Saskatchewan

Vesturfarar

Landnám í Saskatchewan í byrjun 20. aldar

Í byrjun 20. aldar urðu þáttaskil í lífi fjölmargra Íslendinga í N. Dakota og ýmsum íslenskum byggðum í Manitoba. Önnur kynslóð fór að svipast um eftir nýju landnámssvæðum því mjög hafði þrengt að heima fyrir, ekkert land lengur falt fyrir unga bændur. Í Bandaríkjunum var nánast ekkert að hafa og í Manitoba var lítið eða ekkert álitlegt svæði ónumið. Menn beindu því sjónum sínum að vestur Kanada, sléttan vestur af Manitoba var nánast eina svæðið sem bændur gátu hugsað sér í allri álfunni.

Nánast allt land í Þingvalla- og Lögbergsbyggð var frátekið og eins í Hólabyggð. En vestur af Foam Lake var mikið land ónumið, langt vestur sléttuna að bænum Dafoe og nánasta umhverfi hans.

Hér urðu til tvær íslenskar byggðir, önnur einhver stærsta íslenska nýlenda í Norður Ameríku og önnur miklu minni. Sú var sunnan og vestan við þorpið Gerald og fáeinir námu land við Spy Hill þorp. Íslendingar voru frá upphafi fámennir og fluttu sumir reyndar þaðan til Wynyard einhverjum árum seinna. Nýlendan nýja var kölluð Vatnabyggð og rúmlega 70 km á lengd og breiðust um 30. Hún náði norður og austur frá Foam Lake að Fishing Lake. Á þessu svæði var opnað pósthús sem kallaðist Kristnes. Járnbraut C.P.R félagsins náði til Foam Lake en framhaldið var ljóst, áfram yrði hún lögð í vestur um nýju byggðina og það skipti sköpum því allir flutningar til og frá byggðinni voru með lest á þessum tímum. Þegar kortið er skoðað þá sést vel hvernig lítil þorp risu við járnbrautina með afar skipulögðum hætti. Foam Lake er austast, þá Leslie, síðan Elfros, Mozart, Wynyard, Kandahar og loks Dafoe. Glöggir taka örugglega eftir því að bilið milli þorpanna er nánast nákvæmlega það sama en það var engin tilviljun. Eimreiðin þurfti vatn með vissu millibili og það réði staðarvali þorpanna. Það má því segja að járbrautarfélögin í Kanada mótuðu uppbygginguna í Saskatchewan og Alberta, ekki duttlungar landnámsmanna.

Byggðin íslenska teygði sig alllangt suður af Foam Lake og þar austast og syðst var opnað pósthús sem kallað var Mount Hecla en vestar, suðvestur af Leslie kallaðist pósthúsið Hólar. Vestur af Elfros og alveg að Wynyard náði byggðin talsvert styttra suður en breikkaði svo við Wynyard. Landshættir réðu svo landnáminu vestur af Wynyard að Dafoe en á því svæði náði byggðin hvergi eins langt suður og við Leslie. Pósthúsin vestur af Leslie voru í þorpunum og kennd við þau. Allir landnemar t.d. umhverfis Kristnes pósthúsið höfðu sama heimilisfang, bréfin til þeirra voru stíluð á Kristnes P. O. (Post Office) og þangað sóttu bændur póstinn sinn. Þá er vert að geta þess að þegar bændur skrifuðu bréf og sendu þá skráðu þeir sig á Kristnes P.O. og svo dagsetninguna.
Margir hafa velt því fyrir sér í riti og ræðu hvers vegna Íslendingar kusu þetta svæði vegna þess að það er hvergi nærri besta akuryrkjuland kanadísku sléttunnar. Íslenskur landnámsmaður settist að í Foam Lake byggðinni árið 1898 og var fljótlega ráðinn umboðsmaður Kanadastjórnar yfir heilmikið landsvæði vestur af Foam Lake. Hann, ásamt umboðsmönnum stjórnvalda í Manitoba hvöttu Íslendinga til að velja lönd þar sem stunda mátti blandaðan búskap, þ.e. vera bæði með skepnur og kornrækt. Áhersla var líka lögð á íslenskar byggðir, að Íslendingar tækju lönd margir saman og mynduðu heilu byggðarlögin. Þetta þurfti ekki að segja Íslendingum sérstaklega vegna þess að þeir gerðu þetta yfirleitt alls staðar. Umboðsmaðurinn í Foam Lake vissi um afarmikið og gott akuryrkjusvæði vestur og suður af Dafoe en fór ekki hátt með það. Sú kenning er líka til að á þessum tímum þótti blandaður búskapur tryggari atvinnugrein því ef tíðarfar hindraði eðlilegan vöxt korns þá breytti það minna fyrir þá sem líka höfðu mjólkurbú.

Landið í Vatnabyggð svipar mjög til þess er einkennir Hólabyggðina miklu sunnar og eins það í Þingvalla- og Lögbergsbyggð. Þetta val átti líka eftir að reynast bændum vel, einkum á erfiðum þurrkatímum á þriðja áratug aldarinnar.