario svo íslenskir innflytjendur væntanlegir um sumarið gætu lært ný vinnubrögð og undirbúið sig betur fyrir eigið landnám. Í bréfi sem hann skrifar frá Kinmount 13. október, 1874 segir hann um þetta:,, Áformið var í fyrstu, að ef þeir hefðu komið tímanlega eða um uppskerutímann, að útvega þeim vistir hjá bændum og láta þá kynna sér landshætti áður þeir byrjuðu sjálfir á búskap.“ En Allan skipafélagið sá til þess að hópnum seinkað verulega, hann kom til Quebec 23. september og til Toronto tveimur dögum seinna. Sigtryggur Jónasson var ráinn umboðsmaður Ontario fylkis og túlkur. Hann tók á móti hópnum í Quebec og fylgdi honum í innflytjendabúðir í Toronto. Á leiðinni þangað kom í ljós að margir þjáðust af slæmri magakveisu og höfðu sumir þjáðst verulega á hafi úti. Dvölin í Toronto hressti suma en þar tók við óvissa um framtíðina. Segja má að það hafi verið lán í óláni að járnbrautarfélag sem annast átti lagningu járnbrautar frá bænum Lindsay til Kinmount var í miklum vanda vegna skorts á vinnuafli. Það hafði gengið um hríð að ráða bændur í slíka vinnu, það þótti kostur ef þeir bjuggu nærri vinnustaðnum. En bændur stukku ekki til í þetta sinn vegna þess að uppskerutíminn var ekki að baki. Manneklan kom á borð yfirmanns innflytjendamála Ontario fylkis sem eflaust hefur bent Sigtryggi á járnbrautarfélagið og þar var vel tekið á móti honum. Félagið samþykkti að ráða Íslendinga í vinnu við járbrautarlagninguna, það réðst í byggingu skála í Kinmount þar sem vinnumenn skyldu búa. Á meðan unnið var að byggingunum í Kinmount beið fólkið í Toronto. Hér er brýnt að staldra við í frásögn og hugleiða skelfilegan misskilning. Járnbrautarfélagið var að ráða menn í vinnu yfir veturinn en Íslendingarnir undirbjuggu fjölskyldur, konur, börn og eldri menn og lasburða til fararinnar til Kinmount. Skálarnir sem reistir voru þar voru bjálkahús og er þeim lýst svo:,,Voru skálar þessir hlaðnir úr óhöggnum trjám og rifur fyltar með mosa og leir. Þök voru úr borðviði (reisifjalir) en gólf úr plönkum. Fyrst voru reistir fjórir skálar. Tveir 70 fet á lengd og 20 fet á breidd en hinir tveir helmingi styttri með sömu breidd. En þegar Íslendingarnir fluttu þangað, reyndust skálarnir bæði litlir og of lágir. Voru þá bygðir enn tveir skálar á stærð við þá minni: 35 fet á lengd og 20 á breidd, og var loft í öðrum þeirra. Einnig voru sett loft í bæði stærri húsin.“ (SÍV2-bls 285)

Myndin sýnir dæmigert skóglendi í nágrenni Kinmount. Íslendingarnir sem unnu fyrir járnbrautarfélagið unnu í svona landslagi. Þeir þurftu að fella tré, sprengja klappir, fylla lægðir og skurði. Mynd JÞ

Nöturlegar kringumstæður: Sigtryggur Jónasson virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því að járnbrautarfélagið hafði reist skálana handa vinnumönnum, körlum sem búa áttu saman þar á meðan unnið væri að járnbrautarlagningunni milli Kinmount og Lindsay. Hann lýsir ferð fólsins frá Toronto til Kinmount í bréfi til Norðanfara dagsettu í Kinmount 1. febrúar, 1875 og segir:,, Vegalengdin frá Toronto til Kinmount, er 102 mílur enskar, og er farið 88 mílur í norðaustur með Toronto og Nippising járnvegi til bæjar, er liggur við enda þessa vegar og nefnist Cobakonk. Þaðan eru 14 mílur til Kinmount, er fara verður með hestvögnum. Til að komast til Kinmount, samdægurs, urðum við að fara frá Toronto kl. 8 um morguninn, og komumst til Cobakonk litlu eftir miðjan dag. Þar höfðu allir miðdegisverð, og að því búnu var fariðað koma kvenfólki og krökkum og hinu nauðsynlegasta af farangrinum á hestvagnana, er voru fyrir fram umbeðnir þangað. Alt hafði gengið vel með landa alt til þessa, að undanteknu því, að þeir voru ekki sem liðlegastir, er þeir áttu að fara að ferðast með gufuafli í Quebec í fyrsta sinn. En er til hestvagnanna kom, þá fór heldur að grána leikurinn. Svo var til ætlast, að allir karlmenn er frískir væru gengju þessar 14 mílur, en hitt alr keyrði. En þeir frískustu urðu fyrstir að komast í vagnana, svo tími eyddist talsvert, þar eð aftur varð að stanza vagnana og reka menn ofan, og fylla vagnana aftur með krökkum og kvenfólki. Það var því komið undir rökkur, er af stað var komist, svo mikinn hluta vegarins varð að fara í myrkri, sem var fremur óskemtilegt, þar eð hann var ósléttur og blautur af rigningum.“  Símon Símonarson frá Breiðstöðum í Sauðárhreppi var í þessum hópi með konu sína og tvö börn og styðst ÞÞÞ við kafla úr ævisögubroti Símonar (SÍV2 bls. 286-7): ,,Símon Símonarson lætur afarilla af ferðinni frá Cobakonk til Kinmount. Segir hann, að þegar loks var komið á leiðarenda, eftir að karlmennirnir höfðu gengið um 14 mílur yfir grjót og klungur og bleytu, en kvenfólkið og lasin börnin verið næstum hrist í sundur á þeim óvegi á klunnalegum vögnum, hafi fólkinu verið hrúgað niður í forina úr vögnunum, hungruðu og veiku, um klukkan tólf um nóttina í kolsvarta myrkri, inn á milli einhverra trjástofna, og hafi það ekki haft neina hugmynd um hvert halda skyldi. Loks eftir langa mæðu, þegar innflytjendurnir voru búnir að byltast um þarna í bleytunni, komu tveir landar til þeirra með ljóstýru og lýstu þeim til “hreysanna“, sem verið var að reisa, og nokkrir Íslendingar unnu við.“ “Í þessum eymdar heimkynnum, var einhver matur á borð borinn, en hans nutu ekki nema þeir hraustustu, og þeir, sem hugsuðu að eins um sjálfa sig. en liðleskjur og sjúklingar náðu í ekkert.“

Þrautir innflytjenda: Fyrirkomulagið í skálunum var fáum að skapi, þrengslin ótrúleg, skálarnir daunillir og loftlausir. Veikindi barna voru mikil, sumar heimildir segja að öll börn innan tveggja ára dóu þarna í Kinmount. Símon skrifaði í ævisögubrotinu að ,,..í Kinmount muni hafa dáið nær 30 börn og nokkuð af fullorðnum (nær 10), helzt gömlum mönnum.“  Sjálfur sá hann á eftir tveggja ára dóttur sinni, Guðrúnu. Hann lýsir skelfilegum þjáningum barnsins sem lést að kveldi 10. október. Vinur hans, Jón Ívarsson, smíðaði kistuna og bar hann og Jón Espólín Guðrúnu litlu til grafar í Kinmount kirkjugarðinum.  Í hverjum skála var eldavél og upphaflega ætlaði járnbrautarfélagið að elduð yrði ein máltíð á dag fyrir alla íbúa hverst skála. Áttu íbúar að annast matseldun en þetta fyrirkomulag hentað íslenskum fjölskyldum illa, sérhver húsmóðir vildi elda ofan í sig og sína. Ósamkomulagið bitnaði mjög á öllum íbúum og gerði sambúðina afskaplega erfiða. Mennirnir sem vinnu höfðu hjá járnbrautarfélaginu unnu á daginn og fengu greitt fyrir rúman dal fram að áramótum en á nýju ári lækkuðu laun niður í 90 sent. Nokkuð var um að menn neyddust til að leita annað eftir vinnu, járnbrautarfélagið þurfti ekki all vinnufæra menn. Sumir fengu vinnu hjá bændum í nágrenninu, aðrir í þorpum og bæjum í grenndinni.  Sigtryggur Jónasson vann mikið verk við að aðstoða fólkið í einu og öllu. Hann dreif í að opna verslun fyrir landa sína en mörgum þóttu prísar hans hærri en á nærliggjandi mörkuðum. Hann fékk Friðjón Friðriksson í lið með sér en hann annaðist innkaupin og afgreiðsluna. Sigtryggur reyndi margt til að gera dvölina í Kinmount bærilega, hann útvegaði ungum stúlkum vinnu á heimilum í bæjum eins og Lindsay og tók að sér kennslu í skólanum sem hóf göngu í mars, 1875. Í mars kom svo reiðarslagið, vinnu við járnbrautarlagninguna var hætt vegna fjárskorts. Íslendingarnir voru skyndilega atvinnulausir og áttu ekki marga kosti. Sumir skráðu sig fyrir landi og byrjuðu að hreinsa, aðrir leituðu til bænda og nærliggjandi byggða. Þótt mönnum í Kinmount hafi þótt vistin daufleg og smám saman áttað sig á því að landið í Victoriusýslu í Ontario hafði ekki það upp á að bjóða sem leitt hafði þá áfram vestur um haf. Hér gat draumurinn um alíslenska nýlendu ekki ræst.