Bellingham

Vesturfarar

Bellingham, Washington - Wikipedia

Bellingham Mynd Wikipedia

Árið 1941 birti Almanakið í Winnipeg grein eftir Margréti Jónsdóttur, betur þekkta sem Margrét J. Benedictsson. Greinin Bellingham og Bellingham Íslendingar er í þáttaröðinni Safn til Landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi. 

,,Bellingham er höfuðborg Whatcom sveitar (county) í ríkinu Washington. Borg sú er hér um bil 96 mílur norður frá Seattle og stendur að austan og sunnan við Bellingham-fjörð. Sá fjörður liggur inn úr Puget-sundinu mikla. Fyr meir voru þar tveir bæir, Fairhaven og Whatcom. Þessir bæir voru sameinaðir í eitt árið 1903 og þá fékk hann nafn sem nú ber hann n.l. Bellingham, og var kenndur við ofannefndan fjörð. En nafn þetta gaf George Vancouver honum árið 1792 til virðingar við lávarð Bellingham, sem fyrstur manna fann fjörðinn. Bellingham var því löglega stofnaður undir því nafni árið 1903. Hvað langt er síðan hinir bæirnir mynduðust eða bygð hvítra manna varð þar fyrst til er ekki vel ljóst. Nú er sagt, að í Bellingham séu 3500 manns. Þar er höfn ágæt og skipaferð mikil, vegna þess að Bellingham er norðasta sjóborg í þessu ríki, sem teljandi sé. Strandferðaskip milli Alaska og California koma þar við og flytja fólk og vörur fram og aftur, norður og suður. Aðal atvinnu veita timbur og þakspóna myllur. Þar eru og múrsteina og sements verksmiðjur, dósa og kassaverksmiðjur, niðursuðuhús fyrir lax og ávexti, sykurrófuverksmiðja, auk margs annars. Fjórar járnbrautir liggja gegn um bæinn, þær eru Northern Pacific, Great Northern, Milwaukee & St. Paul og Canadian Pacific. Þar eru margar veglegar byggingar, svo sem bankar, skólar af öllum tegundum, bókasöfn – bókhlöður – og milli 30 og 40 kirkjur, og tvö sjúkrahús og m.fl. Bellingham er fallegur bær. Afstaðan sú, að útsýn er  fjölbreytt og fagurt. Á firðinum eyjar, háar og lágar, bygðar og óbygðar, og að norðanverðu við fjörðinn þorpið Marietta. Þar búa enn nokkrir Íslendingar – meir um það síðar.  Austur frá Bellingham gnæfir Mt. Baker, hæsti tindur í Cascade-fjöllunum. Á vetrum faldar hann hvítu. Á sumrum einungis glæsibringu. En tignarlegur er hann hversu sem hann klæðist. Bellingham stendur í hæð þeirri er Seahome heitir – klæðir hana, og liggur norður austur frá henni og niður að sjó. Hæðin sjálf er há og næstum hnattmynduð. Vestan við hæðina sjálfa er dalverpi undur fagurt – nú albygt, umkringt hæðum, sem liggja til sjávar. Þar búa nokkrir Íslendingar. 

 Íslendingar

Íslendingar munu hafa komið til Bellingham um líkt leyti og þeir komu til Blaine og Marietta. Því miður eru nú margir farnir þaðan – eða dánir, svo til þeirra verður ekki náð, né neinar verulegar upplýsingar um ætt þeirra og uppruna, né heldur hvaða ár þeir komu þar. Verður þar því meira og minna að fara eftir ágizkunum og er það illa farið. En nú er að tjalda því sem til er.  Félagslíf  Íslendinga í Bellingham hefir án efa verið líkt og annarsstaðar, þar sem eru svo margir af þeim, að um slíkt geti verið að ræða. Smáfélög sem koma og fara, gera sitt gagn þeim, sem í þeim eru og sennilega fleirum, gleðja og hjálpa, meðan þeirra nýtur við. Veigamest er án efa lestrarfélag þeirra. Viðvíkjandi því, leyfi eg mér að taka eftirfarandi kafla upp úr bréfi frá manni, sem lengi hefir verið og er enn í Bellingham og því þessu vel kunnur. Hann segir:“Lestrarfélagið Kári var stofnað 14. mars 1914. Hvatamaður þess var hr. M. Goodman, og var það myndað á hans góða heimili með 40 meðlimum. Nú í dag höfum við 35 meðlimi og er það býsna gott, þar sem aðeins 14 eru eftir eftir af stofnendum þess. Sumir hafa flutt burtu, en flestir dánir og skarð sumra þeirra verður seint fylt. Við eigum fallegt bókasafn. En því miður get eg ekki sagt núna, hvað margar bækur eru í því. Þetta er eina félagið, sem stofnað hefir verið meðal Íslendinga í Bellingham.“ – Svo hljóðar þessi kafli. Hr. M. Goodman, sem hér er átt við, er Guðmundur E. Goodman, góður drengur og merkur maður – getið snemma í þessum þætti. „Mundi“ var hann alment kallaður. Lestrarfélag þetta starfaði vel, stóð fyrir flestum eða öllum samkomum í Bellingham, sem nokkurs var um vert. Forseti félagsins hefir lengst og oftast verði hr. Þórður Anderson, einnig getið í þessum þætti. Hefir hann lengi verið í Bellingham – var einn af stofnendum Kára og því félagsmálum Íslendinga þar vel kunnugur.