Kandahar/Dafoebyggð

Vesturfarar

Sunnan við Big Quill Lake er Kandahar þorp svo nefnt seint á 19. öld af starfsmönnum Canadian Pacific Railway (C.P.R.) félagsins eftir frækinn sigur Breta í Afghanistan. Þorpið var eitt minnsta í Vatnabyggð og voru íbúar þorpsins ætíð taldir sem íbúar Big Quill sýslu, ekki þorpsins. Tveir Íslendingar, Kristján Jónsson, sonur Jóns Hjálmarssonar og Önnu Kristjánsdóttur og Torfi Steinsson frá Akureyri og kona hans, Kristrún Pálína Jónsdóttir fóru úr Argylebyggð í Manitoba árið 1910 og settust að í Kandahar. Þar opnuðu Jón og Torfi verslun skömmu seinna og ráku til ársins 1921.

Íslenskt landnám: Landið vestan við Wynyard breyttist smám saman í víðáttu mikla sléttu, nánast skóglausa með stöku gilskorningum hér og hvar. Hingað leituðu þeir sem kusu akuryrkju frekar en blandaðan búskap. Íslendingarnir í Argylebyggð í Manitoba og íslensku byggðunum umhverfis Mountain í N. Dakota höfðu margir hverjir náð tökum á kornrækt og því leituðu þeir vestur á þessa miklu sléttu í Vatnabyggð. Gallinn við þess konar landbúnað er að á þurrkaskeiðum mistókst kornræktin nær undantekningalaust. Fyrstu Íslendingarnir komu í byggðina árið 1905, voru það synir Björns Sigvaldasonar úr Húnavatnssýslu, landnámsmanns í N. Dakota,  þeir Arinbjörn, Björn, Eggert og Jóhann. Steingrímur Jónsson, sonur Jóns Rögnvaldssonar og Guðleifar Ólafsdóttur sem vestur fluttu frá Mýri í Bárðardal árið 1889, kom í byggðina sama ár, hann hafði verið bóndi nærri Winnipeg ein tíu ár. Steingrímur Jónsson úr Ljósavatnshreppi settist að ásamt sonum sínum, Þorsteini, Pétri og Jóni á sitt land 17. maí, 1905, sama gerðu synir hans, allir landnámsmenn í byggðinni. Frá N. Dakota komu fleiri, Páll Eyjólfsson úr Reyðarfirði og Björn Jósefsson og synir hans, Benedikt og Guðmundur. Þessir upptaldir að ofan námu allir land austan við Kandahar.                                                                                  Árni Stefánsson fór fyrstur Íslendinga vestur fyrir Kandahar og nam þar lönd handa sjálfum sér, föður sínum, Stefáni Jónssyni svo og Kristjáni mági sínum, Jóni bróður sínum og Haraldi hálfbróður sínum. Á næstu árum fjölgaði mjög og komu flestir landnemar úr Argylebyggð. Þar höfðu sumir búið allmörg ár og kunnu vel til verka. Var stundum talað um Argyleáhrif í Kandaharbyggðinni. Synir Jóhannesar Ólafssonar úr Þingum í Húnavatnssýslu, þeir Bjarni og Guðlaugur námu lönd um 8 km suður af Dafoe, það gerði Jóhannes reyndar líka árið 1909 en hvarf af því og fór til baka í Nýja Ísland. Kona hans, Margrét bjó hjá Guðlaugi syni þeirra.