Heklu- og Hólarbyggð

Vesturfarar

Tvær frekar litlar byggðir mynduðust suður og vestur af Leslie. Önnur kennd við eldfjallið Heklu en hin hét Hólarbyggð líkt og byggðin suður í Qu´Apelle dal. Þegar tímar liður runnu þær saman í eina og má segja að þær hafi hluti af Foam Lake, Leslie og Elfros byggðum, íbúar sóttu vistir og þjónustu í það þorp sem næst var. Fjöldi landnema hvorrar byggðar var rúmlega tuttugu, mest fjölskyldur en í báðum fáeinir einstaklingar. Landið var nánast eins í báðum, ójafnt yfirborð, sums staðar dældir umgirtar hæðum og hólum, gróðurfar mikið gras, víða lágvaxið kjarr og kjarrskógur. Þess háttar land er erfitt að brjóta og því einkenndust jarðir bænda á litlum ökrum en bærilegum bithögum. Þetta kom sér vel á miklu þurrkaskeiði á 4. áratug 20. aldar. Þá náðist nægilegt hey handa skepnunum og drógu bændur fram lífið með gripunum.

Heklubyggð: Heklubyggðin er nánast beint suður af Leslie og í henni miðri reis skóli árið 1908 sem bar nafn byggðarinnar og hét Hekluskóli. Var hann jafnframt samkomuhús byggðarinnar. Fyrstu landnemarnir komu í byggðina árið 1904 og voru það þrjár fjölskyldur. Bjarni Guðmundsson og Ingibjörg Jónsdóttir úr Árnessýslu, Jóhannes Pálsson og Elísabet Snorradóttir úr Borgarfirði og ekkjan Arndís Sigurðardóttir úr Gullbringusýslu. Hún kom þangað með sonum sínum, Ólafi, Ellert (Ellent), Stefáni Guðmann og Ingvari. Sá síðastnefndi settist að í Foam Lake, hinir námu allir lönd í byggðinni. Það gerði enn einn sonur Arndísar, Ögmundur sem nam land norðar og vestar. Á næstu árum bættust fleiri fjölskyldur og einstaklingar í hóp landnema.

Hólarbyggð: Í þessa byggð komu flestir landnemar árið 1905, 9 fjölskyldur og 5 einstaklingar, aðrir bættust við ári, 7 fjölskyldur og 2 einstaklingar. Hér var reist pósthús, Hólar Post Office og norður af því reis Walhalla skóli. Hér var myndaður söfnuður og voru messur sungnar í skólanum. Þar voru líka tónleikar og leiksýningar. Einn merkasti landnámsmaður í Hólarbyggð er eflaust Valdimar Jakobsson (Walter J. Lindal) en hann flutti vestur, ársgamall, með móður sinni Hólmfríði Önnu Hannesdóttur árið 1888 en faðir hans Jakob L. Hansson fór árið áður. Valdimar bjá hjá foreldrum sínum fram yfir aldamót en réðst í landnámið árið 1905. Vann á landi sínu á sumrin og gat greitt fyrir framhaldsnám sitt sjálfur. Hann varð þekktur lögfræðingur og dómari. Meðal annarra landnema má nefna Ágúst Árnason og Sigurveig Þorláksdóttir úr N. Þingeyjarsýslu sem vestur flutti árið 1905, Arnljótur Kristjánsson úr Skagafirði sem flutti vestur til Winnipeg árið 1899 og Árni Torfason og Sigríður Hákonardóttir sem fluttu vestur úr Fáskrúðsfirði árið 1903.