Árið 1926 birti Almanakið í Winnipeg grein eftir Margréti Jónsdóttur, betur þekkta sem Margrét J. Benedictsson. Greinin BLAINE er í þáttaröðinni Safn til Landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi. Skoðum nú ritgerð Margrétar:
Blaine
,,Blaine er smábær einn, í norðvestur-horninu á Bandaríkjunum- norðast í Whatcome héraði, í ríkinu Washington. Hann hóf tilveru sína árið 1888, var löggiltur 1891. Talið er, að hann hafi 4,000 íbúa. Bærinn tekur yfir svæði, sem er kringum þrjár mílur að lengd og míla og hálf til tvær á breidd.“
Útsýni frá Blaine og grendinni
,,Að norðan blasa við Vancouver-fjöllin; eru þao há og hrikaleg, oft hulin þokuhjúp; hæstu tindarnir skauta hvítu árið um kring – í flestum árum. Að austan eru hæðir, en suður af þeim tekur við fjallgarður í nokkurra mílna fjarlægð. Á þeim fjallgarði er Baker-hnjúkurinn hæstur (Moint Baker) með síhvíta kollinn eins og hvíthærður öldungur. Á sumrin sjást á honum svartir hryggir, sem víða teygja sig upp undir hettu hans, þó lægðirnar á milli séu fullar af snjó ár og síð. Suður frá Baker gnæfa þrír hnjúkar, sem nefnast „Systurnar“. Þessi fjallgarður liggur suður alla ströndina; í stöku stöðum ná fell og hæðir alla leið ofan að sjó. Utan í einni slíkri hæð stendur bærinn Bellingham, stjórnsetur Whatcome héraðs og telur frá 35.000 til 40.000 íbúa. Aftur eru þessi fjöll sumstaðar all-langt frá sjó, nema þar sem firðir skerast inn í landið. Þó fjöllin séu all-langt frá Blaine – flest í blámóðu -, auka þau mjög á fegurð útsýnisins. Rísa þau há og tignarleg í 30 til 50 mílna fjarlægð og minna mann sífellt á, að baki þeirra sé hulinn heimur. Frá fjöllunum niður að sjó, liggja frjó og fögur héruð, og upp á milli þeirra djúpir dalir, sem óvíða eiga sína líka að fegurð og landgæðum. Þá er og útsýnið að vestan, þar sem Ægir ríkir í almætti sínu. Upp úr hyldýpi hans rísa hávaxnar eyjar, og – svo eg taki mér orð skáldsins í munn – „fjarst í eilífðar útsæ“ gnæfir Vancouver-eyjan. Sést hún glögt í björtu veðri. Svo hvergi er auðn eða tóm. Hvarvetna áframhaldandi líf og litur, skrúð og tign – óendanleg tilbreytni. Nærsýnið er engu síður tilbreytilegt og dýrðlegt. Innfirðirnir baða fætur bæjarins og bygðarinnar – og íbúa þeirra, þegar þeir vilja. Hér ekur Sólin í gullkerru sinni yfir firðinum okkar á leiðinni til nætursala sinna. Ljóminn af föruneyti hennar speglar sig í firðinum öllum síðari hluta dagsins, svo maður freistast til að halda, að þar sé í sannleika „gullbrú“ og ekki þurfi annað en að stíga út á hana, til að vera með í þeirri dýru för. Og þegar sólin er gengin til hvíldar, hefur máninn eftirreið sína, með litlu minna skrauti. – Fagurt er sólsetrið á Vestfjörðum Íslands, en ekki er það síður fagurt hér.“
Veðrátta
,,Ef til vill er veðráttan hvergi í heimi farsælli en einmitt hér. Engum dettur í hug að halda því fram að hér sé ekkert að. Þó hyggjum vér, að það mætti með meira sanni gjöra, en nokkurs staðar annars staðar. Þegar jarðskjálftar, fellibyljir og stórflóð umturna verkum mannanna og tortíma þeim sunnar á Ströndinni, kemur slíkt ekki við á þessu svæði. Þegar frost og byljir æða yfir Austur- og Suðurríkun, já, og skýstrokkar, flóð og ýms önnur undur-, ríkir hin sanna kyrð og veðurblíða hér-aldrei kalt, aldrei of heitt; að eins stundum, á mælikvarða mannanna, of langt regntímabilið eða of stutt, eða þurkurinn of langsamur, – svo ekkert sé undan felt.“
Upphaf byggðar-atvinna
,,Eins og fyr er frásagt, varð Blaine löggiltur bær 1891. Eins og margir bæai hér á ströndinni, óx hann fljótt. og bjuggust menn við að hann yrði á skömmum tíma að stórborg. Stór-skógur náði fram að flæðarmáli. Alt umhverfið var einn blindskógur. Fiskurinn gekk upp í fjörusteina. Auðmenn að austan keyptu upp landið. Lóðir voru seldar og keyptar fyrir stórfé; hús þutu upp á skömmum tíma. Sögunarmyllur þutu upp og verkamenn þustu hingað hvaðanæfa. Eru nú flestallar þessar sögunarmyllur hættar að starfa, nema ein, sem kvað gefa 200 manns atvinnu, þegar hún er starfrækt til fulls, sem ekki er gjört nema að sumrinu og fram á haustið. – Önnur sögunarmylla er hér utan við bæinn, sem unnið mun í nokkuð stöðugt, en gefur ekki mörgum atvinnu.“
Fiskveiðar-nýting aflans
,,Frá því nokkru fyrir aldamótin og fram til 1910 urðu hér til mörg fiski-niðursuðuhús, sem flest höfðu einnig meira eða minna fiskiúthald. Eitt eða fleiri suðu og niður krabba og annan skelfisk. Byrjaði sú veiði nokkru fyr en laxveiðin. Á þessum árum unnu allir, sem vetlingi gátu valdið, eftir að niðursuðan hófst; konur unglingar pökkuðu með höndunum í könnurnar og höfðu góð laun, meðan á því stóð. Nú er þetta alt löngu búið. Vélarnar pakka í stað fólksins og fiskurinn á förum. Gildir hér hið sama og á Point Roberts. Hér í Blaine munu um eittskeið hafa verið sjö stór niðursuðuhús; nú er einungis eitt af þeim eftir (Alaska Pakkers’ Assn), sem teljandi er. En það er líka stórt og öflugt félag.- Eins og sjá má af því þegar er sagt, er atvinna hér nú mun minni, en áður hefir verið. Það virðist hafa legið fyrir Blaine, að verða að eins smábær. Þó hefir hann ýms skilyrði til að geta orðið stór í framtíðinni.“
Íslendingar
,,Engin veruleg samtök munu nokkurs staðar hafa átt sér stað meðal Íslendinga um flutning til Blaine eða landnáms þar. Enda var hér um engin heimilisréttarlönd að ræða. Menn urðu að kaupa hvern blett dýru verði, hvort heldur í bænum eða utan hans. En menn heyrðu óminn af „góðum tímum“ í Blaine, austur yfir fjöllin, þegar „tímar“ voru daufir annarsstaðar, og svo fóru þeir af stað, og vinir og frændur komu á eftir, og þó náðu fáir í „góðu tímana“, því þeir stóðu skamma stund. Stærsti og eini hópur Íslendinga kom frá Selkirk, Man. Þó voru nokkrir Íslendingar komnir á undan þeim. En þeir komu sinn úr hverjum stað, og dreifðir. Þannig héldu þeir áfram að koma, ein og tvær fjölskyldur í senn. Á sama hátt bygðist og landið. Að austan kom fólksstraumurinn, og strandaði hér. Lengra var ekki hægt að komast vestur, því hér tók hafið við. En það hefir orðið flestum að góðu, og fáir kæra sig um að fara austur aftur, hvort sem þeir eru í bygð eða bæ.“