Washington

Vesturfarar

  Washingtonríki er í norðvesturhorni Bandaríkjanna vestur við Kyrrahaf. Það liggur að Bresku Kólumbíu að norðan, Oregonríki að sunnan og Idaho að austan. Höfuðborgin er Olympia en Seattle borga stærst. Svæðið varð bandarískt árið 1846 og var nefnt í höfuðið á fyrsta forseta Bandaríkjanna, George Washington. Ríkið er 18. stærsta ríki Bandaríkjanna tæpir 185.000 ferkílómetrar. Þar búa 7.7 milljónir manna og er Washington 13 fjölmennasta ríki Bandaríkjanna. Flestir búa í og umhverfis Seattle, sem er miðstöð vöruflutninga, viðskipta og iðnaðar. Puget flói gegnir veigamiklu hlutverki við flutninga til og frá Bandaríkjunum. Landslag er fjölbreytt, víða skógi vaxið, hálent vestan-, norðaustan-, mið- og suðaustanvert. Mount Rainier er hæsta fjallið, 4.400m á hæð. Víða eru landbúnaðar-héruð, akurlendi og ákjósanlegir hagar þar sem griparækt er mikil.

Atvinna: Landbúnaður er mikill og fjölbreyttur. Nautgriparækt víða stunduð í stórum stíl, skógarhögg mikið og timburframleiðsla, þá er ávaxtarækt mikið stunduð. Fiskveiðar umtalsverðar, einkum lax- og lúðuveiði. Loks má geta þess að víngerð er mikil, aðeins Kalifornía framleiðir meira. Iðnaður er mikill og fjölbreyttur. Skipa- og flugvélasmíði þónokkur svo og málmbræðsla. Raforka er nýtt í iðnaði, fjölmargar stíflur risu og anna allri eftirspurn.

Frumbyggjar -Landkönnuðir: Elstu mannleifar sem fundist hafa í N. Ameríku eru taldar 9.300 ára gamlar og fundust í Washington um 1990. Ýmsir ættbálkar frumbyggja bjuggu víðs vegar um ríkið, sumir við hafið, aðrir á sléttunum og loks voru ýmsir við rætur fjallanna. Lifnaðarhættir byggðust fyrst og fremst á því sem náttúran gaf. Við hafið voru fisk-og hvalveiðar stundaðar, laxveiðar í ám, dýraveiðar á láglendi og viðrætur fjalla, berjatínsla víða og sums staðar garðrækt. Upp úr 1870 geisaði skæð bólusótt, sem eyddi fjölmörgum ættbálkum.  Spánverjar voru fyrstir Evrópubúa til að kanna svæðið. Árið 1775 sigldu tvö skip þeirra norður eftir strandlengjunni, alla leið að Prince William Sound í Alaska. Þegar sást til lands fór skipstjóri annars skipanna í land með nokkra menn og könnuðu þeir svæði og að þeirri könnunarferð lokinni lýsti skipstjórinn yfir að hafið væri spánskt og öll lönd sem lágu að hafinu tilheyrði nú spánska heimsveldinu. Bretar voru skömmu seinna þar á ferð og var James Cook leiðangurstjóri. Hann sá landið við Juan de Fuca sund en skoðaði það ekki. Það gerði hinsvegar landi hans Charles William Barkley árið 1787. Spánverjar voru aftur á ferðinni, fyrst Manuel Quimper árið 1790 og ári seinna Francisco de Eliza. George Vancouver fór fyrir leiðangri árið 1792.

Landnemar:  Á fundi Breta og Spánverja árið 1790 voru yfirráð Spánverja endurskoðuð og samþykkt að opna norðvestur svæðið við Kyrrahaf fyrir landkönnuðum öðrum en Spánverjum. Hér var helst um að ræða breskum en einnig rússneskum svo og bandarískum. Snemma á 19. öld fóru Bretar að nota stórfljótin Columbia og Snake River t.d. sigldi David Thompson niður Columbia ána og þar sem hún sameinast Snakeá fór hann í land 9. júlí, 1811, setti upp mikla súlu sem á stóð að héraðið allt væri breskt umráðasvæði. Á næstu áratugum urðu deilur milli Breta og Bandaríkjanna um yfirráðasvæðið en með svokölluðum Oregon samningi (Oregon Treaty) 15. júní, 1846 samþykktu Bretar að mörkin milli Bresku Kólumbíu og Bandaríkjanna skildu vera við 49. breiddargráðu, svæðið sunnan við varð hér eftir bandarískt. Fyrstir til að setjast að voru trúboðar og skinnakaupmenn en það gekk ekki átakalaust því frumbyggjar voru ósáttir. Árið 1836 ferðuðust trúboðar um svæðið, settu upp trúboðsstöðvar og komu sér fyrir. Einn slíkur var Marcus Whitman sem fór mikinn, setti upp trúboðsstöðvar víðs vegar á svæðum frumbyggja. Með þeim skipulagði hann svo flutningaleið úr austri vestur að Kyrrahafi. Svonefnd Oregonleið (Oregon Trail) varð eins konar þjóðbraut og eftir 1843 fóru þúsundir landnema eftir henni víðs vegar úr austurríkjum Bandaríkjanna og Evrópu. Marcus reyndi hvað hann gat til að vingast við frumbyggja, bauð þeim lækningu en þeir höfðu litla eða enga vörn gegn evrópskum sjúkdómum. Þeir dóu flestir en landnemar ekki. Frumbyggjar kenndu Marcusi um, réðust á stöð hans og tóku hann af lífi og drápu aðra tólf. Þetta endaði með miklum ófriði milli landnema og frumbyggja sem ekki lauk fyrr en 1872.

Íslenskir landnemar: Svokallað Vesturfaratímabíl hófst á Íslandi árið 1870 og stóð til ársins 1914. Rétt að geta þess að fyrstu Íslendingar til að flytja til Ameríku gerðu það árið 1854, þeir höfðu tekið trú Mormóna og fóru til Utah. Þangað fluttu svo einhverjir út öldina og snemma á 20. öld. Straumurinn frá Íslandi vestur var mestur til Kanada á síðustuáratugum 19. aldar, flestir fóru vestur á sléttuna, settust að í Manitoba, Saskatchewan, Alberta og Bresku Kólumbíu. Minnisota og N. Dakota voru þau ríki Bandaríkjanna sem íslenskir landnemar kusu helst á tímabilinu. Það er svo um aldamótin að Íslendingar vestast í Kanada og í miðvesturríkjum Bandaríkjanna fóru að setjast að í Washingtonríki, Staðir eins og Point Roberts, Blaine, Bellingham, Marietta, Birch Bay, Yakima og vitaskuld Seattle heilluðu Íslendinga og er landnámi þeirra þar getið í sérstökum þáttum á vefsíðunni.