Íslensk byggð á Red Deer Point hófst um 1900. Staður þessi er býsna langur tangi út í Winnipegosisvatn, norðarlega í Manitoba. Árið 1930 birti Almanakið í Winnipeg kafla í þættinum Safn Til Landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi. Hann var eftir Finnboga Hjálmarsson frá Tjörnesi og kallaðist Landnáms-söguþættir frá Íslendingum í Winnipegosis. Grípum niður í frásögn hans; ,,Fer fiskisaga – flýgur hvalssaga, – segir gamalt máltæki. Eflaust voru það fiskisögurnar, sem bárust héðan frá Winnipegosis laust fyrir síðustu aldamót, sem áttu sterkasta þáttinn í því að bygð hvítra manna hófst hér á áðurnefndu tímabili. Húðsonsflóa félagið með nokkra Indíána og kynblendinga, hafði hér eina verzlunarbúð, seldi það þessum mönnum ýmsa nauðsynjavöru, en tók aftur sem gjaldmiðil, loðskinn hjá Rauðskinnunum, sem gerðu það að lífstíðar iðn sinni að veiða þessi dýr. Að öðru leyti lá landið og vatnið hér í auðn og þögn, með föng sín full af allskonar gæðum, og beið þess eins, að sem flestr yrðu þeirra njótendur. Vegir um landið voru lítt færir og sjaldfarnir, mest Indíána krókastígar, voru því ferðalög fátíð eftir landinu á sumrin. Var vatnaleið oftast farin að sumarlagi, þegar áðurnefnt félag þurfti að flytja vörur sínar að og frá markað. Á vetrin var hundum beitt fyrir sleða og helstu nauðsynjar fluttar með þeim farartækjum…Íslenzk bygð úti á landi hófst ekki fyrr en vorið 1900. Byrjuðu þar fyrst búskap nokkrir Íslendingar frá Norður Dakota. … Nýlendusvæði það, sem þeir kusu sér til ábúðar var tangi sá, sem skagar hér út í vatnið norður frá bænum, og er nefndur Red Deer Point. Hann er 30 enskar mílur á lengd en um 4 mílur þar sem hann er breiðastur, vogskorinn er hann og víða góðar hafnir og lendingar. Samt var sá hængur á þessu kjöri að landið var ómælt, svo enginn vissi hvar hann var staddur. Bygðu menn því hreysi sín þar sem þeim þótti fegurst útsýn og þægilegast til fanga frá vatni og velli. „Fagurt er á fjöllum mínum núna,“ sagði Halla, veslings íslenzki útlaginn. Fagurt þótti Íslendingum Red Deer Point þegar þeir litu hann fyrst í sumarskrúði sínu. Álmur, fura, ösp og björk höfðu alist þar upp frá ómunatíð, og röðuðu sér í langar fylkingar kringum stóra engjafláka af stör og ljósalikju og ýmsri grasafjöld. Vatn og land sýndist líta hýrum augum til þessara nýkomnu fósturbarna sinna og bjóða þau velkomin í ríki sitt. Svo settist hver að sínu og bjó að þeim eftir beztu föngum, flestir ánægðir með sitt hlutskifti.“
Vatnavextir
Veðurfar á kanadísku sléttunni virðist fljótt á litið vera ósköp fyrirsjáanlegt, sumrin þurr og heit, veturnir helkaldir. Sagan sýnir hins vegar að þaða koma sérstök þurrkaskeið sem vara fáein ár. Ekki kemur dropi úr lofti vikum og mánuðum saman svo allur gróður sléttunnar deyr, engin verður uppskera bænda. Hin hliðin eru svo ótrúlegir vatnavextir í vötnunum miklu svo flóð ógna ökrum og byggðum. Einu slíku kynntust landnemarnir í Ísafoldarbyggð norðan við Riverton um aldamótin, sumir neyddust til að flytja annað. Hamingjusamir landnemar á Red Deer Point áttu eftir að kynnast flóði í vatninu og lýsti Finnbogi því í sinni grein í Almanakinu. ,,Árið 1901 bættust nokkrir við í nefnda bygð, alt voru það Íslendingar. Fáir voru nautgripir eða annar lifandi búpeningur hjá þessum tanga-búum fyrstu ár þeirra þar, enda engin önnur verkfæri til að afla heyjanna með en orf og ljár. Með þessum tækjum náðu menn þó upp mikið meiri heyjum en þeir þurftu fyrir skepnur sínar. Grasið var svo mikið á láglendi að það náði mönnum í öxl. Það var blá stör, sem spratt upp af leir næst vatninu. Aðferð okkar við að stakka heyið var sú, að tveir menn með sína greni rengluna hver, 12 feta langar, oddmyndaðar í báða enda, rendu þeim undir drílurnar og báru heyið á milli sín þangað, sem það átti að stakkast. Leikur var það fyrir tvo menn að bera þannig saman 10 tonn af heyi á dag, og stakka það. Árið 1902 verður víst Íslendingunum, sem bjuggu þá á Red Deer Point, og þeim, sem fluttu þangað búferlum það ár, lengi minnistætt, sökum flóðs í vatninu. Vorið var ákaflega rigningasamt. Flesta daga í maí mánuði, eftir að ís leysti, rigndi meira og minna. Ekki bætti júní úr skák hvað votviðrið snerti. Fyrstu tvær vikur hans rigndi daglega. Vatnið hækkaði óðum, svo hver vindblaka, sem kom velti því yfir alt láglendi næst vatninu. Tveir dagar voru það einkum, sem háðu reglulega orrahríð á Red Deer Point þetta sumar. Það voru þeir gömlu hólmgöngu starrarnir 17. júní og 2. ágúst, sem nokkrum árum áður höfðu barist í Winnipeg um hefð þá að vera kjörnir Íslendingadagar. – Eg hafði bygt hús mitt 6 fet yfir vatnsflöt árið 1900 þegar eg flutti þangað. Get þess til að sýna mönnum hvað vatns hækkunin varð mikil á þessu tímabili, 17. júní, 1902 var hvass norðan stormur, honum fylgdi lamviðris rigning, vatnið hækkaði óðum og veðurhæðin óx eftir því sem leið á daginn, stór boðaföll veltust yfir mýrina fyrir neðan húsið. Klukkan 6 um kveldið var vatnið farið að renna inn í húsið. Frá því til kl. 11 um kveldið hækkaði vatnið svo að stólar og fleira flaut í stór-sveiflum aftur og fram húsið. Þá voru þau gestir hjá mér Jón J. Samson og kona hans (innskot: Jón Jónasson úr Skagafirði og Guðbjörg Ólafsdóttir úr Rangárvallasýslu) og börn. Og veit eg að þau muna eftir þessari óyndis nótt, sem þau áttu í hreysi mínu. Við settum rúmin upp á stóla, þar hníptu konur okkar og börn, en við Jón ösluðum vatnið upp að knjám á húsgólfinu. Veðrið lægði kl. 12 um nóttina og fjaraði vatnið svo út að það stóð við þröskuldinn á húsinu næsta morgun. Svona var Íslendingadags hátíðahaldið hjá okkur Jóni mínum Samsyni 17. júní sumarið 1902 og hefir mig aldrei furðað neitt á því þó Jón hafi ekki haldið upp á 17. júní sem þjóðminningardag Íslendinga. Daglæti 17. júní höfðu kunngjert okkur það að við hefðum bygt of nærri vatninu. Færðu því nokkrir hús sín og bygðu þau á hærri grunn. Annar ágúst þetta sama sumar, gekk lítið vægar um bygð okkar Íslendinganna á Red Deer Point, en keppinautur hans 17. júní. Geta má þess að yfir það engi, sem var veltiþurt sumrinu áður, var þetta sumar siglt á seglbátum og margir bundu þá byttu við húsdyrnar hjá sér.“
Brostnar vonir – Brottflutningar
,,Víst voru það þessi stórflóð frá vatninu, sem skutu mönnum skelk í bringu og deyfðu vonir þeirra um framtíð sína á Red Deer Point. Veðráttan batnaði þegar leið á sumarið svo allir náðu upp nægum heyforða fyrir skepnur sínar. Þrátt fyrir þessi áminstu flóð og hnekki, sem af þeim hlutust, höfðu allir, sem þar bjuggu nóg til hnífs og skeiðar fyrir skyldulið sitt og yfirdrifin hey fyrir skepnur sínar. Hey, mat og eldivið skorti engann á Red Deer Point. Og hefði víst ekki svarað spurningum manna um líðan sína þar eins og karlinn forðum, „að sig hefði aldrei skort neitt í búskapnum nema þetta þrent, hey, mat og eldivið.“ Árið 1907 töldust 37 íslenzkar fjölskyldur búsettar á þessum tanga, það ár voru þær flestar. Eftir það fór þeim fækkandi…Lestrarfélag myndaðist í bygðinni þau árin, sem flestir bjuggu þar, en þegar burtflutningar fólks úr bygðinni hófust, leystist það upp. Frá þessu ári til 1907 fluttu margir burt af tanganum, flestir til Sask. (Saskatchewan) Nokkrir fluttu til bæjarins Winnipegosis og hafa búið þar síðan…Á Red Deer Point búa nú (1930) 6 íslenzkar fjölskyldur. Manntal þar nú 36. Í mörg undanfarin ár hefir vatnið lækkað árlega, svo nú 2 næstliðin sumur hefir verið þeyst yfir tangann á bílum, þar sem siglt var á seglbátum árið 1902. Þegar þetta er skrifað munu um 300 Íslendingar lifa hér í bænum Winnipegosis og í nágrenninu.“
Prestaheimsóknir
Finnbogi heldur áfram, ræðir prestþjónustu og fl. ,,Séra Oddur Gíslason kom hingað til bæjarins árið 1900 og flutti eina messu. – Séra Pétur Hjálmsson kom til íslenzku bygðarinnar árið 1903 og 1904, messaði þar, skírði börn og fermdi nokkur ungmenni. – Séra Einar Vigfússon kom 1905 0g 1906, jarðsöng mann og gifti ein hjón. – Séra Bjarni Þórarinsson kom hingað 1911, 1912 og 1913, messaði, skírði börn og fermdi. – Séra Karl Olson kom hingað 1917, myndaði hér lúterskan söfnuð og gerði fleiri prestsverk. – Séra Adam Þorgrímsson messaði hér einu sinni. – Séra Runólfur Marteinsson kom hingað tvisvar jarðsöng tvo menn. – Séra Björn B. Jónsson kom hingað og jarðsöng einn mann. – Séra Steingrímur kom hingað og jarðsöng einn mann. – Séra Rögnvaldur Pétursson jarðsöng hér einn mann. – Séra Jónas A Sigurðsson hefir verið kallaður hingað og unnið flest prestsverk hjá okkur Íslendingunum sem búum hér í bænum og bygðinni, nú um næstliðinn tug ára. – Prófessor Svb. Sveinbjörnsson, kona hans og dóttir, dvöldu hér hjá okkur yfir ágúst – mánuðinn árið 1920. Jón Friðfinnsson tónskáld, kendi íslenzkum unglingum hér í bænum söng um tveggja mánaða tíma sumarið 1928.“