Þingvalla- og Lögbergsbyggð

Vesturfarar

Hérað það sem þessar tvær íslensku byggðir náði frá þorpinu Churchbridge í suðri einhverja 35 km í norðaustur í áttina að Calder. Upprunalega voru þetta tvær byggðir, Þingvallabyggð sunnanvert og Lögberg norðan til. Þegar árin liðu og samgöngur bötnuðu runnu þær saman í eina og var hún kölluð Þingvalla-Lögbergsbyggð. Landið allt er nokkuð öldótt, venjulega þurrt á þurrkaskeiðum sléttunnar en á öðrum tímum breyttust dældir í mýri. Aspir voru ríkjandi á öldutoppum, þá voru þar víða víðisrunnar. Aspirnar gætu náð góðri hæð og dugðu landnemum vel við kofagerðina á frumbýlingsárunum. Á landnámstímum um og eftir 1900 var sléttan opin, vaxin allháu grasi, víða sást í vísundabein, vitni um aðra tíma á þessari gríðarlegu sléttu í Vestur Kanada. Íslensku landnemarnir kusu þetta svæði fyrst og fremst vegna landsins sem var tilvalið fyrir blandaðan búskap, þ.e. kvikfjárrækt og akuryrkju.

Þingvallabyggð: Helgi Jónsson, ritstjóri og útgefandi fréttablaðsins Leifs í Winnipeg á heiðurinn af landnáminu í Þingvallabyggð. Hann var ráðinn af Kanadastjórn til að kynna Íslendingum í Manitoba svæðið í vestri sem kallað var Norðvesturhéraðið á síðustu áratugum 19. aldar en seinna skiptist það í Saskatchewan og Alberta. Helgi var klókur viðskiptamaður, vissi að til stæði að leggja járnbrautir vestur á boginn og að við þær yrðu brautarstöðvar þar sem þorp áttu eftir að myndast. Þar voru tækifæri kaupmanna. Hann taldi líklegt að ein brautin færi um Shellmouth í Manitoba og kom sér fyrir á staðnum og opnaði þar verslun. En tekist var á um staðarval undir járnbrautina, hún færð frá Shellmouth og nú reiknaði Helgi með að hún færi um Langenburg í Saskatchewan og það gekk eftir því veturinn 1886 var járnbrautin komin til bæjarins. Snemma árs reisti Helgi þar íbúðarhús og verslunarhús sem hann opnaði í félagi við Bjarna Davíðsson úr Dalasýslu.

Íslenskir landnámsmenn: Með lagningu járnbrautar til Langenburg gátu landnemar ferðast vestur þangað með járnbraut en þaðan út í byggðina voru liðlega 25 km.  Fyrstir voru Einar Jónsson Suðfjörð úr Barðastrandarsýslu, Jón Magnússon, úr Lóni í A. Skaftafellssýslu, Björn Ólafsson úr Borgarfjarðarsýslu og Narfi Halldórsson úr Árnessýslu. Jón, fyrstur Íslendinga reisti bjálkakofa í byggðinni. Grípum niður í frásögn Helga Árnasonar úr Rangárvallasýslu, landnámsmanns í byggðinni vorið 1887 úr Rangárvallasýslu en hún birtist í Almanaki Ólafs Þorgeirssonar árið 1918: ,, Veturinn 1886-87 munu hafa verið 23 fjölskyldur búsettar í byggðinni. Húsakynni voru þá lítil og ómerkileg, sem eðlilegt var, en þann vetur gengu menn vel að því að afla bjálka úr skóginum til viðu, og bygðu betri hús. Sjö pör af uxum voru til í bygðinni þann vetur, og það áttunda keypti Guðbrandur Narfason um vorið, og voru þau alt af í brúki þegar veður leyfði. Vorið 1887 var talsverður innflutningur af enskum á löndin er lágu að Þingvallanýlendu, og höfðu Íslendingar gott af komu þeirra, bæði með að selja þeim hey og vinna fyrir þá að húsbyggingum og fleiru. Líka unnu nýlendumenn allmikið við járnbrautina, sem verið var að lengja vestur þau árin, og þó kaupið væri eigi hátt, var það mörgum góð búbót á frumbýlingsárunum“. 

Skóli og söfnuður: Haustið 1887 kom fyrst til umtals að mynda skólahérað og byggja skólahús, og var mönnum mjög ant um að koma því í framkvæmd, og þegar kom fram á vetur, var farið að höggva bjálka og flytja að, og byrjað að byggja í marzmánuði um vorið. Hjálpuðust allir bændur að því að koma því upp, alt endurgjaldslaust; yfirsmiður hússins var Tómas Paulson. Eitt hundrað dollara styrkur fékst hjá Járnbrautarfélaginu til byggingarinnar, og komst húsið upp án þess að nokkurt lán þyrfti til þess. Um sumarið fór fram barnakensla og var ráðin kennari ungfrú Guðný Jónsdóttir, sem nú er kona Magnúsar Paulson, fyrrum ritstj. Lögbergs í Winnipeg. Í janúar 1888 var boðað til almenns fundar í húsi Einars Suðfjörð, til að ræða myndun safnaðar. Á þeim fundi var Þingvallasöfnuður myndaður, og innrituðust á fundinum 36 manns. Tómas Paulson var kosinn forseti, Árni Jónsson skrifari og Jón Ögmundsson féhirðir; Sigurður Jónsson og Kristján Helgason meðráðendur. Sunnudagsskóla kennari, húsfrú Elín Scheving og Sigurður Jónsson fyrir austurbygðina og konurnar Guðbjörg Suðfjörð og Margrét Jónsson fyrir vesturbygðina. Síðar í sama mánuði var annar fundur haldinn í skólahúsinu, og bættust þá æðimargir í söfnuðinn. Fyrsti prestur er heimsótti nýlenduna var séra Jón Bjarnason, kom hann í lok októbermánaðar 1888, og flutti guðsþjónustu í Skólahúsinu. Skírði 22 börn og gaf saman átta hjónaefni og vígði grafreitinn. – Hér má segja frá því að 1. marz, 1887 lézt Guðbjörg Sveinsdóttir, kona Helga Sigurðssonar frá Vatnsenda í Eyjafirði. Skutu nýlendumenn þá á fundi til að velja grafreit og varð niðurstaðan að þiggja boð Narfa Halldórssonar, sem bauð að gefa ekru af landi sínu fyrir grafreitinn, var sá staður hentugur, af því að hann mátti heita að vera í miðri bygðinni. Þar var og kirkja safnaðarins síðar bygð. Guðbjörg var fyrsta manneskjan er þar var lögð til hvíldar. Einar Suðfjörð og kona hans mistu barn í það mund, og var það lagt í sömu gröf“.

Lestarstöðin í Calder árið 1916.

Lögbergsbyggð: Um er að ræða norðausturhluta héraðsins milli Churchbridge og Calder. Það varð aldrei fjölmenn byggð fyrst og fremst vegna þess að landnemar áttuðu sig ekki á því að til að geta stundað svokallaðan blandaðan búskap þurftu þeir að nema stærra land. Byggðin var í einni sýslu (township) nokkrum kílómetrum norðaustur af Þingvallabyggðinni. Ef verslunarstaður hefði risið í Calder snemma er áreiðanlegt að menn hefðu haldið áfram landnámi í norður en járnbrautin norðvestur var ekki lögð þar um fyrr en 1910 og þorp varð til um lestrarstöðina ári síðar. Til að komast á markað þurftu íbúar byggðarinnar að far um Þingvallabyggðina til Churchbridge til að sækja vistir. Góð kynni milli íbúa þessara tveggja byggða mynduðust nánast strax.

Íslenskir landnámsmenn: Fyrstu landnemarnir settust að árið 1890 og voru það Gísli Egilsson úr Skagafirði og Jóhannes Einarsson, ný kominn frá Íslandi til Winnipeg árið 1889. Sama ár flutti Gísli úr Hallsonbyggð norður til Winnipeg en hann flutti vestur til Nýja Íslands árið 1876 og þaðan suður til N. Dakota árið 1880. Það hlýtur að hafa verið tilviljun ein að þeir kynntust um veturinn 1889/1890 og ákváðu að verða samferða vestur í nýtt íslenskt landnám. Þarna fór saman reynsla Gísla á frumbýlingsháttum á sléttunni og íslenskur elmóður nýkomins vesturfara að heiman. Báðir báru frá upphafi hag byggðarinnar fyrir brjósti, samhentir gerðu þeir það sem hægt var til að öllum sem þangað komu vegnaði vel. Báðir tveir voru með stórar fjölskyldur þegar tímar liðu. Landnemar tóku yfirleitt lestina frá Winnipeg vestur til Churchbridge og þaðan á uxakerrum um 25 km leið út í byggðina. Skógur var lítill þar um slóðir svo það fyrsta sem landnámsmaður gerði var að koma sér upp kofa, venjulega úr torfi, rétt nægilega stórum fyrir fjölskylduna. Eftirfarandi saga lifði lengi meðal frumbýlinganna: Átta ára drengur fór með foreldrum sínum vestur með lestinni og vissi að með í för var ein kýr sem faðir hans hafði keypt. Sá hafði farið snemma vors til að velja land og reisa kofa. Sneri svo aftur til Winnipeg og sótti fjölskylduna. Þegar loks þau komu í landnámið og drengurinn sá kofann kallaði hann:,, Er þetta fyrir kúna?“ Sumir landnemanna höfðu eignast lítinn bústofn, fáeinar skepnur sem þeir fluttu með sér. Þannig var um Ólaf Árnason frá Stokkseyrarhreppi í Árnessýslu sem vestur flutti árið 1886 og settist að í byggðinni 1892. Hann rak gripina út á land sitt og kappkostaði að heyja um sumarið. Hann notaði orf og ljá og fékk nágranna til að aðstoða við að ná töðunni saman að hausti. Veturinn sem viðtók var einn sá kaldasti þar um slóðir en Ólafi tókst að halda lífi í skepnunum.

Skólar og Söfnuðir: Í norðvesturhluta héraðsins höfðu skoskir og þýskir innflytjendur sest að. Stjórnvöld ákváðu að skipuleggja skólahérað og árið 1891 var ákveðið að skóli skyldi reistur sem þjónaði öllum. Var hann reistur norðvestur af Calder og strax var ljóst að hann gat engan veginn þjónað íslenskum börnum og unglingum í Lögbergsbyggð, fjarlægðin var slík. Annar skóli var því reistur heldur nær. Íbúar í héraðinu vildu sínar kirkju og mynduði söfnuði. Fyrsta kirkjan var reist í Lögbergsbyggð og hófst verkið árið 1902 og var kirkjan vígð 1904. Byggingin var líka samkomuhús beggja byggða, Þingvalla- og Lögbergsbyggða.

Sléttuþurrkar – Brottflutningar: Landnámi lauk í árslok 1891 og flestir bændur höfðu hafið búskap, skepnum fjölgaði sem þurftu sitt fóður og vatn. Kappkostuðu menn að leita vatns, grófu brunna án árangurs. Í leysingum á vorin mynduðust tjarnir í lægðum en ástandið versnaði sem náði hámarki sumarið 1892 sem reyndist það þurrasta. Landnámsmenn þekktu ekki þá sérstök þurrkaskeið á kanadísku sléttunni sem urðu með mislöngu árabili. Hvorki embættismenn né reynslumeiri landnemar þekktu þetta fyrirbæri, höfðu enga skýringu á því að allir brunnar þornuðu upp og hvar sem leitað var fannst ekkert. Mikil hreyfing kom á íbúa, menn leituðu líklegra svæða innan héraðsins og þrátt fyrir að ríkisstjórn Kanada sendi færa menn á svæðið fannst engin lausn. Vorið 1893 hófust brottflutningar, flestir fóru austur á bóginn til Manitoba og settust að vestan við Manitobavatn. Aðrir leituðu norður og vestur á svæði þar nú eru Fishing Lake og Foam Lake. Ríflega helmingur flutti brott úr báðum byggðunum, þeir sem eftir urðu minnkuðu við sig og aðlöguðust erfiðum kringumstæðum. Þolinmæði þeirra varð til þess að sá íslenski grunnur sem lagður var á frumbýlingsárunum lifði langt fram á 20. öld. Rétt að geta þess að brautryðjendurnir í Lögbergsbyggð, þeir Gísli Egilsson og Jóhannes Einarsson fluttu ekki brott. (Heimild um Lögbergsbyggð The Saskatchewan Icelanders) 

Sléttan lifnar: Undir lok 19.aldar lauk þurrkaskeiðinu og sléttan sýndi sitt rétta andlit eftir votviðrisdaga. Bændur sem urðu eftir í byggðunum á þurrkatímanum fóru smám saman að stækka við sig og snúa sér að akuryrkju. Þeir hvöttu ættingja og vini til að koma og setjast að í ört batnandi kringumstæðum í Saskatchewan. Eins höfðu þeir samband við brottflutta og hvöttu þá til að hugleiða endurkomu í byggðirnar. Nýju landnemarnir settust að í byggð meðal bænda með mikla reynslu, þeir komu á land sem búið var að brjóta í flestum tilfellum, erfiðisvinna frumbýlingsins  var að baki. Á tímabilinu 1900-1914 settust tæplega 30 bændur að í Þingvalla- og Lögbergsbyggð.

Myndin sýnir hús sem Jón Gíslason úr Dalasýslu reisti árið 1911. Yst sér í bjálkahúsið sem Jón byggði þegar hann kom í byggðina árið 1903.