Kristnesbyggð

Vesturfarar

Landnámi Íslendinga í Norðvesturhéraði því sem varð Saskatchewan árið 1905 er oft skipt í tvö tímabil. Hið fyrra hófst árið 1887 og lauk um aldamótin með landnáminu við Foam Lake. Þorri íslenskra landnámsmanna á fyrra tímabilinu kom þangað beint frá Íslandi, stundum eftir einhverja dvöl í Winnipeg. Seinna tímabilið hófst árið 1900 með vaxandi fjölda landnema sem komu úr íslenskum byggðum í Manitoba, Minnesota og N. Dakota. Þessir áttu það sameiginlegt að hafa alist upp eða fæðst í þessum byggðum frá upphafi vesturfaratímabilsins, voru nú komnir með fjölskyldu en fundu hvergi land í heimbyggðinni til að hefja búskap og fluttu því vestur. Járnbrautarfélögin C.P.R og C.N.R. voru kominn inn á Norðvesturhéraðið, C.N.R lagði sína braut til Wadena árið 1904 og C.P.R brautina um Foam Lake árið 1907. Íslendingar áttuðu sig smám saman á því að blandaður búskapur hentaði þeim best og völdu svæði til landnáms með það í huga.  Segja má að þetta sjónarmið hafi ráðið valinu á landnámssvæði í N. Dakota upp úr 1880, í Argylebyggð í Manitoba um svipað leyti og svo í Þingvallabyggð í lok áratugarins. Tómas Þórðarson (Thomas Paulson) úr Eyjafirði, sonur Þórðar Pálssonar sem lengi bjó á Hólum í Öxnadal, settist að í Þingvallabyggð árið 1889 og 1898 í byggðinni við Foam Lake. Hann var ráðinn umboðsmaður Kanadastjórnar til að leiðbeina íslenskum landnemum við landnám á nýju svæði vestur og norður af Foam Lake. Hann var vandanum vaxinn, fyrst og fremst vegna þess að hann sjálfur hafði reynslu á landnámi á tveimur stöðum í Norðvesturhéraðinu. Hann hafði tvennt að leiðarljósi; annars vegar skyldu Íslendingarnir setjast sem flestir að á sömu slóðum svo til yrði íslensk byggð. Með því varðveittist íslensk arfleifð og íslensk tunga. Til voru Íslendingar, leiðtogar sem töldu hins vegar farsælast af Íslendingum að setjast sem allra fyrst að innan um landnema af ólíkum uppruna, blandast sem fyrst til að verða fyrr nýtir, kanadískir þegnar. Hins vegar kappkostaði hann að brýna fyrir löndum sínum að leggja stund á blandaðan búskap. Tómas vissi vel um gríðarlega opið svæði vestur af Kandahar, sem var kjörið fyrir akuryrkju en í stað þess að beina þeim þangað þá benti hann á öldótt svæði þar sem skiptust á flatlendi með góðu grasi umvafið runnavöxnum kömbum þar sem háar aspir veittu skjöl og voru hvorttveggja til húsbygginga og eldiviðar. Flestir hlýddu ráðum Tómasar, það voru helst þeir sem komu frá Argylebyggð sem fóru sínar leiðir með landnám.  Stundum var Tómas gagnrýndur fyrir þetta, sérstaklega þegar vitað var að vinna við að brjóta land var miklu auðveldari á sléttunni vestur af Kandahar en á nýja svæðinu vestur og norður af Foam Lake. Hann vissi hvað hann söng og margir nutu góðs af ráðleggingum hans á þurrkatímunum miklu upp úr 1930, þegar vel mátti halda bústofni lifandi en allt korn á sléttunni skrælnaði og menn urðu öreigar.

Íslenkt landnám: Jón Sigfússon Thorlacius, sonur séra Sigfúsar Einarssonar Thorlaciusar á Núpufelli í Eyjafirði kom fyrstur Íslendinga á nýja svæðið árið 1903. Hann valdi sér land, byggði hús og kom sér vel fyrir. Ári seinna var opnað pósthús á heimili hans og kallaði hann það Kristnes. Rak hann það í nokkur ár. Sama ár kom Jónas Samsonarson (Jonas Samson) og valdi land skammt frá Kristnesi. Hann opnaði þar seinna litla verslun og að nokkrum árum liðnum tók hann við pósthúsinu. Tómas Tómasson Hördal (Hordal) frá Ketilstöðum í Hörðudal, sem vestur flutti árið 1887 með konu sinni, Margréti Benediktsdóttur  og dætrum og bjó í N. Dakota til ársins 1903 settist þá að í Kristnesbyggð og hóf búskap. Hann var járnsmiður og opnaði verkstæði á landi sínu og rak um árabil. Bræðurnir Friðrik (Fred E. Vatnsdal) og Þórður (Thomas Vatnsdal) Eggertssynir úr Barðastrandarsýslu opnuðu almenna verslun og timbursölu í þorpinu Wadena og seinna gekk Ingvar Ólafsson úr Árnessýslu í lið með þeim. Hann færði sig seinna um set, opnaði verslun í Foam Lake og bjó þar. Pétur Nikulásson (Peter N. Johnson) úr N. Múlasýslu hóf gripasölu í byggðinni og vegnaði vel. Gripina keypti hann af bændum í Manitoba og flutti í byggðina. Árið 1908 var eftirminnilegt því hann kom með fjölda gripa með lest á endastöðina í Leslie og seldust þeir nánast allir á lestarstöðinni, slík var eftirspurnin.  Skólahérað var myndað árið 1905 og hét það Akra Skólahérað (Akra School District No.1267) en nafninu var breytt við stækkun héraðsins árið 1908 og kallaðist nú Krsitnes Skólahérað (Kristnes School District No.1267). Þorvaldur Þorvaldsson frá Kelduskógum á Berufjarðarströnd sat í skólaráði í allmörg ár en hann og kona hans, Gróa Jónsdóttir námu land í byggðinni árið 1903.

Bærinn Wadena var gefið þetta nafn að skandinavískum innflytjendum frá Wadena í Minnesota. Bærinn í Minnesota fékk hins vegar nafn eins höfðingja Chippewa/ Saulteaux. Myndin sýnir bæinn um vetur á fyrsta áratug 20. aldar. Þarna má sjá sleða hlaðna vistum sem uxar eða hestar draga.