Utah

Vesturfarar

 

Fremont Indian State Park and Museum | Sevier, UT 84766

Frá Fremont Indian State Park í Utah

Frumbyggjar í Ameríku löguðu sig að staðháttum og drógu fram lífið á ýmsan hátt. Svæðið sem seinna varð Utah var að mestu leyti eyðimörk en tveir ættbálkar stundum kenndir við Pueblo og Fremont deildu umræddu svæði og voru lífshættir að ýmsu leyti ólíkir. Pueblo hýbýli voru í hellum eða gjótum í klettum en Fremont byggðu strá- eða bjálkahús. Fyrstir Evrópubúa til að fara inn á svæðið voru Spánverjar á 16. öld og voru þeir tíðir gestir þar um slóðir næstu tvær aldirnar en aldrei settust þeir þar að. Það gerðu hins vegar aðrir frumbyggjar svo sem Navajo, Ute og Shoshone á 18. öld. Þessar þjóðir frumbyggja sættu sig ekki við komu evrópumanna á svæðið og ósjaldan urðu skærur fram á 19. öld og héldu frumbyggjar oftast sínu. Bandaríkin höfðu betur í stríðinu við Mexíkó árið 1848 og til var svonefnt Utah hérað (territory). Kortið sýnir héraðið svo og hugsanleg landamæri nýs ríkis, State of Desert eða ,,Eyðimerkurríki“ sem náði yfir hluta Nevada, Idaho, Wyoming, Colorado, New Mexico, Arizona og Kaliforníu. Ekki varð þetta ríki til í þessari mynd en um þær mundir sest að á svæðinu hópur trúbræðra,  Mormónar höfðu fundið fyrirheitna landið.

Mormónar: Í Bandaríkjunum var aldrei þjóðkirkja, heldur réðu innflytjendur sinni trúhneigð og urðu að stofna sína söfnuði sjálfir, reisa kirkjur og ráða presta. Sértrúarhópar í Evrópu fundur griðarstað í Ameríku, fengu að vera í friði bæði fyrir almenningi og stjórnvöldum. En trúfrelsi er vandmeðfarið og snemma á 19. öld, þegar straumur innflytjenda hófst til Bandaríkjanna frá Evrópu og fótuðu sig á austurströndinni fóru ýmsir, kristnir söfnuðir að deila um rétta kenningu. Þjóðkirkjan í heimalandinu í Evrópu var ekki lengur drottnandi, frelsið í Ameríku náði ekki bara yfir verklegar athafnir heldur og trúarskoðanir. Joseph nokkur Smith fæddist inn í þennan heim árið 1805 og vegna fátæktar og barnamergðar var skólaganga hans stutt. Helsta haldreipi foreldra hans við uppeldið var rík áhersla á lestur biblíunnar. Fjölskyldan bjó í Palmyra í New York ríki þar sem ýmis trúfélög og söfnuðir kepptust hvað mest við að ná til almennings með boðskap sinn. Einhver áhrif hafa slíkar væringjar haft á Joseph en hann stóðst allt áreiti. Saga Mormóna segir Guð og Jesú hafa birst Joseph þegar hann var á 15. ári og sagt honum að endurreisa hina einu sönnu kirkju Krists. Þetta gerði Joseph og til varð Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu. Joseph þurfti eðlilega að kynna söfnuð sinn, Mormónakirkjuna, og lenti fljótlega í deilum en söfnuður hans óx og dafnaði. Ástandið á austurströndinni varð til þess að Joseph leitaði vestur á bóginn og söfnuðurinn óx. Á árunum 1830-1831 varð til sú kenning að einhvers staðar í Ameríku væri fyrirheitna land Mormóna og setti Joseph upp bækistöð í Ohio þar sem hann var til ársins 1838. Leiðin til Utah var grýtt því á næstu árum urðu miklar sviptingar innan Mormónakirkjunnar svo og stöðugar erjur við önnur trúfélög og stjórnvöld. Joseph var svo tekinn af lífi án dóms og laga 27. júní, 1844 þegar æstur múgur réðst á fangelsið þar sem hann og bróðir hans biðu réttarhalda. Brigham Young tók við á erfiðum tímum í sögu kirkjunnar því nánast linnulausar ofsóknir gerðu Mormónum hvarvetna afar erfitt fyrir. Brigham hefur eflaust verið það löngu ljóst að Mormónakirkjan ætti hvergi griðarstað í austurhluta Bandaríkjanna og segir saga Mormóna að hann hafi fengið vitrun um að fyrirheitnalandið væri að finna á svæði sem tilheyrði Mexíkó. Nú skal farið hratt yfir sögu en fyrstu landnemar Mormóna komu í svonefndan Salt Lake dal 24. júlí, 1847. Bandaríkin lögðu norðurhluta Mexíkó undir sig árið 1848 og var Brigham gerður héraðsstjóri Utah héraðs (Utah Territory). Á árunum 1847-1869 er áætlað að liðlega 70.000 Mormónar hafi flust víðs vegar að til Utah og á sama tíma voru trúboðar að ferðast ekki aðeins um Bandaríkin heldur og til Evrópu.

Þórarinn Hafliðason drukknaði við  Vestmannaeyjar árið 1852. Mynd FoI

Trúboð – Upphafið á Íslandi: Leiðtogar Mormóna í Utah gerðu sér það strax grein fyrir því að mikið vinnuafl þurfti til að breyta eyðimörkinni í Utah í þann aldingarð sem til stóð að gera. Þrátt fyrir að hafa tekið með sér þræla svo og hneppt frumbyggja í héraðinu í þrældóm þurfti miklu fleiri. Það var því ekki aðeins ný trú sem trúboðar áttu að boða heldur og hvetja fólk til vesturfarar, í sælureit nýrrar veraldar þar sem allir væru jafnir í einni hjörð, hver með sína jörð. Í október, 1849 samþykktu leiðtogar Mormóna í Salt Lake City að senda trúboða til Evrópu. Einn skyldi annast Þýskaland og Austurríki, annar Ítalíu og Frakkland en þrír áttu að sjá um Norðurlönd, tveir skyldu annast Danmörku en einn Svíþjóð. Danskir bræður, Hans Christian og Peter O. Hansen komu mikið við sögu því annar þeirra þýddi Mormónabókina (Book of Mormon) yfir á dönsku og var það fyrsta þýðing þessa merka rits á annað tungumál. Trúboðarnir tveir í Danmörku voru Erastus Snow og hinn danski Peter O. Hansen og sá fyrrnefndi náði eyra Guðmundar Guðmundssonar, íslensks námsmanns í Kaupmannahöfn. Einar Hermann Jónsson (E. H. Johnson) úr Þistilfirði settist að í Spanish Fork í Utah árið 1890 og fékk fljótlega mikinn áhuga á sögu Íslendinga í Utah. Hann skrifaði grein um þetta grein í Almanakið sem birt var árið 1915. Þar segir hann; ,, Það verður því upphaf sögu vorrar hér, að í kring um árið 1850 voru tveir Íslendingar í Kaupmannahöfn að læra handiðn. Hétu þeir Þórarinn Hafliðason og Guðmundur Guðmundsson. Áttu þeir báðir heima í Vestmannaeyjum og hafa að öllum líkindum verið ættaðir þaðan, eða úr Landeyjunum. Hvort réttara er, veit eg ekki, en hitt er áreiðanlegt, að þeir voru í Höfn á þessu tímabili og tóku þar trú þá, sem nefnd er ,,Mormónska“, og Utah er nú á dögum nafnkendust fyrir. Ekki veit eg heldur, hvað lengi menn þessir dvöldu í Höfn; en Magnús Bjarnason getur þeirra í æfisögu sinni og segir, að það hafi verið um þær mundir, og að Þórarinn hafi verið sá fyrsti Íslendingur, sem tók trú Mormóna, og því réttnefndur faðir að þeim trúarbrögðum meðal Íslendinga. – Guðmundur Guðmundsson gullsmiður, og félagi Þórarins, sem síðar flutti til Utah, var sá næsti, og fóru þeir svo að því búnu heim til æskustövða sinna og tóku að boða hina nýju trú vinum sínum og ættifólki þar á eyjunum, sem í fyrstu gekk fremur tregt, en rættist þó dável fram úr með tíð og tíma og varð aðalega til þess að landar byrjuðu að flytja til Utah. Tvær eða þrjár fjölskyldur þar á eyjunum gengu strax inn á trú þessa, og úr þeim hópi var sá maðurinn, sem fyrstur Íslendinga flutti til Utah.“                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                               

Helga Jónsdóttir og Þórður Diðriksson Mynd Almanak 2015

Gröf Samúels í Spanish Fork í Utah Mynd FVTV

  Utahferðir hefjast : Þórður Diðriksson fæddist í Rangárvallasýslu 26. mars, 1828 og ólst upp í Landeyjum. Bróðir hans var Árni Diðriksson í  Stakkagerði í Vestmannaeyjum og mun Þórður hafa farið til hans árið 1849. Hann er því í Eyjum þegar trúbræðurnir Þórarinn Hafliðason og Guðmundur Guðmundsson koma þangað frá Kaupmannahöfn og hefja trúboð. Það var svo Loftur Jónsson í Stakkagerðir sem skírði Þórð 17. febrúar, 1855. Þórður sagði seinna að hann hefði strax hrifist af málflutningi tvímenninganna líkt og flestir aðrir er á þá hlýddu, hann hefði hlustað á þá þrívegis og fundið hvernig mál þeirra hreif hann. Hann háði þó innri baráttu því ef hann tæki þessa trú hvernig gæti hann þá lifað við alla þá fyrirlitningu, jafnvel hatur sem svo margir sýndu. Eflaust hefur þetta flýtt fyrir ákvörðun hans að fara úr landi og setjast að í Utah því í júlí sama ár sigldi Þórður til Kaupmannahafnar. Guðmundur Guðmundsson trúboði fór líka til Kaupmannahafnar þetta sumar og nærri áramótum verða þeir samferða vestur um haf og samkvæmt ferðasögu Þórðar komu þeir til New York annarri viku marsmánaðar árið 1856. (Sjá Íslensk Arfleifð Brot úr Ferðasögu Þórðar Diðrikssonar) Fleiri urðu fyrir svipuðum áhrifum og Þórður. Einn þeirra var Samúel Bjarnason í Kirkjubæ í Vestmannaeyjum og kona hans, Margrét Gísladóttir. Þau fóru til Kaupmannahafnar sumarið 1854 og var vinkona þeirra, Helga Jónsdóttir úr Landeyjum þeim samferða. Þau dvöldu eitthvað í Danmörku áður en þau fóru til Englands og stigu um borð í James Nesmith í Liverpool og sigldu þaðan brott 7. janúar, 1855. Þau komu til Salt Lake City í Utah 7. september, 1855 Helga varð eftir þar í borg en ráðamenn bentu Samúel á Spanish Fork vegna þess að þar voru þá fyrir allmargir, danskir mormónar. Þótti Brigham Young það skynsamlegt fyrir Íslendinga að setjast að innan um frændur frá Danmörku. Hjónin völdu sér lóð í suðausturhluta bæjarins og byggðu þar hús. Hann fékk úthlutaða bújörð, 160 ekrur og er með réttu talinn fyrsti, íslenski landnámsmaðurinn í Utah. Samúel efnaðist vel á búskapnum, stundaði mikla sauðfjárrækt.

Guðmundur á vinnustofu sinni í Utah. Mynd FVTV

Joseph Morris

Guðmundur Guðmundsson kynntist dönskum hjónum á leið sinni yfir Atlantshafið, þeim Niels og Marie Garff, sem einnig voru Mormónar á leiðinni til Utah. Þau komu til Bandaríkjanna, landleiðina til Iowa City í Iowa en auðnin frá Nebraska til Utah reyndist Niels og dóttur hans erfið, þau veiktust og dóu bæði í eyðimörkinni. Guðmundur lofaði Niels að hugsa um eiginkonuna og synina þrjá og stóð hann við það því hann kvæntist Marie í Salt Lake City 4. október, 1857. Þau komu sér fyrir í Spanish Fork til að byrja með en eftir tvö ár fóru þau til Salt Lake City þar sem Guðmundur opnaði vinnustofu. Hann kynntist norrænum Mormónum sem höfðu gengið til liðs við Joseph nokkurn Morris en sá fullyrti að Dómsdagur, endurkoma Krists væri að nálgast. Munu þeir hafa gengið af Mormónatrúnni. Guðmundur fór fyrir þessum hópi trúbræðra frá Norðurlöndunum, seldi hús sitt í Salt Lake City og settist að í Farmington.  Boðskapur Morrisites, eins og fylgjendur Joseph Morris voru kallaðir náði ekki vinsældum í Utah svo fór að  hreyfingin sundraðist, Joseph Morris féll í átökum og allmargir fygjendur hans voru handteknir, þeirra á meðal Guðmundur. Hann var dreginn fyrir dómara og ákærður fyrir að mótmæla handtöku með ósæmilegum hætti. Hann hlaut dóm og þurfti að greiða hundrað dollara sekt. Þau bjuggu áfram í Farmington en árið 1868 flutti Guðmundur með fjölskyldu sína til Sacramento í Kaliforníu til þess að finna lækningu fyrir Decan Westmorland, son Marie. Hafði sá átt við langvarandi veikindi að stríða en þarna hlaut hann meðferð sem dugði. Á meðan hann var að jafna sig gafst Guðmundi og Marie tækifæri til að hugleiða framtíðina, hún vildi ólm til baka til Utah svo Decan fengi blessun presta til að fullkomna batann. Guðmundur hafði áhyggjur af læknakostnaðinum, hugsaði með sér að hann yrði að vinna í Sacramento til að geta greitt læknum. En þá gerðist kraftaverk, Decan eignaðist vin og saman skoðuðu þeir gamla byggingu, hálfhrunda sögunarmillu en þar undir gólffjölum fundu þeir sekki fulla af peningum. Guðmundur tilkynnti fundinn yfirvöldum sem greiddu honum góð fundarlaun sem ekki aðeins dugðu til að greiða læknum heldur og kostnaðinn við að flytja til baka til Utah. Þau settust að í bænum Draper þar sem þau bjuggu í tvö ár áður en þau fluttu þá til Lehi. Guðmundur keypti hús, opnaði verslun og vann við gullsmíðar. Hann var tekinn í sátt og skírður að nýju í söfnuð Mormóna.

Þetta er hús Lofts Jónssonar byggt um 1860 í Spanish Fork. Fyrir framan sitja þrjár merkar konur: Margrét Gísladóttir, fyrsta íslenska konan í Utah er yst til hægri, við hennar hlið í miðju er Halldóra Árnadóttir kona Gísla Bjarnasonar sem fyrir aftan stendur. Hún var ekkja eftir Loft.  Guðrún Jónsdóttir, stjúpdóttir Lofts er þriðja konan. Mynd FVTV

Loftur Jónsson tók trú Mormóna árið 1853 í Vestmannaeyjum og tók þar við leiðtogastarfi Mormóna úr hendi Guðmundar Guðmundssonar. Árið 1857 lagði hann af stað til Utah með konu sína og tvö börn hennar. Þau komu til New York og fóru þaðan landleiðina til St.Louis. Þar kom í ljós að næsta skipulagða ferð til Utah yrði ekki á næstunni og því fann Loftur dvalarstað fyrir fjölskylduna og fann fljótlega vinnu við smíðar. Þótti hann jafngóður á tré og járn. Mikil uppbygging var í borginni og hafði Loftur nóg að gera og fékk vel greitt fyrir. Það var svo 13. júní, 1859 að þau lögðu af stað frá St. Louis í allfjölmennum hópi Mormóna af ýmsum þjóðernum. Föggur þeirra voru settar á handvagn sem Loftur dró. Vistir voru á 59 vögnum sem 104 uxapör drógu, hestar voru 11, mjólkurkýr 35 og 41 kálfur. Skrifaði Loftur seinna heim til Íslands og gat þess að vistir fyrir fjöldann hefðu verið nægar í 72 daga ferðalag. Þegar til Utah kom fóru Íslendingarnir allir til Spanish Fork sem þá var orðinn íslenskur ákvörðunarstaður. Líkt og flestir landar hans nam Loftur land og hóf búskap en aðalstarf hans var að reisa hús en mörg byggði hann ekki aðeins yfir landa sína heldur og annarra innflytjenda sem settust að í Spanish Fork. Loftur var gæddur leiðtogahæfileikum og naut hann þeirra fljótlega eftir komuna vestur. Hann var gerður að trúboða og fór í trúboðserindum til Íslands árið 1873. Með honum vestur árið 1857 fóru m.a. Jón Jónsson og kona hans, Anna Guðlaugsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, systir Jóns svo og Magnús Bjarnason og kona hans, Þuríður Magnúsdóttir. Ennfremur Guðný Erasmusdóttir, ekkja eftir Árna Hafliðason, bróður Þórarins. Loks skal nefna Vigdísi Björnsdóttur oft nefnd ,,íslenski læknirinn og ljósmóðirin“ í Spanish Fork. Hún hafði farið til Kaupmannahafnar og aflað sér menntunar lyflækningum og þegar til Utah kom leið ekki á löngu þar til kunnátta hennar kom barnshafandi konum vel. Segir sagan að hún hafi tekið á móti tugum barna í Utah, því síðasta þegar hún var komin á áttræðisaldur. Á næstu árum fóru engir vestur til Utah, þangað hófust ekki vesturfarir frá Íslandi fyrr en upp úr 1870.

Fjölkvæni: Stofnandi Mormónakirkjunnar, Joseph Smith, lögleitti fjölkvæni í kirkjunni upp úr 1830 og fljótlega tóku leiðtogar kirkjunar upp þann sið. Á árunum 1852 til 1890 er talið að allt að 30% karla í Mormónakirkjunni í Utah stunduðu fjölkvæni. Leiðtogar kirkjunnar töldu þetta sjálfsagt á grundvelli trúfrelsis en stjórnvöld í Bandaríkjunum voru á móti þessu og árið 1862 voru sett lög sem bönnuðu fjölkvæni í bandarískum yfirráðasvæðum. Utah var eitt þessara svæða en þar var Brigham Young héraðsstjóri og leiðtogi Mormónakirkjunnar. Lögin breyttu því engu í Utah og töldu Mormónar fyrstu grein stjórnarskrár Bandaríkjanna veita þeim fullan rétt á að stunda fjölkvæni. Árið 1879 var aftur úrskurðað í hæstarétti Bandaríkjanna að fjölkvæni væri ólöglegt, lög í landinu væru stjórnartæki og þótt þau gætu ekki bannað trúarbrögð þá gætu þau bannað ýmsar athafnir sem ekki gætu talist trúarlegs eðlis. Fjölkvæni í Utah hélt áfram en mikil andstaða gerði allar tilraunir leiðtoga Mormóna afar erfitt fyrir þegar þeir vildu styrkja tengsl við nágrannaríki. Um 1890 var ljóst að Utað gæti ekki orðið eitt ríkja Bandaríkjanna á meðan fjölkvæni viðgengist og gaf Wilford Woodruff, President of the Mormon Church , út tilskipun sem bannaði fjölkvæni. Tilskipunin breytti ekki hjúskaparstöðu þeirra manna í Utah sem stunduðu fjölkvæni en umræðan um gildi þess jókst innan kirkjunnar og það leiddi til batnandi samskipta. Það var svo árið 1896 að Utah varð eitt ríkja Bandaríkjanna en áfram var fjölkvæni eitthvað stundað. Nýr forseti Mormónakirkjunnar, Joseph F. Smith tók af skarið og gaf út nýja tilskipun árið 1904 sem bannaði fjölkvæni og voru viðurlög við broti á þessar tilskipun ævilöng útskúfu. Ekki gátu allir Mormónar fallist á þetta, sögðu sig úr Mormónakirkjunni í Utah og stofnuðu nýja söfnuði sem leyfðu fjölkvæni. Höfuðkirkja Mormóna í Utah hefur engin tengsla í dag við þess háttar söfnuði og hikar ekki við útskúfun brjóti menn gegn banninu. En hvernig ætli þetta hafi farið í Íslendinga vestra?

Upphafsárin í Utah:  Kringumstæður vesturferða íslenskra Mormóna voru um margt aðrar en landa þeirra sem settust að víðs vegar í Kanada og Bandaríkjunum á árunum 1970-1914. Íslenskir Mormónar voru hvattir til að flytja til Utah af trúbræðrum, þar beið þeirra sæluríki kirkjunnar, trúfélag sem hafði sín lög og sínar reglur. ÞÞÞ segir á einum stað:,, Þó að Íslendingar í Utah ættu í fyrstu erfitt á margan hátt eins og flestir þeir, sem setja sig niður allslausir meðal erlendra þjóða, þá leið enginn þeirra harðrétti. Og sökum hinnar nýju trúar sinnar, sem þeir ræktu í samfélagi við trúbræðurna, sem fyrir voru, verða þeir minni útlendingar en ella, og mikið fljótar tengdir landi og lýð en allur þorri aðal-útflutningsins eftir 1870..“ (SÍV II, bls. 18) Ennfremur skrifar ÞÞÞ:,,Vegna ýmsra siða sinna, alls konar vana og jafnvel kækja, sem á þeim tímum voru ekki ótíðir á Íslandi, og síns íslenzka klæðnaðar, þótti þeim sem fyrir voru í Spanish Fork og búnir að koma sér þar betur fyrir, Íslendingarnir mjög einkennilegir. Drógu þeir dár að þeim og höfðu þá að athlægi fyrst í stað. En með iðni og þrautseigju komu þeir sér brátt upp betri heimkynnum. Klæði þeirra og ýmsir siðir að heiman snerust með árunum í Utah-tízku. Var þá ekki lengur leiðum að líkjast. Samt mun fyrsta kynslóðin hafa þótt nokkuð fastheldin við íslenzka siði, þrátt fyrir sína nýju trú.“ Allir íslenskir Mormónar kynntust hvers kyns andúð og fyrirlitningu um leið og þeir tóku nýja trú, að kasta feðratrúnni fyrir útlenska jaðraði við landráð. Með þessa fyrirlitningu og andúð flutti fólkið til framandi lands í samfélag sem í fyrstu leit það hornauga. En trú þeirra flestra var sterk og með hana að leiðarljósi komust frumherjarnir í gegnum frumbýlingsárin, ,,þannig á ung trú oftast meiri lífsmátt í sér fólginn en gömul trú, jafnvel þótt hún að dómi almennings standi í mörgu að baki hinnar eldri… Mormónar lifa betur eftir trú sinni en t.d. við, sem alin eru upp í lúterskri kristni. Þeir eru félagslyndari innbyrðis og hjálpsamari hver við annan…En eðlilegt og auðskilið er það hugarfar lúterskra forfeðra okkar heima og vestan hafs, sem birtist í úlfúð og fyrirlitningu á fjölkvæni þeirra og öðrum trúar nýmælum Mormóna, sem brutu algerlega í bág við stundlegt velsæmi hérna megin og eilífa sáluhjálp hinu megin.“ (SÍV II bls. 19) Alveg er ljóst að íslenskar konur sem vestur fóru með mönnum sínum, áttu stundum erfitt þegar þeir kvæntust annarri konu, eða jafnvel konum í Utah. Leiðtogar Mormóna sögðu að konur væru ómissandi fyrir bændur, þær væru ,,lífið og sálin í nýlendu-búskapnum í Utah’‘ (SÍV II, bls. 19).

Andúðin vestanhafs. Um miðja 19. öld var leiðtogum Mormóna ljóst að ekkert ríki Bandaríkjanna tæki þeim vel og veittu þeim griðarstað með sína trú og siði. Þess vegna leituðu þeir lengra vestur og stofnuðu sitt ríki á svæði sem seinna var innlimað í Bandaríkin. Landfræðilega var Utah langt frá Wisconsin, Minnesota og N. Dakota svo og í Manitoba í Kanada þar sem Íslendingar, aðrir en Mormónar, settust að á árunum 1870-1890. Á þessu tímabili var lítið sem ekkert samband haft við Íslendingana í Utah, sjaldan birtust fregnir af þeim í vesturíslenskum blöðum í Minnesota eða Winnipeg, hvað þá að gagnkvæmar heimsóknir ættu sér stað. Það var engu líkara en íslenskir Mormónar hefðu rofið öll tengsl við land og þjóð og þeir sem vestur fóru vildu helst ekkert kannast við að landar þeirra einhverjir hefðu sest að í Utah. Gott dæmi um æsing ,,norðurbúa“ eins og Mormónar kölluðu stundum landa sína í áðurnefndum ríkjum og fylkjum var tilraun íslenskra trúboða sem heimsóttu landa sína í N. Dakota og Manitoba. Séra Friðrik J. Bergmann skrifaði um þetta í Almanakið árið 1903 og segir: ,, Sumarið 1879 voru íslenskir Mormónatrúboðar á ferðinni og fóru með æsingar miklar bæði niðri í Nýja Íslandi og í Winnipeg. Þetta sumar hefir ,,Framfari“ greinar meðferðis um Mormónavilluna. Var þá af einhverjum skorað á síra Jón Bjarnason að taka til máls opinberlega gegn þeim. En hann álítur enga ástæðu til þess, og segist ekki gjöra það, nema kristileg hyggindi bjóði sér það. Ekki var laust við, að til væru þeir í Winnipeg, sem fremur hölluðust að kenningu þeirra, þó ekki yrði þeim mikið ágengt. En segja má það Winnipeg-Íslendingum til lofs, að þeir veittu yfirleitt villikenning þeirra öfluga mótspyrnu, svo þeir urðu frá að hverfa við svo-búið. Í Nýja Íslandi tóku menn sig saman um að leyfa þeim ekki að prédika í húsum sínum og hlýða ekki á rugl þeirra. Voru þar samtök um þetta bæði í söfnuðum síra Jóns Bjarnasonar og síra Páls Þorlákssonar, og í Winnipeg var þeim hálfgerður aðsúgur gjör, svo þeir fengu ekki haldist við og engu til leiðar komið. Auk þess, sem Winnipeg-Íslendingum var ant um að aftra löndum sínum frá því að lenda út í slíka villu, vissu þeir, að það mundi öllum þjóðflokki vorum til hinnar mestu hneisu í augum innlendra manna, ef það kæmist upp um þá, að Mormónavillan hefði marga áhangendur meðal þeirra.“  

Einar Hermann Jónsson Mynd Almanak 1916

Íslensk þjóðrækni: Þessi ríka andúð á Mormónum í hinum ýmsu, íslensku byggðum vestra, varð auðvitað til þess að lítið sem ekkert gert sameiginlega til að styrkja íslenska arfleifð í Vesturheimi. Fyrsta kynslóð íslenskra Mormóna reyndi hvað hún gat til að varðveita málið svo og ýmsa þjóðhætti, hún kenndi börnum sínum málið, sögu og menningu. Samkomuhús var snemma byggt í Spanish Fork og þar haldnar íslenskar samkomur Stofnað var þjóðmenningarfélag, sem hélt Íslendingadag 2. ágúst árlega frá 1897 til 1903 og um sama leyti var stofnað lestrarfélag sem lifði lengur og átti eitthvað á annað hundrað bækur þegar mest var en árið 1915 voru félagsmenn fáir og félagið fátækt. Vafalaust hafa hagyrðingar, jafnvel skáld verið meðal þeirra íslensku Mormóna sem fluttu til Utah en hvert ætti yrkisefnið að vera og fyrir hvern er ort eða skrifað?  Að ofan kom fram að Einar Hermann Jónsson (E.H. Johnson í Utah) hafi skrifað nokkurskonar lannámssögu Íslendinga í Utah og var hún birt í Almanakinu árið 1915. Fljótlega eftir að hún birtist fór að bera á gagnrýni á skrif hans, helst þótti hann fara illa að ráði sínu þegar hann fjallar um íslenska landnámsmenn og fjölskyldur þeirra. Á einum stað í riti sínu segir ÞÞÞ þetta þegar hann hefur kynnt verk Einars: ,, Eru það mestu heimildirnar um Utah-fara, sem ég hefi yfir að ráða þegar þetta er skrifað (febr. 1940). – Þar segir að vísu ekki, að þetta hafi verið fjölskyldur, því sagan minnist nær því aldrei, að konur hafi flutt til Utah, heldur eintómir karlar. Engra barna er þar heldur getið að jafnaði, hvorki þeirra, sem fæddust á Íslandi eða vestra. Þó er getið um konur þessara manna  og hvaðan þær eru ættaðar, en aldrei að kalla má á það minst, hvoru megin hafsins þær hafa gifst, eða hvaðan þær hafi komið til Utah.“ (SÍV I, bls.113) Á öðrum stað segir hann:,, Rétt er máske einnig að geta þess, að í Utah- sögunni sleppir Einar H. Johnson öllum konum, sem í gamla daga í Utah giftust þeim mönnum, sem kvæntir voru fyrir, þótt hann kinoki sér ekki við að nefna nöfn Fjölkvænismannanna, er kvæntust þessum konum, og telja þá góða og gilda samborgara sína og meðbræður.“ Vitnar hann í somu grein í bréf og segir þarum:,, Skrifar kona mér, sem lengi dvaldi í Utah, að hún hefði þekt um 30 Íslendinga – flest konur – er búið hefðu í Spanish Fork um lengri eða skemmri tíma, sem Einar slepti úr Landnámssögu sinni. Minntist hún á þessa “vangá“ við hann, en honum fanst ekkert athugavert við það, að ganga framhjá fólki, sem hefði “týnt sjálfu sér“ og kvaðst “ekki leggja það í vana sinn, að semja rit um óheiðarlegt kvenfólk.“ En svo nefndi hann konur hinna fleirkvæntu manna“ (SÍV II bls. 16).