Mozartbyggð

Vesturfarar

Merki Mozart þorpsins

Mozart nafnið er þannig tilkomið að starfsmenn C.P.R. fyrirtækisins unnu við undirbúning á fremlengingu járnbrautarinna frá Elfros áfram vestur fengu gistingu hjá norskum bónda, Olaf Lund skammt frá þar sem þorpið seinna var staðsett. Þeim þótti gott að dvelja hjá hjónunum og í þakklætisskyni báðu þeir eiginkonuna, Julia Lund, um nafn á staðinn. Hún lagði til Mozart og bætti svo við fjórum nöfnum á væntanleg stræti í þorpinu, Schubert, Wagner, Hydn og Liszt.

Fyrstu Íslendingarnir: Jón Sigurðsson Laxdal úr Húnavatnssýslu var einn fyrsti landneminn í Mozart héraði. Hann hafði búið nærri Morden í Manitoba á heimilisréttarlandi sín ein fjögur ár en 1903 keypti hann land vestur af Elfros. Fjórir, ungir kunningjar hans í Morden héraðinu gáfu honum leyfi til að velja lönd fyrir þeirra hönd. Þessir voru Jónas Tómasson úr Eyjafirði, Jóhann Pálsson, sem vestur fór úr Eyjafjarðarsýslu árið 1902 og svo bræðurnir Jón Egill og Axel Ágústssynir sömuleiðis úr Eyjafjarðarsýslu. Jón stóð við sitt og valdi lönd fyrir þá alla. Vorið 1904 fóru Jónas, Jón Egill og Axel norður með fjóra uxa. Friðrik Guðmundsson skráði sögu Vatnabyggða og kom fyrsti þáttur hans í Almanakinu árið 1917. Þetta skrifaði hann um þá félaga:,,Þeir settust að á löndum sínum, bygðu fyrst loggakofa sinn á hverju landshorni í miðri sectioninni; svo brutu þeir í félagi á þremur löndunum alt hvað þeir gátu. Um haustið, þegar kornskera byrjaði, fóru þeir austur og unnu þar við uppskeru og þreskingu“. Austur í texta Friðriks merkir til Morden í Manitoba og þar bersýnilega dvöldu þeir því áfram heldur Friðrik og segir:,, Veturinn 1905 á útmánuðum bjuggust þeir félagar norðvestur aftur og þá ætlaði Jóhann Pálsson með þeim til að byggja og vinna á sínu landi; en hann dó nokkru áður en förinni var heitið. Var þá skrifað heim til Íslands, Páli Jóhannssyni föður hins látna, hann, sem einka erfingi sonar síns, beðinn að gera ráðstöfun að landinu. Páll skrifaði aftur og gaf Páli Tómassyni bróðursyni sínum rétt óskertan til lands þessa. En um þær mundir er þetta svar kom að heiman, var Páll svo bundinn við ýms störf og fyrirætlanir í Morden-nýlendunni og suður í Dakota, að hann gat með engu móti farið norðvestur til að setjast þar að. Fól hann því Jónasi bróður sínum alla umsjá yfir landinu. Fórst honum það drengilega. Hann fékk menn til að brjóta og gera lögboðin skylduverk. Sumarið 1907 bygði hann á landinu hús með hallþaki og fjós úr loggum og inngyrti akurbletti þá, er þá var búið að brjóta og sá í“.  Friðrik útskýrir hér hvaða skilyrðum þurfti að mæta til að fá ókeypis heimilisréttarland. Íbúðarhús (kofa oftast) varð að reisa, hreinsa þurfti land og koma því í rækt, hugmyndin að baki ókeypis landi var auðvitað sú að á því yrði búið og var ákveðinn frestur gefinn til að undirbúa búsetu. Sennilega verður að telja Magnús Guðmundsson frá Halldórsstöðum í Laxárdal einn víðförlasta vesturfarann. Hann lagði af stap frá Rio de Janeiro 14. júlí í Brasilíu árið 1904 en þangað fór hann árið 1873 og steig á land sitt nærri Mozart í september, sama ár. Fleiri bættust smám saman við hópinn og munu alls 62 fjölskyldur og einstaklingar hafa sest að í Mozart byggð, þorpið meðtalið.

Félagslíf-samfélagsandi: Lestin kom í byggðina árið 1909 og þorp um lestarstöðina reis. Þorpið varð aldrei stórt og keppti ekki við Elfros eða Wynyard í verslun og viðskiptum en Íslendingar ráku verslanir og ýmsar þjónustur í þorpinu. Kvenfélag var stofnað svo og stúka góðtemplara og saman byggðu þessi félög samkomuhús sem var mikið notað. Kvenfélagið starfaði mikið, óháð öllum stofnunum svo sem söfnuði en kom iðulega að þegar þörf var á. Í þorpinu var myndað bókasafn sem óx hratt og naut mikilla vinsælda. Samheldnin frá upphafi var mikil og þessi byggð er prýðilegt dæmi um hvernig nýkomnir af Íslandi og hinir sem dvalið höfðu í einhverri íslenskri byggð einhver ár, sumir áratugi. Hinir nýkomnu högnuðust á þekkingu hinna og reynslu við akuryrkju og kvikfjárrækt, hinir sem fyrir voru fengu nýtt blóð, nýjar sálir frá Íslandi sem áttu gríðarlega mikinn þátt í viðhaldi íslenskrar arfleifðar vestra.

Myndin sýnir smáþorpið Mozart og umhverfi þess. Fremst sjást járnbrautavagnar, þá þjóðvegurinn og við hann verslanir og þjónustur. Myndin sýnir þessa miklu flatneskju, hvernig hún skiptist í akra, tún og skóglendi. Mynd McDougall Mozart Saskatchewan Photos Google.