Wynyardbyggð.
Síðla sumars árið 1904 komu fjórar fjölskyldur á landið sem kallast í dag Wynyardbyggð. Ólafur Stefánsson flutti vestur frá Íslandi árið 1898 og fór til Norður Dakota og þaðan í Vatnabyggðina. Magnús G. Ísfeld kom með stóra fjölskyldu frá Brasilíu og valdi land miðja vegu milli Mozart og Wynyard, Guðmundur Þórarinsson og Jón Jónsson komu frá Winnipeg og var sonur Jóns, Jón F. föður sínum samferða. Allir hófust strax handa við að reisa kofa og afla heyja fyrir skepnurnar.
Allir höfðu einhverja reynslu, höfðu annað hvort numið land áður eða unnið við landbúnað vestra en því var ekki fyrir að fara með Jón Jónsson Westdal sem kom með konu sína og fjögur börn frá Íslandi þetta sumar og hélt beint vestur frá Winnipeg og steig á land sitt í hinni ungu byggð í nóvember. Um þann atburð skrifaði Ólafur O Magnússon í Almanakið árið 1850: bls. 37.,, Eftir stutta dvöl í Winnipeg og í Argyle komu þau hingað vestur og náðu hingað 14. nóv. Það þarf áræði og kjark til að setjast að úti í eyðimörk í ókunnu landi og ganga á hólm við canadiskan vetur, húsnæðislaus með konu og börn. Þó bætti það úr, að börnin voru sum að verða fullorðin og hin orðin það. Fyrsta verkið var að koma upp einhverju skýli. Var það gjört eftir íslenzku bæjarsniði, stungið upp torf og reft yfir með skógrenglum. En aðal máttarviðinn urðu þeir að bera langar leiðir, því að engin voru akneytin.“
Um haustið , þetta sama ár, komu fimm ungir menn frá N. Dakota, þeirra á meðal voru þrír bræður, Steingrímur, Kristinn og Jón Brynjólfssynir, allir einhleypir sem unnu vasklega strax við komuna við að reisa kofa. Hinir voru Jónas Ólafur Jóhannesson (Ole J. Jónasson) sonur Jóhannesar Jónassonar úr Skagafirði og Sigurjón Jónsson (Sigurjon J. Wium) sonur Jóns Björnssonar og Guðrúnar Jónsdóttur sem fóru vestur til Manitoba árið 1876 og komu þeir með skepnur með sér, nautgripi og hross. Þeir höfðu komið um sumarið til að heyja og lögðu allt kapp á að reisa kofa handa skepnunum en grófu sig inn í hæð, tjölduðu yfir og þöktu seglið með snjó og bjuggu þar yfir veturinn.
Um aldamótin var öllum ljóst í íslensku byggðunum í N. Dakota að þar var orðið of mannmargt, ekkert land þar að hafa og sumar jarðir dugðu ekki til að brauðfæða mannskapinn sem þar reyndi að draga fram lífið. Fregnir höfðu borist frá Kanada um að land væri að opnast á kanadísku sléttunni vestur af Manitoba. Fundir voru haldnir og var samþykkt að velja menn í landkönnunarnefnd sem skyldi ferðast norður á umrætt svæði. Fyrir nefndinni fór Halldór Jónatansson og með honum voru Óli J. Halldórsson, sonur Jóhannesar Halldórssonar og Önnu Sigurðardóttur, Ólafur Oddsson, sonur Odds Magnússonar úr Dalasýslu, Ásgeir Guðjónsson úr Kvígyndisdal í S. Þingeyjarsýslu og Bjarni Friðriksson, sonur Friðriks Bjarnasonar úr Húnavatnssýslu. Stefnan var tekin á Foam Lake og þegar þangað var komið hittu ferðalangar Tómas Þórðarson, umboðsmann Kanadastjórnar og ráðgjafa íslenskra landnámsmanna á þessu nýja svæði. Hann benti þeim á svæði við suðaustanvert Big Quill Lake og eftir drjúga skoðun völdu þeir allstórt svæði sunnan við Little Quill Lake og austan við Big Quill Lake. Það reis nokkuð hærra en landið vestur af og hentaði því í þeirra augum betur fyrir blandaðan búskap. Þeir komu við á skrifstofu stjórnvalda í bænum Yorkton og settu nöfn sín á þau lönd sem þeir kusu sjálfum sér og bættu síðan við nöfnum vina og vandamanna á önnur lönd í nýju byggðinni.
Þeir komu til baka í heimahagana og áttu vart nógu mörg orð til að lýsa ágæti svæðisins nýja í Kanada. Haustið leið í N. Dakota og vetur gekk í garð. Bændur sem norður ætluðu notuðu tímann vel og undirbjuggu flutninginn. Um vorið kom í ljós að íbúar sem ætluðu burt færu í tveimur hópum. Sá fyrri færi sumarið 1905 en hinn ári seinna. Til flutninganna var leigð sérstök lest C.N.R. járnbrautafélagsins kanadíska. Tveir fremstu vagnar voru ætlaðir fólki og aðrir 36 skepnum og ýmsum varningi. Lestin flutti fólk, skepnur og varning til Wadena, lítils þorps við enda járnbrautarinnar norður og austur af fyrirhuguðu landnámi. Frá Wadena þurfti fólkið að bera farangur sinn og reka skepnur á undan sér og var vegalengdin tæplega 50 kílómetrar. Ári seinna flutti sama lest seinni hópinn frá N. Dakota og nú náðu teinar C.N.R. járnbrautarinnar til Quill Lakes, brautarstöðvar milli vatnanna stóru. Landnemar þurftu að fara tæplega 40 km leið milli vatnanna suður í nýlenduna. Þetta var 10 km styttri leið en miklu erfiðari því á einum stað milli vatnanna þornaði jarðvegurinn ekki alveg á sumrin og myndaðist þar ansi erfitt eðjusvæði. Plankar voru lagðir þvert yfir svæðið og milli þeirra borð, eins konar brú sem sökk eitt eða tvö fet ofan í leirkenndan jarðveginn og í gegnum þetta svæði. Uxar drógu vagna hlöðnum konum og börnum í gegnum svæðið en karlmenn báru varninginn. Sums staðar var eðjan í hné en viljinn var til staðar og á leiðarenda ætlaði hópurinn hvað sem það kostaði.
Segja má að þessi byggð hafi orðið til sama ár og Saskatchewan varð til sem eitt fylki Kanada 1. september, 1905. Halldór J. Halldórsson hlýtur að teljast faðir nýlendunnar því hann fór fyrir nefndinni frá N. Dakota sem valdi svæðið. Hann var líka fljótur fyrsta árið þegar nýlendubúar kepptust við að koma löndum sínum í gagnið og reisa íbúðarhús þá gerði hann gott betur því hann byggði líka verslun á sinni landareign og sótti um pósthúsleyfi. Nýja pósthúsið skyldi kallast Sleipnir og var það samþykkt. Þegar járnbrautarfélagið ákvað að brautarstöð skyldi reist í Wynyard og þar risi þorp þá flutti Halldór verslun sína og pósthúsið fimm kílómetra leið í þorpið. Hann kom byggingunni á vagn sem sautján uxar drógu og kom húsinu fyrir á góðum stað nærri brautarstöðinni. Um haustið árið 1906 voru tvö skólahéruð stofnuð, þriðja árið 1907 tvö önnur 1908 og loks Sleipnir skóli árið 1909.
Snemma kom í ljós að Wynyard þorpið yrði meira og mikilvægara en litlu þorpin hin sem risu umhverfis brautarstöðvar því þorpið var miðja vegu milli Bradenbury og Saskatoon. Fólk dreif að ekki aðeins í nýju byggðina heldur kom fólk af erlendum uppruna og kaus að setjast að í Wynyard. Íslendingar bjuggu á löndum sínum umhverfis þorpið og voru áberandi fjölmennastir í hverri sveit en í minnihluta í þorpinu.